Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Trosnað vistarband

Ef manneskja kæmi á bráðamóttöku og segðist verða andstutt við líkamlega áreynslu, sundla og fá verk í bringuna yrði meðferð allra annarra, hvort sem þeir eru með flensu eða brotinn fót, ýtt á frest á meðan gengið væri úr skugga um hvort hinn nýi sjúklingur væri með mögulega banvænan kransæðasjúkdóm.

Ástæðan er ekki bara sú að kransæðasjúkdómar eru til mikilla muna hættulegri en flest önnur veikindi og slys heldur sú að samfélag þjóðanna gerði sér fyrir löngu grein fyrir að það væri raunverulega hægt að koma að einhverju leyti í veg fyrir þá og bregðast við þeim – og koma þannig í veg fyrir óþarfan dauða milljóna manna. Hér á Íslandi fækkaði ótímabærum dauðsföllum vegna kransæðasjúkdóma um 80% frá 1981 til 2006! 

Að einhverju leyti stafar þessi gríðarlega fækkun dauðsfalla af stórbættum viðbrögðum við kransæðastíflum. Slíkar aðgerðir væru þó til lítils ef ekki væru til staðar forvirkar aðgerðir sem t.a.m. koma í veg fyrir eða hægja á æðaskemmdum.

Enginn læknir myndi nokkru sinni bregðast við hjartveikum sjúklingi með því að segja að fyrst einkennin kæmu fram við áreynslu væri kannski best að reyna ekki mikið á sig.

Þetta mætti hafa í huga nú þegar enn einu sinni er orðið ljóst að við Íslendingar búum í hjartveiku samfélagi.

Hjarta hvers samfélags eru hinir sameiginlegu innviðir. Það, hvernig við búum að börnum og gömlu fólki; öryrkjum og veikum. Meginhlutverk og tilgangur hinnar formlegu samneyslu er að sinna þessum þáttum vel.

Nú rennum við inn í enn eitt haustið þar sem ljóst er að skólakerfið er að molna í sundur. Enn eru viðbrögðin nákvæmlega þau sömu og öll hin haustin sem samanlögð komu okkur í hina banvænu klemmu sem við erum í.

Ef óreiða eða erfiðleikar eru í fjármálum einstaklinga fá þeir gjarnan send innheimtubréf undir yfirskriftinni „Ekki gera ekki neitt“. Það er býsna bjánalegt slagorð. Það merkir eiginlega það sama og: „Gerðu bara eitthvað“. Það hefur aldrei verið tilfinnanlegur skortur á því að menn bregðist við bráðum vanda með aðgerðum. Öldum saman voru hjartasjúklingar dregnir til þorpsrakaranna þar sem þeir voru skornir með rakhnífum og þeim látið blæða. Og þetta átti ekki bara við hjartasjúklinga. Þegar fyrsti forseti Bandaríkjanna, George Washington, fékk barkabólgu var meðferð lækna sú að láta hann drekka blöndu af sýrópi, smjöri og ediki þar til hann var næstum kafnaður, gerðar voru vessafylltar blöðrur á líkama hans í tilraun til að soga vökva úr bólgnum raddböndunum – auk þess sem honum var látið blæða ítrekað, mest tæpum lítra í einu. Lækna deilir enn á um hvort það voru veikindin eða læknismeðferðin sem varð honum að aldurtila. Hann var allavega dáinn rúmum sólarhring eftir að hann hafði veikst.

Það er nefnilega svo að stundum er betra að gera ekki neitt en að gera einhverja vitleysu.

Það hefur legið fyrir lengi að samfélagið okkar er hjartveikt. Næstum allan þann tíma hafa þeir sem bera þar mesta ábyrgð komist upp með moðreyk í svörum. Síðast í gær steig fram ábyrgðaraðili og benti á að kennaraskortur væri fylgifiskur góðæris. Góðæri er vinnuveitendum áreynsla. Það er samt nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að í góðæri liggi grundvallarkerfi eins og skólakerfinu við köfnun. Það liggur ennfremur fyrir að gríðarleg vandræði í þessum efnum eru framundan og þess verður ekki langt að bíða að vandinn margfaldist að umfangi.

Það er þess vegna sem hjartasjúklingum er hleypt fram fyrir aðra á bráðamóttökunni. Hjarta sem er hætt að virka við álag getur hvenær sem er hætt að virka fyrir fullt og allt.


Snemma í vor sagði ég í Silfri Egils  að langtímavandi skólanna væri vissulega hættulegur en að komandi vetur væri í raun í verulegu uppnámi.

 

Hluti af mönnunarvanda grunnskólanna núna stafar af því að öllum vanda var einfaldlega slegið á frest síðast þegar takast átti á við hann. Samningar eru lausir seint á haustönn. Það gæti komið til verkfalla í vetur. Kjör gætu verið fryst í einhver misseri í viðbót.  Í stuttu máli: Það ríkir fullkomin óvissa um alla hluti.

Hluti af vandanum er sá að sveitarfélögin ákváðu einhliða að kennarar skyldu falla undir SALEK-samkomulagið. Sem þýðir að kjarabætur eru í raun útilokaðar sem liður í björgunaraðgerðum í skólakerfinu. 

Hinn mikli samtakamáttur kennara sem varð ljós síðasta vetur hræddi sveitarfélögin og varð til þess að sum sveitarfélög bera fé á sína kennara svo lítið beri á í von um að mögulegar aðgerðir framundan bitni ekki á þeim.

Í einhverskonar ímyndarstríði hafa sveitarfélögin reynt að láta svo líta út sem hlutirnir séu á uppleið. Reykjavíkurborg kynnti niðurstöður úr vinnu sem er góð og blessuð svo langt sem hún nær – en hún nær bara hvergi nærri rótum vandans. Þar er látið líta svo út sem verið sé að blása til sóknar í menntamálum á meðan raunin er sú að það er aðeins verið að skila til baka þeim fjármunum sem stolið var út úr skólakerfinu á sínum tíma. Að verulegu leyti eru þetta fjármunir sem eyrnamerktir voru veikustu börnunum. Þjónusta við þau var skorin miskunnarlaust niður í hagræðingaraðgerðum síðustu ára. Nú á semsagt að skila einhverju. En líklega allt of seint. Sérkennarar fást ekki til starfa. Kannski búnir að fá nóg af ástandinu undanfarið.

Gjaldfrjáls grunnskóli er síðan auðvitað bara brandari. Grunnskólalög hafa lengi kveðið á um að grunnskólinn skuli vera gjaldfrjáls. Börn megi þó hafa hluti til einkanota án þess að skólinn greiði fyrir. Sveitarfélög hafa einfaldlega að þessu leyti vanfjármagnað skólanna svo þeim hefur verið ómögulegt að uppfylla þá skyldu sína að hafa skyldunám gjaldfrjálst. Upphæðirnar sem um eru að ræða eru svo lágar að í tilfelli flestra sveitarfélaga á Íslandi nær kostnaður vegna þessa ekki kaupverði á notuðum bíl.

Eina raunverulega aðgerðin sem ríki og sveitarfélög gripu til sem raunverulega átti að geta stoppað blæðinguna úr skólakerfinu var breytingin á lífeyrissjóðslögunum.

Sem er dæmigert. Það var eins neikvæð aðgerð og hugsast gat.

Eftir að stjórn KÍ lét fífla sig til að lýsa stuðningi við málið var því troðið gegnum þingið í offorsi.

Í orði snerist málið um að jafna lífeyriskjörin milli hins almenna markaðar og þess opinbera. 

Á borði er staðan nú sú að kennari sem hættir að kenna fær þunga refsingu þegar kemur að lífeyri. Verði hann í burtu í meira en ár mun tapa nokkrum hluta lífeyris síns – óháð því hvort hann snýr aftur til kennslu eða ekki.

Þetta vistarband var vafið um háls kennara um síðustu áramót og var hið eina innlegg sem hingað til hefur komið frá hinu opinbera til að stemma stigu við fólksflótta úr greininni.

Það reynir nú á þetta vistarband í fyrsta skipti. Það reynist ekki halda. Það er trosnað. Fólk er í alvöru tilbúið að fórna lífeyri sínum fyrir meðallaun í landinu (en kennaralaunin eru þar langt fyrir neðan).

Hafi betri lífeyrisréttur opinberra starfsmanna raunverulega haft eitthvert aðdráttarafl þá má ætla að hann hafi átti einhvern þátt í því að fólk sneri til baka inn í skólanna þegar harðnaði á dalnum. Nú er það aðdráttarafl úr sögunni. 

Sveitarfélögin hafa reynst fullkomlega ófær um að reka sinn hluta skólakerfisins. Þau geta samið við verktaka og byggt glæstar byggingar (í mörgum tilfellum) enda virðist áhugi á þeim málum næstum takmarkalaus innan stjórnar þeirra. En þau kunna ekki að bera ábyrgð á málaflokkum sem krefjast aðkomu fagfólks. Til þess eru sveitarstjórnarmenn of miklir fúskarar og of leiðitamir. Innan sveitarstjórna og nefnda hringinn í kringum landið er fólk sem vill breytingar og sér að ástandið er óþolandi – en lætur sér nægja að sitja í sjálfskipuðu feni vanmáttar – vitandi það að til að breyta þessu þarf að takast á við þann valdapíramída sem sveitarfélögin hafa sjálf reist til tryggingar óbreytts ástands.

Alveg eins og það er þreytandi að berjast gegn hlýnun jarðar og þeirri nánast óumflýjandi eyðileggingu sem skammsýni okkar og heimska virðist ætla að hafa í för með sér – þá er að verða býsna lúið þetta viðfangsefni: Leik- og grunnskólinn á Íslandi.

Fjölmiðlamenn mega þó eiga eitt. Það er hvassari tónn í þeim núna en oft áður. Og þeir eru kröfuharðari í garð þeirra sem bera á þessu ábyrgð. Um það bera nokkrar fréttir vott þessa dagana. Til dæmis þessi.

Þessi frétt gæti raunar verið úr kennslubók um íslensk stjórnmál. Þarna talar Halldór Halldórsson. Ekki sem hinn dauðadæmdi oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, heldur sem hinn sprelllifandi oddviti sveitarstjórnarmanna á landsvísu. Og hann segir að kennaraskortur sé alvarlegur og að ábyrgð sveitarfélaganna sé vissulega mikil.

Það séríslenska við þetta er að hér á landi er viðtekið að maður virðist geta borið ábyrð á vondum ákvörðunum eða ástandi – en samt þarf maður ekki að gera neitt í því.

Hér getur skólakerfið lært af heilbrigðiskerfinu. Ef ekkert hefði verið að gert væri hver einasta fjölskylda á landinu búin að missa fólk vegna kransæðasjúkdóma sem þess í stað er sprelllifandi. Þrátt fyrir það dugar hinn minnsti grunur um stíflaðar kransæðar til þess að öllu öðru er ýtt til hliðar meðan gengið er úr skugga um alvarleika málsins.

Á meðan sveitarfélögin geta ekki mannað menntakerfið af hæfu fólki ætti allt þeirra starf að hnitast um það. 

Þess verður þó eitthvað að bíða, því að á meðan matarræði, hreyfing og reykingar eru meginorsakir kransæðastíflu – eru það sveitarfélögin sjálf sem eru aðal sjúkdómsvaldur leik- og grunnskólanna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni