Beiningafólk Berlínar, efnisleg fátækt: Fyrsti hluti
Eins og á Íslandi fyrir finnst fátækt fólk í Berlín. Ætla ég mér þó ekki að bera það fólk saman við Fátækt fólk Tryggva Emilssonar né annað févana fólk.
Það er enda erfitt að að ætla sér slíkan samanburð án þess að kynna sér efnaleysi hlutlægt. Því nenni ég ekki enda krefðist slíkt athæfi meiri tíma en ég er tilbúinn til að fórna. Tíminn ku jú peningar. Þar af leiðandi hefi ég einvörðungu í hyggju að fálma lítillega um í myrkrinu án þess að gera mér minnstu vonir um að fálmið leiði mig að ljósopi.
Þó má ljóst þykja að slengja mætti afstæðishugtakinu á þá slyppu og snauðu þar sem vart þarf að deila um að þurfalingar Íslands á árum áður hefðu ekki fúlsað við fátækt ársins 2016. Líkast til hefðu þeir talið sultarkjör mörlandans nú til dags gnægtarkjör. Jafnvel paradís. Og efnalitlir ársins 2016 myndu líkast til ekki lifa af fátækt fyrri ára. Ekki frekar en þeir lifðu af að verða af H&M varningi í utanlandsferðum sínum. En þetta er auðvitað svart og hvítt. Allur samanburður er fullkomlega ósanngjarn. Ég er enda ekki að bera saman. Það er ekki hægt.
Látum því slíkar pælingar liggja á milli hluta enda er ekki móðins að una sáttur við sitt. Gæti og útbreiðsla viðlíka þanka stuðlað að því að fólk hætti að kveinka sér yfir verðtryggingu vors lands, dýrtíðinni, hagvaxtarstöðnun, listamannalaunum, skattpíningu, skuldsetningu, Icesave og svo framvegis og svo framvegis. Nóg er af efnahagslegum umkvörtunarefnum og umræuefnum. Væri illt að geta eingöngu barmað sér yfir veðráttunni.
Eins og flestir sem telja sig ekki fátæka fregni ég af fátæka fólkinu í gegnum miðlana sem ég les, hlusta og horfi á. Er ég ekki frá því að ég þekki hreinlega ekki sálu sem telur sig til fátæka, hvorki í Þýskalandi né heima. Verð ég að taka fram að hér er ég einvörðungu að tala um vestrænt bjargleysi og fátækt. Önnur fátækt er mér ævintýralega framandi með allri sinni ósminkuðu og ómannúðlegu eymd. Gildir einu hve margar myndir af vannærðum börnum ég sé eða hve mikið ég les um ölmusufólk annarra landa.
En já, ég var víst að pæla í fátækt í Berlín.
Ekki frekar en heima bera þýðverskir efnahagslega stöðu sína utan á sér. Flestir eru klæddir á áþekkan máta, í merkjavarning sem þarf ekki að létta pyngjuna svo mikið. Svo getur víst útlit verið blekkjandi og varhugavert að ætla að tötraklædd, grannholda manneskja þurfi endilega að vera við sultarmörk. Til þess er tískan of fjölbreytileg og óútreiknanleg.
Hvað sem því líður fer maður ekki varhluta af beiningafólki í Berlín. Gildir einu hverju holdið klæðist þegar það á í hlut þar sem einkenni þess eru ótvíræð: Það spyr mann beint út hvort maður sé aflögufær um pening. Oftast hljómar spurningin svona „hast du ein bisschen Kleingeld?“ sem mætti þýða með „áttu smá klink?“ Ég geng út frá því að fólk sem þarf að betla sé efnalítið þótt margir spyrjendurnir beri það ekki utan á sér. Þar ráða aðrir þættir för.
Þanka um þá þætti meitla ég í orð síðar. Það er að segja þegar ég hefi nennu til.
Athugasemdir