Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

„Trúnaðarmenn“ kennara

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fagstétt þurfi að ástunda heiðarlega og upplýsta samræðu. Þess vegna fer óstjórnlega mikið í taugarnar á mér að við kennarar virðumst vera algjörlega ófærir um það. Þvert á móti er umræða innan samtaka okkar viljandi höfð villandi og óljós – að því er virðist til að halda kennurum í skefjum og teyma þá áfram eftir slóð sem þeir hafa í raun engan áhuga á að fylgja.

Kennarar hafa kosið fólk til trúnaðarstarfa sem því miður heldur ekki slíkan trúnað. Raunar þvert á móti. Oddvitar kennara taka virkan þátt í að villa um fyrir kennurum og halda frá þeim mikilvægum upplýsingum.

Nú er að renna út kjarasamningur kennara. Hann var viljandi hafður stuttur því talið var að líklegra væri að hann yrði samþykktur þannig. Fólk hefði þá á tilfinningunni að það væri ekki að kjósa yfir sig varanlegar breytingar. 

Þrátt fyrir að samningurinn sé við það að renna út er engin raunveruleg vinna í gangi við það sem ætti að taka við. Kennarar stefna því enn einu sinni inn í það ófremdarástand að vinna eftir útrunnum kjarasamningi. Slíkt ástand getur varað árum saman.

Það var aldrei nein trygging í því að hafa samninginn stuttan. Nema kannski gagnvart sveitarfélögum sem geta haldið kjörum kennara djúpfrystum svo árum skiptir ef þau kjósa svo.

Síðasti kjarasamningur var dulbúinn sem launaleiðrétting – en var fyrst og fremst stórkostlegasti hagræðingarsamningur sem kennarar hafa gert. Markmið sveitarfélaga var að mölva burt úr samningnum allt það sem hindraði þau í að lækka launakostnað. Það fannst þeim ekki nema sanngjarnt. Fleirum en forstjórum álvera finnst þeir snuðaðir um tækifæri til hagræðingar.

Aðall nýja samningsins er að nú deila og drottna sveitarfélög yfir kjaramálum kennara. Hver einasti kennari stendur aleinn í kjarabaráttu sinni. Sveitafélögin standa á móti sameinuð gegn kennurum. Þumalskrúfurnar eru svo einfaldlega settar á með þeim hætti að skólum er úthlutað mun minna fé en þarf til rekstrarins. Skólastjórar skulu svo gjöra svo vel og kremja hagræðinguna út úr kennurum.

Snemma í október tóku rúmlega 500 kennarar þátt í óformlegri könnun um samninginn og þá kennaraforystu sem barðist fyrir samningnum. Níu af hverjum tíu kennurum voru óánægðir með samninginn. Níu af hverjum tíu kennurum voru einnig óánægðir með forystu kennara. Innan við einn kennari af hverjum tíu sagðist treysta kennaraforystunni til að vinna að hagsmunum kennara.

Kennaraforystan brást við með því að lofa úttekt á stöðu mála. Þegar sú útekt var gerð kom í ljós að hún var haganlega sett upp með þeim hætti að markvisst var unnið gegn því að opinbera viðhorf kennara til samningsins og forystunnar. Um hið síðastnefnda var auðvitað ekki spurt. Um almenna ánægju eða óánægju var heldur ekki spurt. Í stað þess var látið nægja að spyrja nokkurra almennra bakgrunnsspurninga og svo voru menn beðnir um að nefna bæði eitthvað gott við samninginn og eitthvað slæmt (þetta er trikk sem kennarar nota oft sjálfir til að ginna nemendur til að skila ákveðnum niðurstöðum í „lýðræðislegum“ kosningum).  Mikilvægustu svörin voru svo umsvifalaust skilgreind sem trúnaðarmál og kennurum gert ljóst að þau yrðu alls ekki birt. 

Leynimakkið vakti vægast sagt mikla óánægju og þá var kennurum lofað að unnin yrði úttekt upp úr opnu spurningunum (sem enn hefur auðvitað ekki skilað sér). Ennfremur var ákveðið að fara í formlega alvöruúttekt á því hvernig framkvæmd nýja (og bráðum úrelta) samningsins hefði gengið. Ráðin var til aðstoðar utanaðkomandi manneskja sem virðist hafa fengið að skoða hin háleynilegu trúnaðargögn og í framhaldi af því var ákveðið að fara þyrfti mjög varlega til að gera kennara ekki of stygga. Allar kannanir á stöðu mála þyrftu að skila niðurstöðu sem þjónuðu réttum hagsmunum.

Mest púður virtist fara í ráðagerðir um það hvernig hafa mætti stjórn á kennurum sjálfum. Rætt var um að vinna þyrfti markvisst að því að gera kennara jákvæða gagnvart grundvallaratriðum samningsins og eins að beita málgagni Kennarasambandsins til þess arna. Þá kom upp sú hugmynd að handvelja fólk í rýnihópa til að skoða málið betur og „hafa jafnvel áhrif á stemminguna sem myndast“.

Forysta kennara hefur ítrekað og margoft lýst því sjálf yfir (en bara á bak við tjöldin) að samningurinn sem nú er að renna út sé kominn til að vera. Honum verði ekki breytt í neinum grundvallaratriðum. Það sé ekki um að ræða neitt prufutímabil. Óánægja með framkvæmd hans sé ekkert annað en byrjunarörðugleikar og að gera verði greinarmun á óánægju með framkvæmd samningsins og óánægju með samninginn sjálfan(!). 

Með öðrum orðum: Með síðasta kjarasamningi voru gerðar óafturkræfar breytingar á kjörum kennara. Hinn stutti gildistími var ekkert annað en brella til að gefa í skyn að breytingarnar væru tímabundnar og til reynslu. Forysta kennara hefur ekki nokkurn áhuga á að skoða það hvort samningurinn hafi verið eitt risastórt feilspor. Hún vill aðeins leita leiða til að breyta stemmningunni – gera kennara sátta við það sem þeir augljóslega eru ekkert sérstaklega sáttir við. 

Þess vegna gætir kennaraforystan þess að hafa gegnsæi í lágmarki og setja engar upplýsingar fram sem gætu unnið gegn þessum markmiðum. Kannanir eru settar upp þannig að hægt sé að ritskoða þær og fela vondar niðurstöður. 

Nu hefur enn dregið til tríðinda. Ákveðið hefur verið að gera barasta ekki frekari kannanir eins og þó var búið að ákveða. Samningurinn verður sumsé látinn renna út og úreldast án þess að fram fari mat á honum. Þess í stað á að skoða málin seinna, þegar kennarar eru sáttari. 

Samt þarf matið af fara fram ekki seinna en strax. Það þarf að upplýsa kennara um stöðu sína gagnvart samningnum, nú þegar hver og einn þarf að vera sín eigin samninganefnd. Það væri ómetanlegt fyrir kennara að geta nú, undir lok skólaárs, haft raunverulega yfirsýn um stöðu sína og annarra þegar kemur að framkvæmd samnings.

Í stað þess að meðvitund um raunverulega stöðu nýtist kennurum er mikil áhersla lögð á það hjá forystu kennara að knúin sé fram önnur samningalota einstakra við stjórnendur sína án þess að gerð sé nokkur útekt þeim til aðstoðar. 

Staðan er nefnilega svo vond að hún getur eiginlega ekkert gert nema batna.

Nema að nú standa skólastjórar víða frammi fyrir því að fá bara alls ekki það fjármagn sem þarf til að reka skólana. Þeir skulu gjöra svo vel og kreista blóð úr steinum. Hagræða ofan á hagræðinguna.

Til að sú hagræðing geti farið fram er eiginlega nauðsynlegt að lama alla samstöðu kennara. Hún er eiginlega það eina sem getur stöðvað yfirgengilega hagræðingu af. 

Menn þurfa þó ekkert að hafa sérstaklega miklar áhyggjur af of mikilli fyrirstöðu. „Trúnaðarmenn“ kennara í forystunni ætla að standa í öruggri fjarlægð og sjá til þess að mótspyrnan verði ekki of mikil. Mótspyrna er nefnilega til marks um neikvæðni – og lausnarorð dagsins er „stemmning“. Hún má ekki verða of súr.

Það er þó of auðvelt að áfellast kennaraforystuna eina. Vissulega hefur hún gert sitt besta til að halda kennurum nægilega illa upplýstum og áttavilltum. Það er bara engin afsökun. Kennarar hafa kallað þetta allt yfir sig sjálfir. Þeir eiga þetta bara skilið. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni