Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Strípalingar hugsjónanna

Ein af reglun rökfræðinnar kveður á um að annað hvort sé tiltekin fullyrðing sönn – eða neitun hennar. Það sé enginn þriðji kostur. Eins og með aðrar hugsunarreglur á þessi það til að blása upp og teygja sig langtum lengra en hún í raun og veru nær. Þetta er einstaklega ljóst í umræðum um kennaraskort þessa dagana.

Hvort sem fólk hefur vit á skólamálum eða ekki hefur það skoðanir. Þessar skoðanir eru annað hvort í samræmi við rekstur og uppbyggingu íslenska menntakerfisins eða eru á skjön við það. 

Nú, þegar menntakerfið rambar á barmi falls, er freistandi fyrir þá sem telja að það ætti að vera öðruvísi að hugsa sem svo að lausnin felist í því að menntakerfið verði líkara því sem þeir óska sér.

Þannig telur Sjálfstæðisþingmaðurinn að auka þurfi samkeppni og koma á fjölbreyttara rekstrarformi.

Þannig telur formaður sjálfstætt starfandi skóla að kennaraskortur sé ekki til staðar hjá skólum sem reknir séu af öðrum en sveitarfélögum.

Því hefur meira að segja verið haldið fram í umræðunni síðustu daga að orsök vandans sé að börn með raskanir á borð við athyglisbrest og ofvirkni séu látin sækja sömu skóla og önnur börn.

Frumlegust er samt kenningin um að vandinn sé sá að konur séu farnar að kenna alltof mikið – jafnvel greinar eins og stærðfræði(!)

Nú getur maður haft hvaða skoðun sem er á skólamálum. Að skóli án aðgreiningar sé vondur, að konur eigi ekki að kenna drengjum, að sveitarfélög eigi ekki að reka skóla og að vondir kennarar eigi að hafa vond laun.

Það er samt hugsanafeill að telja sem svo að fyrst skólakerfið sé ólíkt því sem maður helst hefði kosið þá sanni erfiðleikar þess að það ætti að vera eftir manns eigin höfði.

Allar ofangreindar tilgátur eru rangar. Formaður sjálfstætt starfandi skóla hefur fleiri fingur á annarri hönd en kennara á launum. Það, að hann glími ekki við kennaraskort, sannar ekkert. Það er fullt af skólum sem reknir eru af sveitarfélögum sem skortir ekki kennara – þrátt fyrir að kennaraskortur sé að verða aðkallandi og nánast, krónískt vandamál.

Það að til sé fótkalt fólk afsannar ekki ofsahlýnun jarðar. 

Breytt rekstrarform er vissulega áhugamál margra. Það virðist þó ekki hafa dugað til í Kópavogi. Þar eru tveir einkareknir leikskólar. Annar er fullmannaður. Hinn skólann vantar fleiri kennara en nokkurn annan leikskóla í sveitarfélaginu.

Atgervisvandi skólakerfisins er rótgróið og djúpstætt vandamál. Lausnir verða að byggja á skilningi á vandamálinu og raunhæfum aðgerðum.

Sá sem kennir um börnum, konum eða sósíalistum er ekkert að leggja til sem getur orðið til lausnar deilunni. Hann er strípalingur eiginn hugsjóna að hlaupa á tillanum um keppnisvöllinn vegna þess að svo vill til að verið er að sýna frá honum í beinni útsendingu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni