Glæpavæðing áhættunnar
Ég styð heilshugar afglæpavæðingu vímuefna. Í þessu felst að neysla og varsla neysluskammta á vímuefnum séu refsilaus og þau vandamál sem stundum skapast í sambandi við neyslu þeirra séu meðhöndluð sem velferðar- og heilbrigðismál en ekki glæpamál.
Að gera fólki refsingu fyrir það sem það gerir öðrum að skaðlausu (allavega með beinum hætti) og þá áhættu sem það tekur sjálft finnst mér mjög ómannúðlegt, auk þess sem það er vitað mál og vísindalega vel sannreynt að refsingar virka almennt illa til að stjórna hegðun fólks.
Betra er þá að umræða um vímuefni sé tekin án fordæminga og hræðsluáróðurs og við fótum okkur í sameiningu áfram í því hvað hverjum og einum er hollt í þessum efnum. Þar á ég auðvitað við öll vímuefni. Þó áfengi sér gjarnan tekið sérstaklega út fyrir sviga (af hverju er til dæmis talað um áfengi og vímuefni?) er ekki síst mikilvægt að hafa það með og jafnvel taka sérstaklega fyrir. Sú staðreynd að eitt er löglegt en annað ekki vill skerpa mjög línurnar í huga fólks. Gera okkur auðvelt að afsaka áfengið en varpa þess í stað sök á eitthvað annað. Hugsa um okkur á móti hinum, eins og mannfólkinu hættir gjarnan til að gera.
Þetta er reyndar afstaða ég hef tekið oft áður og útlistað í lengra máli en ég ætla mér að gera núna. Það er nefnilega víðar sem lög virðast vera sett til að refsa fólki eða stjórna því að öðru leyti vegna hegðunar sem felur fyrst og fremst í för með sér áhættu fyrir það sjálft.
Í umferðalögum (sem ég hef nú líka tekið aðeins fyrir áður) má stundum finna nærtæk dæmi.
Nýverið rakst ég á grein í erlendum vefmiðli þar sem rakin er saga glæpavæðingar þeirrar hegðunar að ganga ógætilega yfir götur sem ætlaðar eru bílum. Í stað þess að fólk liti á bílana sem hálfgerðar boðflennur á götum sem aðallega voru ætlaðar gangandi fólki, að ökumenn bíla ættu að sýna mikla ábyrgð og aðgát, breyttist hugarfarið sem og löggjöfin með markvissu átaki hagsmunaaðila í bílaiðnaðinum yfir í að bílarnir ættu göturnar - og að þeir væru vitlausir og kærulausir sem ekki gættu að bílunum. Slík hegðun var meira að segja glæpavædd. Víða er núorðið bann lagt við að ganga yfir götur á röngum stað eða á rangan hátt og jafnvel sektað fyrir slíka iðju.
Ekki er gengið svo langt hér á landi að beinlínis sekta eða refsa fyrir slíka ósvinnu en þó er í umferðalögum tekið fram að:
Gangandi vegfarandi, sem ætlar yfir akbraut, skal hafa sérstaka aðgát gagnvart ökutækjum, sem nálgast.
Það er nokkuð ljóst að þessi lagaskylda snýst fyrst og fremst um að fólk sýni aðgát til að passa upp á sjálft sig. Það er líka frekar upplýsandi að engin samsvarandi ákvæði eru um að ökumenn sýni aðgát vegna gangandi fólks, nema þá sérstök ákvæði sem gilda um aðgát við vegamót, gangbrautir og þegar bíll keyrir á göngugötu eða vistgötu. Engin almenn ákvæði þó um hvernig beri að haga sér gagnvart fólki sem gengur eða gæti mögulega verið að fara að ganga yfir götu.
Einnig má benda á að framarlega í umferðarlögum er hið mjög svo almenna ákvæði: „Vegfarandi skal sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu.“ Allt sem síðan er tekið fram sérstaklega varðandi skyldur vegfarenda til að sýna aðgát er því ansi upplýsandi upp á það hvernig löggjafinn hugsar um umferðina. Það er upplýsandi að umferðarlögin segi sérstaklega að gangandi sem fara yfir götu þurfi að sýna aðgát en að ekkert um almenna aðgát ökumanna gagnvart gangandi, þó það séu bílarnir sem eru gangandi fólki hættulegir frekar en öfugt. 'Glæpavæðing' áhættunnar leggst á þann sem er líklegur til að verða fyrir slysi. Þessi þankagangur smitar út frá sér á margvíslegan hátt. Til dæmis hættir ökumönnum sem þurfa að stoppa fyrir gangandi fólki við gangbraut eða ljós til að vera óþolinmóðir yfir því, enda 'eiga' þeir jú götuna og allar tafir geta verið pínu pirrandi.
Kannski er þetta smámunasemi hjá mér, þar sem íslensk umferðarlög eru ekki nærri því jafn harkaleg gagnvart gangandi fólki og víða erlendis, en mér finnst svona lagað samt sem áður mjög áhugavert og ég hef hérna fyrst og fremst áhuga á viðhorfunum. Undirliggjandi viðhorf okkar eru langt í frá sjálfsögð. Fólk hefur ekki alltaf hugsað eins og við hugsum og það er ekkert sjálfgefið við þá hugsun. Það er hollt að staldra við og skoða þau viðhorf sem þykja sjálfgefin og rekja sögu þeirra og spá í hvort önnur viðhorf væru betri.
Í tilfelli umferðarinnar má velta fyrir sér hvort það sé besta viðhorfið að ökumenn 'eigi' göturnar og að gangandi fólk sé boðflennur sem þarf að passa sig í hvert skipti sem það dirfist að fara yfir þær. Væri kannski betra að hugsa þetta aftur þannig (allavega í nálægð við íbúabyggð) að bílarnir séu boðflennurnar og ökumenn eigi að vera vakandi fyrir því að gangandi fólk gæti verið á ferli hvar sem er? Að ábyrgð á áhættunni sé frekar á þeim sem er líklegur til að valda öðrum skaða en á þeim sem er líklegur til að verða fyrir skaða?
Slíkur þankagangur held ég að væri góður á öllum sviðum samfélagsins ef út í það er farið.
Athugasemdir