Forsendur nektarinnar
Nú þegar bloggsvæði Stundarinnar er opnað og ég fæ þann heiður að skrifa fyrsta pistil minn hér stendur yfir merkilegt íslenskt átak sem hlotið hefur heimsathygli og vakið töluvert umtal. Það liggur beinast við að stökkva á þann vagn enda fylgir með saga sem ég hef ekki haft kjark til að segja mörgum hingað til en á heima í umræðunni að ég tel.
Átakið snýst um að stúlkur og konur bera geirvörtur sínar til að storka rótgrónum samfélagslegum viðmiðum um nekt. Þetta er útvíkkun á eldra átaki sem snerist um að frelsi kvenna til að gefa börnum brjóst - í þetta sinn almennara og ekki bara bundið við brjóstagjafarsamhengi. Í grunninn snýst það samkvæmt mínum skilningi um að frelsa nekt kvenna úr viðjum þeirra núgildandi viðmiða að við karlar stjórnum gjarnan forsendum hennar. Núorðið birtist þetta til dæmis í svonefndu hrelliklámi (sem er betra orð en hefndarklám), þar sem persónumörk eru vanvirt og nekt sem sýnd er í trúnaði er opinberuð í óþökk þess sem á nektina.
Þetta er auðvitað ekki alfarið bundið við að karlar geri þetta við konur þó það sé algengast, í samræmi við þau viðmið að nekt kvenna sé verðmæti sem karlar fái mikið út úr því að afhjúpa og leggi því ‘eðlilega’ mikið á sig til að sjá. Ég hef sjálfur upplifað það að nekt mín sé ekki undir minni stjórn heldur annarra. Þegar ég var 4 - 5 ára gamall á göngu úti við veittist að mér hópur eldri stráka sem einhverra hluta vegna neyddi mig til að bera sig fyrir þeim. Ég veit ekkert hverjir þetta voru eða af hverju þeir voru að þessu og man ekki mikil smáatriði en þetta hefur alltaf setið mjög illa í mér, eins og vill verða þegar börn eru svipt sakleysi. Við erum felst alin upp í að treysta því að heimurinn sé öruggur en það þarf ekki mikið til að mölva það traust þannig að langan tíma taki að púsla því aftur saman.
Það er ekki svo langt síðan ég fann fyrst hjá mér kjark til að segja frá þessu en síðan þá hefur einn og einn bæst í hóp þeirra sem fær að vita. Ég veit vel að það er hollt að opna sig um svona lagað en það er samt mjög erfitt. Tilfinningarnar eru sterkar og erfiðar og fengu að malla svo lengi í algjörri einangrun. Ég á líka erfitt með að líta á mig sem alsaklausan brotaþola þar sem ég hef sjálfur á fullorðinsárum ekki alltaf fyllilega virt mörk annarra. Það má og má ekki vera að reynsla mín í æsku hafi eitthvað með það að gera en hvað sem því líður ber ég fulla ábyrgð á minni eigin hegðun. Við mannskepnurnar erum viti bornar og höfum getu til að velta fyrir okkur hegðun okkar og axla ábyrgð á henni og breyta henni. Það er ekki alltaf auðvelt og krefst stundum átaka og fórna en það er samt hægt. Ein ‘fórn’ sem ég færði til að breyta minni hegðun var að hætta að drekka, af margvíslegum ástæðum, ekki bara þeirri að vangeta mín til að virða persónuleg mörk annarra var í hvert skipti tengd áfengisneyslu.
Leiðirnar fyrir okkur til að firra okkur og annað fólk ábyrgð eru hins vegar mýmargar og átakið um berun geirvörtunnar varpar ákveðnu ljósi á ábyrgðina eins og samfélagið sér hana. Ég held það þurfi ekki frekari sannanir þess að átakið virkar til að varpa ljósi á hverjir eru sviptir ábyrgð og hvernig en þessa frétt DV og þá sér í lagi athugasemdirnar við hana, þar sem margir kenna átakinu sjálfu um það ofbeldi sem í fréttinni er lýst. Athugasemdaritararnir sem viðra slík viðhorf skauta algjörlega framhjá því að það var enginn að neyða né hvetja strákana í strætónum til að ganga eftir því að stelpan sýndi brjóst sín og gera síðan grín að henni þegar hún vildi það ekki. Þeir eru víst bara ábyrgðarlausar vélar og sjálfgefið að þeir hagi sér svona þegar stelpur taka upp á því að sýna sig. Sjálfgefið að þeir nálgist það eingöngu út frá sínum forsendum og þeim þörfum sem samfélagið hefur innprentað þeim.
Forsendur stelpnanna sjálfra fyrir nekt sinni og þeirra val um hana eru virtar að vettugi - fyrir þessum strákum og þeim sem telja hegðun þeirra sjálfsagða eru forsendurnar ófrávíkjanlega kynferðislegar og sjálfsagt að þeir færi sig upp á skaftið og heimti meira og meira til að svala sínum þörfum þegar flóðgáttin er opnuð bara aðeins. Það er allt eða ekkert og óttinn ræður óhaminn ríkjum. Þetta er ansi svipað viðhorf og býr að baki því að það sé svo sjálfsagt að nektarmyndum sem manneskja kýs að deila með annarri manneskju sé dreift um allt netið að réttast sé að sleppa slíku bara alfarið. Óhjákvæmileiki þeirrar hegðunar að vanvirða persónumörk annarra svo algjör að gefist er upp fyrir henni og ábyrgðin færð yfir á þau sem þurfa að passa sig á að kynda ekki undir hana. Frelsið sem þarna er vitt að vettugi er kynfrelsi og það inniheldur réttinn til að hafa eitthvað val um forsendur sinnar eigin nektar og hvernig hún er notuð.
Samfélag sem þrengir valkosti fólks í þessum efnum með því að líta á heftandi og kúgandi hegðun sem innbyggða í það er samfélag sem heftir kynfrelsið. Við stöndum frammi fyrir mörgum nýjum áskorunum í þessum efnum og átakið snýst ekki síst um þau. Þó svo að upplýsingasamfélagið gefi hverjum og einum fullt frelsi til að dreifa hverju sem er um netið þýðir það ekki að það sé óhjákvæmilegt að allt rati á netið - ekki nema við gefumst einmitt upp fyrir því að svo sé og tökum ekki á ábyrgð hvers og eins í þessum efnum.
Átakið er mér líka tilefni til að rifja upp tveggja ára gamalt dómsmál sem ég hafði og hef enn sterkar skoðanir á. Dómsmálið og önnur sambærileg varpa ljósi á hvernig einstefna í því hver stjórnar forsendum heftir kynfrelsi. Samkvæmt furðulegri lagatúlkun eru það forsendur geranda eingöngu sem stjórna því hvort brot telst kynferðisbrot. Hvorki eðli verknaðarins né forsendur og upplifun brotaþola hafa þar áhrif. Samkvæmt þessu var í augum laganna væntanlega ekki á mér brotið kynferðislega í æsku eða jafnvel ekki brotið yfir höfuð (þó það hafi haft varanleg kynferðisleg áhrif á mig) ef það var ekkert annað en hrein meinfýsni sem dreif þá sem þar voru að verki áfram. Kynferðisbrot er jú það sem veitir geranda kynferðislega örvun, rétt eins og ber kvenkyns geirvarta er alltaf kynferðisleg.
Í báðum tilfellum er brengluðum samfélagsviðhorfum (sem við erum öll hluti af og höfum áhrif á) um að kenna en ekki líffræðilegum staðreyndum sem grafnar eru í stein. Viðhorfum sem þarf kjark og þor til að storka og breyta. Ekki bara háfleyga umræðu heldur aðgerðir og átök sem fólk gefur sig bókstaflega allt í og ríður á vaðið jafnvel þó það sé skíthrætt enda felst kjarkur ekki í óttaleysi heldur því að gera það sem manni finnst rétt þrátt fyrir óttann. Virðum þær sem sýna nú slíkan kjark á sínum forsendum í stað þess að skamma og fussa.
Lifi byltingin.
Athugasemdir