Skólastjórar skammaðir fyrir skítverkin
Það er ekki öfundsvert að vera skólastjóri þessa dagana. Þegar rifrildið um nýja tilhögun grunnskólamála með nýju vinnumati stóð sem hæst var gjarnan fullyrt að enginn skólastjóri myndi leyfa skólastarfi að skaðast. Þess vegna gætu kennarar sofið rólegir. Þótt opnað yrði á ýmsar matarholur hagræðingarsinna myndu skólastjórar ekki hleypa niðurskurðarmönnum í þær. Efasemdamenn sögðu á móti að vilji skólastjóra skipti engu. Ef klæðið væri af nógu skornum skammti myndi það á endanum vera sniðið eftir einhverju öðru en vexti.
Mér sýnist skólastjórar ítrekað hafa verið stungnir í bakið síðustu vikur og mánuði.
Ekki er nóg með það að þeim sé gert að framkvæma algjörlega óraunhæfan niðurskurð – sem þá aðeins getur orðið að þeim takist að brjóta á bak aftur faglega mótspyrnu innan skólanna sinna og framkvæma hluti sem þeim sjálfum finnst faglega óþolandi – heldur þorir enginn að bera ábyrgð með þeim ef illa fer. Of margir skólastjórar eru ekki lengur hugrakkt og framsækið skólafólk heldur hikandi hálfpólitíkusar sem gæta þess fyrst og fremst að láta ekki grípa sig í bólinu.
Skólakerfi án hugrekkis er dautt.
Ég þekki ekkert til í Melaskóla. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Þess vegna hef ég engar forsendur til að meta hvað gekk þar á. Ég veit hinsvegar að í ýmsum skólum skapaðist vísir að því ástandi sem þar var lýst þegar skólastjórum var gert að kremja hagræðingu út úr kennurum síðasta haust. Raunar er undarlegt að ekki skuli víðar hafa opnast hyldýpisgjár vantrausts milli stjórnenda og kennara. Og ef allar áætlanir borgaryfirvalda ganga eftir má fyllilega búast við því að kennarar taki harkalega á móti næsta haust þegar niðurskurðurinn fer virkilega að skera inn að beini. Því skyldu þeir ekki gera það? Nú er komið fordæmi fyrir því að hótanir um uppsagnir dugi til að svæla skólastjóra úr starfi.
Í dag held ég svo margir skólastjórar hafi hugsað borgarstjóranum þegjandi þörfina.
Það gerist í hverri einustu viku að börn, sem ekki eru skráð í mat, spyrja hvort þau megi borða ef þau sjá að eitthvað spennandi er á boðstólnum. Ég er viss um að svarið er oftast: „Nei, því miður.“
Á öskudaginn kom barn í skóla og vildi kaupa sér pítsusneið. Það var með 500 kall til að borga pítsuna.
Nú skal tekið fram að ég hefði nær örugglega gefið barninu sneið. Ég hefði samt aldrei tekið við 500 kallinum. Það hefði enginn gert. Ekki frekar en að maður hefði tekið við 500 kalli fyrir að leyfa barni að vera í dægradvöl skólans án þess að vera skráð. Eða tekið við pening frá barni fyrir nokkurn skapaðan hlut.
Kennarar og aðrir starfsmenn skóla fylgjast mjög vel með því hvort börn borði í skólanum. Vakni grunur um að barn fái ekki nóg að borða t.d. vegna vanrækslu eða fátæktar er málinu fylgt eftir og séð til þess að barnið fái að borða. Skólar um alla borg leggja út fyrir ýmsum kostnaði svo að börn þurfi ekki að fara á mis við það sem jafnaldrarnir fá. Án þess að mikið beri á því leggja skólar oft út fyrir skólaferðum og öðru sem fátækt kemur í veg fyrir að börn geti notið.
Þrátt fyrir það er geggjuð misskipting til staðar og verkefnin ærin. En án nánari upplýsinga tel ég fráleitt að telja fréttina um stelpuna sem langaði að kaupa sér pítsusneið til marks um hróplegt ranglæti eða vonsku.
Það er mikill munur á því að barn búi við skort og hinu að neita barni um að fá skólaskyndibita ef því finnst hann spennandi.
Það hefði samt ekkert verið að því að gefa barninu sneið. Ég hefði gert það. Og kannski fengið áminningu fyrir.
Skólum í Reykjavík hefur verið stillt upp við vegg. Þeir eiga fæstir fyrir vetrinum. Beiðnum um leiðréttingu vegna óraunhæfrar áætlanagerðar hefur verið hafnað og sultarólin hert til muna. Yfir skólastjórum vofa þungar refsingar og jafnvel atvinnumissir ef þeir ná ekki að draga verulega úr kostnaði við skólana. Reglur eins og þær að börn sem ekki eru skráð í mat fái ekki mat í skólanum ef þau gleyma nestinu heima, finnst nestið vont eða finnst maturinn girnilegur eru einfaldlega afar fyrirsjáanleg viðbrögð við því að skólar eru á hausnum.
Hvað þá að við hæfi sé að borgarstjóri hoppi fram á völlinn og slái sjálfan sig til riddara með því að húðskamma starfsfólk skólans. Það er sérstaklega ógeðfellt í ljósi þess að það er borgarstjórinn sem fer fyrir þeim sem í sífellu herða þumalskrúfurnar og neyða skóla til að fara út í svo geðveikislega hagræðingu að pítsusneið til eða frá er farin að skipta máli.
Hversu lengi ætli skólastjórnendur í Reykjavík haldi áfram að framfylgja skipunum yfirmanna sinna um hörku og niðurskurð ef þeir mega eiga von á því að vera persónulega sakaðir um dómgreindar- og siðferðisbrest þegar málin eru afhjúpuð?
Hvað gerist til dæmis ef nemandi slasast á skólatíma og í ljós kemur að hann var bara alls ekki í skólanum heldur í ábyrgðar- og reiðileysi úti í bæ því hann var sendur heim svo ekki þyrfti að borga fyrir forfallakennslu. Myndi borgarstjórinn þá koma fram og segja að skólar megi ekki senda börn burt úr skólanum á þeim tíma sem skólinn ber ábyrgð á þeim? Myndi hann segja að hann hafi orðið fyrir djúpum vonbrigðum og talið víst að svona myndi ekki gerast? Það er samt ekki eins og yfirmönnum skólamála sé ekki alveg ljóst að nákvæmlega þetta er stundað í stórum stíl. Stórir hópar barna eru án kennara á hverjum degi því skólar hafa ekki efni á forfallakennslunni. Og auðvitað vita allir sem eitthvert vit hafa á starfi skóla að mörgum börnum sem ekki eru í mataráskrift er meinað um að fá pítsur og hamborgara þá daga sem það er í matinn. Það hefur lengi verið svoleiðis.
Skólastjórar geta ekki lyft litlafingri til að verja sig gegn gagnrýni af þessu tæi. Þeir verða að þegja. Stjórnmálamenn geta hlaðið utan um sig öllum þeim vörnum sem þeim hugkvæmast. Þeir ættu samt að hafa sómakennd til að gera það ekki.
Ástandið í reykvískum grunnskólum mun aðeins versna á næstu mánuðum. Það er verið að fara að sigla í gegnum slíkan öldudal að það mun valda stórskaða nema allt skólasamfélagið leggist á árarnar og gæti þess að vernda það sem vernda þarf.
Það er stórkostlega heimskulegt af skólayfirvöldum í Reykjavík að sigla inn í þá tíma án þess að styðja við skólastjórana í orði og á borði. Því skyldu skólastjórarnir halda áfram að framkvæma skítverkin sem stjórnmálamennirnir krefjast af þeim ef sömu stjórnmálamenn eru fyrstir til að fórna þeim ef skíturinn kemur upp á yfirborðið?
Stjórnmálamennirnir eiga ekkert bakland inni í grunnskólunum. Skólarnir eru fullir af fólki sem treystir þeim ekki fyrir horn. Þeir eiga allt undir því að skólastjórar treysti þeim. Þeir ganga þessi misserin hratt á það traust. Þegar það er búið er ekkert eftir.
Athugasemdir