Ómagar og annar skríll II
Viðhorfið til starfslauna listamanna er ennþá merkilegt og enn merkilega er afstaðan til listafólks. Vart fyrirfinnst sú starfstétt sem sitja þarf undir jafnmiklum óhróðri, fordómum og sleggjudómum, nema ef vera skyldi stjórnmálamenn og –konur. Fólk sem er andsnúið téðum lanum vandar starfstéttinni sannlega ekki kveðjurnar og það oft án þess að hafa nokkuð fyrir sér annað en frasa sem það hefir etið upp eftir öðrum. Engin rök eða nokkuð til að ýta stoðum undir fullyrðingar sínar.
Listafólk er afætur! Af hverju? Af því að það fær starfslaun listamanna og það eru bætur. Ergo listamenn eru bótaþegar. Það er ótrúlegt hve lítt málefnalegt fólk getur verið og framlög þeirra lítt til þess fallinn að stuðla að öðru en úlfúð og sundrungu. Auðvitað má ljóst þykja að á meðal listamanna kunni að gæta ýmisa grasa og sumra jafnvel ólöglegra. En að kalla manneskjur tiltekinnar þjóðfélagsstéttar upp til hópa auðnuleysingja, afætur, beiningafólk, bótaþega og þaðan af verra er vart boðlegt og þaðan af síður gáfulegt.
Það er jafn heimskulegt og að kalla alla starfsmenn Kælismiðjunnar Frost kynþáttahatara fyrir þær sakir að einn vinni þar hugsanlega. Taka ber hér fram að tilvera bótaþega er langt í frá ámælisverð og má örugglega ganga að því sem vísu að fáum hugnist að vera á bótum þurfi þeir þess ekki með.
Ætti að vera deginum ljósara að viðlíka miður spakleg ummæli valda vart öðru en gremju, sér í lagi vegna þess að viðkomandi (listamaður) er ekki að gera neitt af sér eða þá misnota aðstöðu sína eða þá kerfið (allavega er gengið útfrá því að svo sé). Kerfinu gæti vissulega verið ábótavant og kann að vera þörf á endurskoðun þess. Eða kannski bara að töfra það burt eins og mörgum virðist mikið í mun að sé gert. Hvað sem því líður hlýtur að mega láta í skoðun sína án þess að uppnefna stóran hóp fólks og ýja að því að eitthvað sé rotið á meðal hans. Slíkt er í besta falli lítt málefnalegt og í versta falli frámunalega heimskulegt.
Svo er það annað mál að líkast til yrði minna um frambærileg listaverk ef starfslaun eða styrkveitingar yrðu aflagðar með öllu. Því er mér spurn hvort þeir sem harðast ganga í þessum efnum væru tilbúnir, burt séð frá öllum hagtölum, innræti og vinnusiðferði listafólks að hugsanlega verða af verkum líkt og Sögunni af Bláa hnettinum, Ofvitanum og tónverkum Jóhanns Jóhannssonar svo eitthvað smáræði sé nefnt án þess að minnast á manninn sem vann til Nóbelsverðlaunanna.
Það virkar sem svo að þeim standi slétt á saman eða hafa þeir máski ekki hugsað dæmið til enda?
Virðingarfyllst.
Athugasemdir