Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Grundvallaratriðin í almenningssamgöngum

Grundvallaratriðin í almenningssamgöngum

Í dag fór ég á fróðlegan og greinargóðan fyrirlestur hjá Jarrett Walker, sem er bandarískur ráðgjafi í almenningssamgöngum. Hann er staddur hér á landi til að ráðleggja við útfærslu á svonefndri Borgarlínu, sem er lykilþáttur í nýkláruðu svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

Svæðisskipulagið var unnið á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hefur einna helst vakið athygli í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum vegna hugmynda sem þar eru settar fram um léttlestarkerfi. Í raun má segja að léttlest hafi tröllriðið allri umræðunni og fátt annað komist að. Fólk hefur skipst í fylkingar með eða á móti henni og rætt í þaula hvort hún sé raunhæf. Þar finnst mér fólk dálítið hafa misst sjónar á grundvallaratriðunum og efa að það hafi haft fyrir því að kynna sér svæðisskipulagið og hugmyndafræði þess almennilega.

Borgarlínan er nefnilega hugsuð sem annað hvort léttlestar- eða hraðvagnakerfi. Ekkert hefur verið ákveðið um útfærsluna, enda er hún ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er markmiðið - einn þéttur samgönguás almenningssamgangna um allt höfuðborgarsvæðið sem annar miklum fjölda farþega með hárri tíðni. Útfærslan ræðst síðar, út frá því sem er álitið hagkvæmt hverju sinni. Ekki er gert ráð fyrir að léttlestarkerfi yrði tekið í notkun fyrr en eftir nokkur ár, þegar íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu gæti farið að réttlæta það.

Walker byrjaði einmitt fyrirlestur sinn á að árétta að við skipulagningu almenningssamgangna ætti ekki að horfa of mikið  í hvaða tækni ætti að notast við. Hann braut þær þess í stað niður í ákveðin grundvallaratriði sem hjálpa til við að skerpa á viðfangsefninu.

Grundvallaratriðið sem vakti mesta athygli mína var samspil hagkvæmni og útbreiðslu. Hagkvæmast er að hafa fáar leiðir eftir þéttum samgönguæðum sem anna sem mestri eftirspurn en slíkt kerfi hefur ekki mikla útbreiðslu - margir hafa lélegan eða jafnvel engan aðgang að kerfinu. Útbreitt kerfi er ekki hagkvæmt en allir hafa þó einhver aðgang að því. Hægrimenn myndu væntanlega segja að allir hefðu þá í raun jafn lélegan aðgang. Á höfuðborgarsvæðinu hefur mjög rík áhersla verið lögð á útbreiðslu á kostnað hagkvæmni. Ekki bara vegna þess að byggðin er dreifð heldur vegna þess að litið er á það sem hlutverk almenningssamgangna að ná til sem flestra, að allir eigi rétt á þeim. Þetta sást vel á línuriti sem Walker sýndi, þar sem borið var saman hversu margir hlutfallslega í Reykjavík hafa engan, lélegan, miðlungs eða góðan aðgang að almenningssamgöngum - og þessar tölur bornar saman við sambærilegar tölur í ýmsum borgum. Það eru fáir í Reykjavík sem hafa engan aðgang en að sama skapi fáir sem hafa góðan aðgang, og borgin sker sig mjög úr hvað þetta varðar. Borgarlínan byggist á því að auka við hagkvæmnina með því að þétta þessa einu leið. Ekki veit ég til þess að til standi að leggja af einhverjar ferðir til dreifðari svæða en þetta er umræða sem ég tel að þurfi að taka af hreinskilni og lausnamiðað. Væri kannski möguleiki að fólk borgaði til samræmis við það hversu kostnaðarsamt er að þjónusta svæðið sem það býr á?

Eftir fyrirlesturinn var opnað fyrir spurningar og þingmaðurinn Frosti Sigurjónsson spurði hvort ástæða væri til að ætla að tilkoma sjálfkeyrandi bíla myndi breyta forsendum almenningssamgangna í framtíðinni. Þetta er nokkuð sem ég hef séð marga velta fyrir sér þannig að það var gott að fá innlegg sérfæðings í þá umræðu. Svar Walkers var að jafnvel þó við gæfum okkur að í framtíðinni verði flestir eða allir bílar sjálfkeyrandi myndi það ekki breyta forsendum almenningssamgangna verulega. Mér fannst rök hans sannfærandi og þau ríma við mínar eigin niðurstöður af því að velta þessu fyrir mér. Þó bílarnir yrðu sjálfkeyrandi myndu þeir áfram taka sama pláss á götunum, en almenningssamgöngur miðast að því að minnka það pláss sem hver og einn tekur og gera göturnar þannig að skilvirkari æðum. Ef bílar verða almennt sjálfkeyrandi er síðan engin ástæða til að ætla að strætisvagnar verði ekki sjálfkeyrandi - og það er jafnvel einfaldara að hanna sjálfkeyrandi strætisvagna en bíla þar sem aðeins þarf að forrita þá til að keyra eina afmarkaða leið.

Hins vegar eru auðvitað mikil sóknarfæri t.d. í sjálfkeyrandi leigubílum og bílum sem fólk getur deilt með sér, að horfið yrði frá 'séreignastefnu' á bílum. Með því myndi sparast mikið rými sem nú fer í bílastæði, en það hefur auðvitað lítil áhrif á almenningssamgöngur, nema þá óbeint í því formi að byggðin verður þéttari. Þéttari byggð þýðir auðvitað skilvirkari almenningssamgöngur.

Samgöngumál þarf að hugsa til langs tíma, enda gildir svæðisskipulagið til 2040. Og til að hugsa til langs tíma þarf að hugsa í grundvallaratriðum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni