Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fjölgun borgarfulltrúa - hverfavinkillinn

Fjölgun borgarfulltrúa - hverfavinkillinn

Borgarfulltrúar í Reykjavík eru nú 15 og hafa verið það í meira en 100 ár en á þeim tíma hefur íbúafjöldinn meira en tífaldast. Jafnvel þó við seilumst svo langt að gefa okkur að kjörnir fulltrúar hafi verið allt of margir á hvern íbúa við upphaf síðustu aldar eru rökin fyrir því að uppfæra fjöldann allavega aðeins í takt við íbúaþróun sterk. Skattstofninn vex og vex og mér finnst eðlilegt að horfa til þess að nýta smá af þeirri aukningu í fleiri fulltrúa almennings.

Við sem þekkjum til borgarkerfisins vitum til dæmis að það hefur í raun vaxið án fjölgunar eiginlegra kjörinna fulltrúa, alveg af sjálfu sér. Þannig eru nefndir og ráð borgarinnar að hluta til mönnuð pólitískum fulltrúum sem eru sóttir út fyrir raðir borgarfulltrúa. Þessir fulltrúar fá greitt fyrir fundarsetuna og því kæmi með fjölgun borgarfulltrúa sparnaður á móti ef einfaldlega yrði gerð krafa um að nefndir og ráð yrðu mannaðar borgarfulltrúum eingöngu, en við fáum ekki greitt sérstaklega fyrir fundarsetu.

Fjölgun er einmitt yfirvofandi. Í sveitarstjórnarlögum er í 11. grein kveðið á um lágmarksfjölda og hámarksfjölda kjörinna fulltrúa eftir stærð sveitarfélaga. Með breytingum á þessari grein sem fylgdi endurskoðun laganna árið 2011 var lágmarkið fyrir sveitarfélög með yfir 100.000 íbúa (en Reykjavíkurborg er það eina sem uppfyllir það skilyrði eins og er) hækkað úr 15 í 23 og tekur sú breyting gildi á næsta kjörtímabili. Á þessu kjörtímabil hefur forsætisnefnd borgarinnar, sem fjallar um kjör og starfsaðstöðu borgarfulltrúa, unnið að því að leggja upp hvernig koma megi auknum fjölda borgarfulltrúa fyrir í kerfinu. Við höfum þar meðal annars gengið út frá áðurnefndri leið um að nýta tækifærið til að einfalda kerfið þannig að flokkarnir þurfi að manna öll ráð og nefndir með þeim fulltrúum sem voru kjörnir í almennri kosningu.

Þar undir eru meðal annars hverfisráðin, en þau hafa verið starfrækt hjá borginni um nokkurt skeið, eitt í hverju af tíu hverfum borgarinnar eins og núverandi hverfaskipting kveður á um. Þeim er ætlað að vera vettvangur til að fjalla um þau málefni sem tengist viðkomandi hverfi en hafa verið gagnrýnd fyrir að vera óskilvirk í núverandi mynd. Flokkarnir skipa í þau en núorðið eru þau almennt alfarið skipuð fulltrúum sem ekki eru borgarfulltrúar. Með auknum fjölda borgarfulltrúa gefast aukin tækifæri til að manna þau borgarfulltrúum og skapa þannig beinni tengingu inn í borgarkerfið. Reglulega er bent á að einhverra hluta vegna hafa málin þróast þannig að meirihluti borgarfulltrúa býr miðsvæðis - og fundir okkar eru almennt haldnir miðsvæðis og hvatar til þess að fara út fyrir það svæði eru ekki endilega miklir þó sumir fulltrúar séu mjög duglegir við það. Með því að taka sæti í hverfisráði þyrfti viðkomandi borgarfulltrúi að setja sig inn í málefni viðkomandi hverfis, óháð því hvort hann býr þar eða ekki. Hverfisráð funda almennt í viðkomandi hverfi og þannig myndi borgarfulltrúinn kynnast nærumhverfi þess og hvernig samgöngum frá því og innan þess er háttað.

Þannig myndi fást skýrari tenging við aðra stjórnsýslu borgarinnar og borgarfulltrúar yrðu að setja sig inn í málefni hverfanna. Enn betri tenging við íbúa hverfanna myndi hins vegar fást með því að kjósa hluta fulltrúa í hverfisráðunum beinni kosningu meðal íbúa viðkomandi hverfis. Hægt væri að bjóða sig fram á flokkspólitískum eða óháðum forsendum en um persónukjör yrði að ræða. Þannig yrðu fulltrúar kosnir á þeim forsendum að vera íbúar tiltekins hverfis fyrst og fremst.

Þeirri hugmynd að breyta því hvernig skipað er í hverfisráðin þannig að tveir yrðu skipaðir úr hópi borgarfulltrúa og þrír kosnir beint meðal íbúa hverfisins var fleytt í samráðsferli hjá stjórnkerfis- og lýðræðisráði í fyrra og mæltist almennt ágætlega fyrir þó efasemdir hafi verið uppi um t.d. hversu heppilegt það væri að hafa hverfisráð sem ekki ynni nauðsynlega alveg í takt við pólitísku fulltrúana í borgarstjórn hverju sinni. Eftir væri þó að útfæra ýmis atriði á borð við hvernig bein kosning í hverfisráð færi fram. Þar mætti hugsa sér netkosningu eða að kosið verði samhliða borgarstjórnarkosningum, en allar leiðir hafa auðvitað sína kosti og galla.

Fleiri breytingar sem miða að auknum áhrifum hverfanna í borginni hafa verið viðraðar. Til að mynda hefur Halldór Halldórsson lagt til að kosning borgarfulltrúa verði bundin við hverfi. Sú leið hefur líka sína kosti og galla; ég sé til dæmis það sem mögulega frekar stóran galla að borgarfulltrúar flytja oft milli hverfa eins og annað fólk og þá stendur eftir sú spurning hvort borgarfulltrúi þurfi þá að víkja úr sæti fyrir næsta fulltrúa hverfisins eða hvort hann verði áfram fulltrúi þess hverfis sem hann var kjörinn fyrir. Sú leið að festa borgarfulltrúa við ákveðin hverfisráð og kjósa líka í þau beint úr hverfunum er aðeins sveigjanlegri að þessu leyti.

Enn gefst rúmur tími til að ræða þessi mál enda kjörtímabilið rétt rúmlega hálfnað - en eitt held ég að sé nokkuð víst, að almenn samstaða ríkir um að hverfisráðin og hverfaþjónustan þarfnast uppstokkunar ef þetta á að virka eins og lagt var upp með það.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni