Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Vopnuð lögregla á mannamótum

Vopnuð lögregla á mannamótum

Það hlógu margir þegar hljómsveitin Kansas hætti við Evrópureisu af ótta við hryðjuverk. Hljómsveitin var hædd á samfélagsmiðlum fyrir heigulshátt. Það liðu samt ekki margar vikur uns Salman Abedi sprengdi sjálfan sig og aðra í loft upp á tónleikum í Manchester. Það var aðeins ein af þremur mannskæðum árásum í Englandi á innan við einu misseri.

Það er í þessu samhengi sem lögregluyfirvöldum á Íslandi þótti tilhlýðilegt að vopna lögreglumenn við mannamót. Menn gera ráð fyrir að hvar sem stuðningsmenn íslamskra öfgaafla búa geti menn búist við árásum. Upp að vissu marki er það rétt.

 

Fyrirbærið sem kallað er Íslamska ríkið talar til stuðningsmanna sinna gegnum netið. Fer þar líklega fremst í flokki glanstímaritið Rumiyh. Það leysti af hólmi nákvæmlega eins tímarit sem kallaðist Dabiq. Ástæða nafnbreytingarinnar var líklega sú að borgin Dabiq var um svipað leyti að renna Íslamska ríkinu úr greipum. Rumiyh er önnur borg, Róm. Nafnið vísar til þess að vígamenn íslam muni hvíla sig í skugga trjánna í þeirri fornu borg eftir að hafa lagt undir sig heim villutrúarmanna.

Í tímaritinu eru hagnýt ráð til verðandi hryðjuverkamanna. Mælt er með tilteknum vopnum og gefnar hugmyndir um vænlegar árásir. Meðal þess sem mælt er með er að ráðast á fjölskylduhátíðir með því að keyra bílum (helst stórum og þungum) inn í mannfjöldann. 

Í síðustu tölublöðum hefur áherslan breyst. Nú er ekki lengur mælt jafn sterklega með árásum á almenning á götum úti heldur er mælt með því að lokka fólk í gildrur, t.d. með því að auglýsa fasteignir til leigu eða störf og sitja fyrir umsækjendum í heimahúsum þar sem hægt er að drepa þá. Slíkum aðgerðum sé best að ljúka með gíslatöku enda er tilgangurinn sá að fá lögregluna til að drepa sig í lokin.

Það er afar skýrt í áróðurssneplunum að enginn á vísa vist í góða staðnum, jafnvel þótt hann geri allt sem beðið er um. Ef Guð lofar ætti maður að eiga góða möguleika ef manni tekst að láta drepa sig við að læða ógn og skelfingu inn í samfélag óvinarins.

Þegar þetta er haft í huga kann það að vera mesta óráð að strá vopnuðum lögreglumönnum inn í friðsælt samfélag eins og það íslenska. Khalid Masood ók á fólk fyrir framan Big Ben og leitaði svo uppi lögreglumenn til að ráðast á. Tilgangur þess var að láta drepa sig. Þremenningarnir sem óku á fólk á Lundúnarbrúnni biðu eftir lögreglunni og réðust á hana þegar hún mætti. 

Vopnuð lögregla hefur ekki fælingarmátt gagnvart þeim mönnum sem stunda óhæfuverk sem þessi. Þvert á móti hefur hún aðdráttarafl.

Það getur auðvitað verið að einhverjir öfgamenn lúri undir steini í íslenska fámenninu. Tækifæri til að skaða fólk hafa ekki verið af skornum skammti hingað til. Hafi mann langað til að verða píslarvottur þessarar vondu hugmyndafræði þá er það eina sem hefur raunverulega skort tryggingin um að maður yrði drepinn við verknaðinn. 

 

Sú ákvörðun að láta vopnaða lögreglu sjást á götum úti (við vissum fyrir að vopn væru í lögreglubílum) hefur hvorki aukið öryggi borgaranna né öryggiskennd – þvert á móti kann hún að hafa grafið undan hvorutveggja.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni