Borgaralaunabragur
Borgaralaun hafa nokkuð verið í umræðunni í kjölfar þess að Framsóknarmenn hafa farið í skipulagða herferð til að gera tal Pírata um þetta fyrirbæri tortryggilegt. Sú herferð hófst með grein upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, Borgaralaun - útópískur draumur?
Þetta er ágæt grein og höfundur heldur til haga hvers vegna nákvæmlega fólk víða um heim er að spá í borgaralaun:
Í fyrstu virðast þau viðbrögð vil [svo] flækjustigi bótakerfisins/velferðarkerfisins. Að því leyti gætu þau verið hentug leið til að núllstilla kerfi sem er orðið svo flókið og óskiljanlegt að efast má um að það sé að gera það gagn sem að er stefnt. Stuðningsrmenn þess að taka upp borgaralaun ganga út frá því að borgaralaun krefjist engra reiknikúnsta eða eftirlitsiðnaðar. Bótakerfi verða aflögð og þar með sparast vinna opinberra stofnana. Vinnutekjur leggjast ofan á borgaralaun. Ekki er gert ráð fyrir neinum skerðingum. Annað hvort eigi fólk rétt á þeim eða ekki og um sé að ræða sömu upphæð fyrir alla. Því séu borgaralaun „plain and simple, gagnsæ og sanngjörn,” eins og einn stuðningsmanna þeirra orðaði það á spjallvef.
Því miður hafa þeir Framsóknarmenn sem fylgt hafa þessum málflutningi eftir í ræðu og riti (meðal annars forsætisráðherra og aðstoðarmaður hans) ekki haft fyrir því að halda þessum kjarna málsins á lofti heldur hafa þeir einblínt á gallana við borgaralaun sem og þá staðreynd að þetta er í raun bara hugmynd á teikniborði og jafnvel útópísk hugmynd sem aldrei væri raunhæft að framkvæma. Í sjálfu sér er þetta alveg réttmæt gagnrýni en með ofurneikvæðri nálgun af þessu tagi sýnir fólk mjög ljóslega að það hefur engan áhuga á að ræða mikilvæg grundallaratriði.
Grundvallaratriðið hér er flækjustig velferðarkerfisins og það valdleysi sem skjólstæðingar þess finna fyrir í allt of miklum mæli. Erfitt getur verið að rata um rangala kerfisins og bera sig eftir því sem það hefur upp á að bjóða - og ofan á það bætist eftirlitsiðnaður þar sem fólk þarf stöðugt að sýna kerfinu fram að það eigi þetta allt saman skilið. Þetta er raunveruleiki sem margir skjólstæðingar kerfisins lýsa og hann er vandamál. Borgaralaun eru einstaklega einföld lausn á þessu, í raun róttækasta mögulega leið til að takast á við vandann. Allir fá einfaldlega það sama óháð stöðu.
Hins vegar er því alls ekki að neita að það þarf að skoða mjög vel hversu raunhæf borgaralaun eru og hvort fólk er sammála um forsendur þeirra - en Píratar hafa aldrei haldið öðru fram. Ekki frekar en aðrir í öðrum löndum sem hafa talað fyrir því að skoða borgaralaun (vefurinn basicincome.org gefur ágætt yfirlit yfir umræðuna og þróunina á heimsvísu). Samhliða þessari umræðu er alls ekki útilokað að ræða og setja fram leiðir til að stíga skref í átt að breytingum á kerfinu sem eru nærtækari en borgaralaun - og slík umræða og stefnumótun er í fullum gangi innan Pírata. Í grunninn snýst þetta allt saman um hvort fólk vill að hið opinbera haldi að sér höndum þegar kemur að útdeilingu bóta og haldi úti eftirlitsiðnaði í því skyni, eða hvort slaki í því borgi sig til lengri tíma og skili sér í auknum mannauði. Hvort kostnaður, fjárhagslegur og mannlegur, við eftirlitsiðnað í kringum bætur sé réttlætanlegur eða hvort við töpum í heildina meiru með honum en við myndum gera með auknu frelsi bótaþega til að standa á eigin fótum.
Að setja út á hugmyndir um borgaralaun á þeim grundvelli að þær séu illa útfærðar missir því algjörlega marks þar sem allir eru meira og minna sammála um þá staðreynd. Með því er líka gerð sú óraunhæfa krafa til þeirra sem taka þátt í stjórnmálaumræðu og leggja fram hugmyndir að allt sé algjörlega útpælt og útfært áður en það er sett fram til umræðu.
Orð eru jú til alls fyrst og það sem Ísland og jafnvel heimsbyggðin öll þarf einna helst á að halda er opin umræða um þær forsendur sem opinber kerfi eru byggð út frá - og hvort einhverjar af þeim forsendum þurfi að endurhugsa. Ef Framsóknarmenn hafa ekki áhuga á að taka þátt í þeirri umræðu með opnum huga er það einfaldlega þeirra missir. Sem og þeirra sem kusu flokkinn í þingkosningunum 2013 þegar gert var markvisst út á þá ímynd að Framsókn væri frjálslyndur umbótaflokkur fólks sem væri óhrætt við að storka rótgrónum kerfum og tala fyrir hugmyndum sem mörgum þóttu í fyrstu algjörlega óraunhæfar. Margir þeirra kjósenda kannast án efa illa við þá Framsókn sem birtist í harkalegum viðbrögðum talsmanna flokksins við því einu að einhver dirfist að kalla eftir umræðu um frumlegar hugmyndir.
Athugasemdir