Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Persónugerð Berlín

Fyrir allnokkru tók ég upp á þeirri iðju að skrifa hitt og þetta um höfuðborg Þýskalands. Hefi ég enn ekki gert nokkuð með þau skrif. Því hendi ég þessu hér inn til gamans. Nú eða ekki.

Í Berlín sjálfri búa eitthvað um 3,5 milljónir manns. Í Berlín og næsta nágrenni borgarinnar búa í kringum 4,5 milljónir manns. Eins og gefur að skilja segja þessar tölur ekki mikið um hvernig íbúarnir eru innstilltir. Tölur eru bara tölur og oftar en ekki á blaði. Til að gæða tölur lífi þarf að koma sér upp ákveðinni mynd. Það er að segja hvað eigi öðru fremur að einkenna viðkomandi stað. Það þarf að skapa ímynd. Títt byggist ímyndarsköpun á gegnumgangandi klisjum og staðalmyndum og ættum við Íslendingar að kannast við að þvíumlíkt þurfi ekki endilega að eiga fullkominn samhljóm með raunveruleikanum þótt sannleikstár megi ef til vill greina.

Líku er fyrir að fara í Berlínarborg. Og þegar leitast er eftir að draga fram auðkenni þessarar víðfeðmu borgar þá er oftar en ekki lögð áhersla á hina frjóu og skapandi hausa sem finna má innan vébanda hennar. Það vill nefnilega svo til að Berlín hefir löngun sogað til sín skapandi anda í formi allslags listamanna og fólks sem telur sér trú um að það slíkur andi hafi einhvern tímann komið yfir það.

Þegar þetta er skrifað er óhætt að segja að borgin hafi sannlega mikið aðdráttarafl á listamenn, lífsnautnarmenn og konur, allslags utanveltubesefa: fólk sem telur sig á skjön við ríkjandi viðmið og gildi sem og allrahanda og allra þjóða auðnuleysingja sem oft telja sér trú um að þeir séu kolbítar og að þeirra tími muni koma. Ein helsta ástæða þessa er sú að í Berlín er tiltölulega ódýrt að lifa bæði hvað húsnæði og matarinnkaup varðar. Ennþá í það minnsta. Því ganga margir lítt fjáðir listamenn um götur borgarinnar með þann draum í maganum að geta haft lifibrauð af list sinni.

Þessir allraátta listamenn leggja auðvitað sitt af mörkum í þá listasúpu sem Berlín telur sig vera. Súpu sem manni finnst oft og tíðum vera ofkrydduð og gerð af vanefnum þótt hún sé sannarlega áhugaverð um margt. Alltént er nóg um að vera og fallast manni oft hendur yfir úrvalinu með þeim afleiðingum að maður lendir stundum, án þess að ætla sér það, í menningarmegrun.

Svona hefir málum verið háttað á nokkrum tímaskeiðum borgarinnar þótt ekki hafi það alltaf verið álitið „sexí“. En nú til dags er það lenska að draga þennan þátt í forgrunn og segja, líkt og borgarstjórinn Klaus Wowereit, að Berlín sé fátæk en „sexí.“ Var hann að svara þeirri spurningu hvort samasemmerki væri á milli kynþokka og peninga er hann lét þessi orð frá sér fara. Ekki að það komi þessu máli beinlínis við enda verður vikið að meintum kynþokka borgarinnar síðar. Og til að loka þessum kafla skulum við láta nægja að segja að okkar persónugerða Berlín vilji mjög gjarnan láta líta á sig sem samnefnara fyrir sköpun og frjóa anda þótt sannlega séu allmargir þeirra 3,5 milljón manns sem hana byggja langt frá því að vera listhneigðir!

Ábending

Það er sannlega um auðugan garð að gresja hvað söfn, gallerí, tónleika, leikhús og listahátíðir varðar og erfitt að ætla sér að mæla með einhverju ákveðnu. Allt slíkt veltur auðvitað á áhugasviði viðkomandi aðila. Þar af leiðandi læt ég það bara hreinlega vera að mæla með nokkru öðru en því að kynna sér kannski áður hvað sé í boði. Vara ég þó við því að manni gæti hugsanllega vaxið framboðið í augum.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni