Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Gagnagildran á netinu

Gagnagildran á netinu

Ég er einn af fjölmörgum sem tóku þátt í átaki sem Facebook bauð fólki upp á í kjölfar þess að Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að hjónabönd samkynhneigðra ættu að vera lögleg í öllum ríkjum þeirra. Facebook bauð fólki upp á tól þar sem fólk þarf bara að smella á einn takka til að mála myndir sínar regnbogalitum og fagna þannig niðurstöðunni.

Ekki voru allir hressir með framtakið því sumir bentu á að auðvelt væri fyrir Facebook að nota þetta tól til að safna gögnum um notendur og rannsaka þannig hegðun þeirra - að með þessu væri fólk að ganga í hálfgerða gagnagildru. Facebook hefur viðurkennt að hafa staðið fyrir slíkum rannsóknum áður, þá jafnvel í samvinnu við fólk úr fræðasamfélaginu. Í fyrra vakti það til dæmis mikið umtal þegar í ljós kom að á Facebook hafði verið gerð tilraun sem fólst í því að breyta því hvernig efni notendur sáu og skoða hvort það hefði áhrif á það hvernig það tjáði sig á Facebook í kjölfarið.

Í sjálfu sér er þetta réttmæt viðvörun en þarna er þó horft framhjá því að það er óttalega lítið mál fyrir þá sem reka Facebook að nýta öll gögn sem sett eru þangað inn í rannsóknartilgangi. Gögnin eru jú öll skráð hjá þeim; við setjum þau inn og þau eru öll á sama miðlæga gagnagrunninum. Þannig væri til dæmis alveg jafn hæglega hægt að gera rannsókn í tenglsum við hegðun allra þeirra sem hafa sett eitthvað inn undir formerkjum #FreeTheNipple eins og að gera slíka rannsókn á fólki sem hefur sett inn regnbogamynd. Regnabogamyndirnar eru bara aðeins meira áberandi - toppur á ísjaka.

Málið með gögn á stafrænu formi í miðlægum gagnagrunnum er nefnilega er að það er mjög auðvelt að vinna með þau og gera eins flóknar rannsóknir á þeim og fólki dettur í hug að gera. Það er nákvæmlega tilgangurinn með þeim - styrkur þeirra en jafnframt þeirra helsta vandamál. Þetta skildu margir undir lok síðustu aldar þegar stjórnvöld vildu styðja við starfsemi líftæknifyrirtækisins Decode og rekstur þess á miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði. Réttilega heyrðust efasemdaraddir sem spurðu út í afleiðingarnar af þessu að skrá svo viðkvæmar upplýsingar á einum stað.

Síðan þá hafa af og til verið mál í deiglunni sem tengjast miðlægri söfnun upplýsinga. Stærsta málið í seinni tíð er uppljóstranir Edward Snowden sem sýndu fram á að stór netfyrirtæki, meðal annars Facebook, væru í samstarfi við NSA (Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna) um að veita þeim aðgang að upplýsingum í massavís. Þó NSA sé þarna aðalsökudólgurinn verður ekki framhjá því litið að það sem gerir stofnunni kleift að komast í þessar upplýsingar er að þær eru til staðar. Skráðar miðlægt og samkeyranlegar.

Á netinu hefur á undanförnum árum átt sér þróun sem er algjörlega þvert á það sem marga dreymdi um á árdögum þess að það myndi alltaf standa fyrir. Netið (eða réttilega veraldarvefurinn, sem flestir hugsa núorðið sem um það sama og netið þó hann sé í raun stærsta undirmengi þess) byrjaði nefnilega sem mjög dreift kerfi þar sem engir áttu stórar sneiðar af kökunni en hefur þróast í mun miðlægari átt. Nú ráða ríkjum nokkur risafyrirtæki sem mjög stór hluti netumferðarinnar fer í gegnum. Google trónir þar efst og Facebook er mjög ofarlega. Mín eigin nethegðun hefur breyst yfir í að margt af henni fer í gegnum Facebook. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst þægindi. Það er þægilegt að hafa eitt á einum stað og miðlæg samfélagsnet hafa ýmsa kosti í för með sér fyrir netverja. Þægindum fylgir þó oft fórnarkostnaður sem ekki er augljós. Í þessu tilfelli er einn fórnarkostnaðurinn sá að fólk er almennt ekki mikið að spá í hættunni sem fylgir af miðlægri söfnun upplýsinga af þessu tagi. Fólk andmælir margt hvert réttilega ásælni NSA í gögn en lætur þau sjálfviljugt af hendi af því það er þægilegt.

Hér er ég ekki að segja að fólk geti sjálfu sér um kennt (enda eiga ríki að standa vörð um að stofnanir þess seilist ekki inn í einkalíf fólks bara vegna þess að það er tæknilega mögulegt) - en það er engu að síður staðreynd að núorðið ríkir værukærð gagnvart því að láta af hendi gögn sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Ég held að eitt stærsta áskorunarefni okkar allra á komandi árum verði að takast á við sambandið milli þæginda upplýsingatækninnar og hættunar á misnotkun hennar. Þar mega stjórnvöld ekki láta sitt eftir liggja og þau verða að búa yfir þekkingu til að vera fær um að takast á við þessi mál. Þetta er ein af stærstu ástæðunum fyrir því að Píratar eru til - og þurfa að vera til. Í grunnstefnu Pírata segir að friðhelgi einkalífsins snúist um vernd hinna valdaminni frá misbeitingu hinna valdameiri og í því samhengi eru bæði stórfyrirtæki og ríkisstjórnir klárlega valdameiri en almenningur.

Góðu og slæmu fréttirnar eru sumsé að regnbogamyndir skipta nákvæmlega engu máli í hinu stærra samhengi sem er stóra gagnagildran á netinu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni