Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Skólaljóðin og íslensk menning

Nú stendur yfir skemmtileg umræða um Skólaljóðin gömlu. Bláu sýnisbókina sem innihélt úrval myndskreyttra ljóða sem börnum var gert að læra utan af árum og áratugum saman. Einhverjir vilja meina að það sé bæði hollt að læra ljóð utan af og gott fyrir þjóð að eiga sameiginlegan forða orða og hugsana.

Hvorttveggja held ég að sé rétt. 

Fyrstu barnaskólaárin mín voru á Akureyri. Sú skólaganga virtist að verulegu leyti ósnortin af þeim miklu byltingum sem ýmsir telja að hafi gengið að sameiginlegum utanbókalærdómi dauðum. Börnin voru látin standa í röðum fyrir utan skólann í upphafi dags, syngja í kórum, ganga í stúku og verulega mikil áhersla var á utanbókalærdóm. Við vorum miskunnarlaust „tekin upp“ og látin þylja ljóð og margföldunartöflur upphátt fyrir framan aðra nemendur. Og svo sungum við heil ósköp.

Árið sem ég fæddist lauk landsprófið göngu sinni. Samræmd próf tóku við. Samræmd próf voru almenn próf, ætluð nánast öllum nemendum. Landsprófið var aðeins ætlað úrvali nemenda og með markvissum aðgerðum var séð til þess að aðeins um 30% nemenda færi í þau. Lengst af var helmings fall að auki. Það hlutfall lækkaði hratt síðustu árin enda voru þá prófin orðin fyrirsjáanleg og kennarar býsna góðir í að kenna undir þau.

Landsprófið gekk út frá þeirri grundvallarforsendu að námsfærni réðist að verulegu leyti af hæfileikanum til að læra utanbókar. Spurningarnar voru miserfiðar og þær erfiðustu hnituðust gjarnan um einhver smáatriði í þeim kennslubókum sem lagðar voru til grundvallar prófunum. Þannig var nemendum til dæmis gert eitt árið að segja frá Réunion. En það er frönsk eyja skammt frá Madagaskar. Nafn hennar hafði komið fram í neðanmálsgrein í einni þétt skrifaðri landafræðibók.

Frá því fyrir seinna stríð og fram á miðjan áttunda áratug gegndi menntakerfið að verulegu leyti hlutverki síu. Hugmyndin var að finna þau 5-20% þjóðarinnar sem best væru til þess fallin að feta menntaveginn áfram til valda og áhrifa í íslensku samfélagi. 

Öðrum var fyrst og fremst ætlað að verða lítt menntað verkafólk. Sem þó væri búið að siða dálítið til með skólalærdómnum. Hefði til að bera virðingu fyrir hinum menntameiri og þekkti einfalda hollustuhætti, andlega og líkamlega. 

Í dag er meira en lítil undiralda í samfélaginu sem saknar þess samfélags sem svona var búið til. Sjálfur menntamálaráðherra telur að of stórum hluta þjóðarinnar sé hleypt inn í háskólana. Hann vill grípa til aðgerða. Halda fleirum úti. Margir telja að auki að íslensk tunga þurfi sárlega á því að halda að hún sé límd á heila barnanna með utanbókarlærdómi og lestri. 

Það kemur ekki á óvart að rithöfundar og skáld hallist dálítið í þessa átt. Seinni hluti tuttugustu aldar var tími þeirra. Þrátt fyrir að markmið skólakerfisins á þeim tíma hafi verið að „framleiða“ endurskoðendur, presta og lækna þá fór það auðvitað svo að sífellt var verið að veifa framan í börn skáldum og rithöfundum. Það er enda hægara sagt en gert að fá börn til að dýrka embættismenn. Það var því bæði rökrétt og eðlilegt að skáld og rithöfundar nytu ákveðinnar virðingar í samfélagi utanbókarlærdómsins. Það var önnur leið til frama fyrir þá sem af einhverjum ástæðum voru ekki vel fallnir til þess að verða lögfræðingar eða tannlæknar.

Það var líka af nógu að taka. Skrifa hefði mátti fimm sinnum fleiri bækur en gert var um veruleika þeirra sjö tíundu sem hafnað var af menntakerfinu. Þeirra sem fengu handskjálfta og magaverk í hvert sinn sem kennarinn tók þá upp á töflu til að þylja upp margföldunartöflur eða ljóð. Þeirra sem mynduðu stofn þessa samfélags en skipað var kerfisbundið í aukahlutverk í störfum þess.

Þegar mín kynslóð kom fram á sjónarsviðið upplifði maður sterkt að samfélagið væri tvívítt. Leiðin upp lægi gegnum menntakerfið. Þó væri heimilt að standa að verulegu leyti utan þess ef maður gæti sannað að maður hefði rausnarlegan skammt af hæfileikum þeirra menntuðu. Sá sem væri vel lesinn og ritfær ætti heima á efri hæðum samfélagsins jafnvel þótt hann gæfi skít í skólann. 

Auðvitað var þetta allt saman þvæla. 

Mannlegt samfélag er eins og Jörðin sjálf. Það er ekkert upp og niður nema á manngerðum kortum.

Kennararnir, prestarnir og læknarnir voru ekkert mikilvægara fólk en fólkið í sláturhúsunum, sútuninni eða barnaheimilunum. Það stuðlaði alls ekkert frekar að vexti og viðgangi samfélagsins. 

Það sem meira er: Fólkið sem greiðasta götu átti gegnum menntakerfið var alls ekkert betur skapað en fólkið sem lenti í torfærum. Það var nákvæmlega ekkert sem réttlætti það að samfélagið hampaði því nánast alla leið frá vöggu að gröf en flæktist fyrir hinum.

Í dag er samfélagið mikið breytt. Fólkið sem áður var kerfisbundið stutt til áhrifa í samfélaginu gegnum menntakerfið nær sínu fram mest megnis með sjálftöku. Fer núna fram í krafti auðs, áhrifa og ættartengsla. 

Hin „menntaða“ stétt hefur að mestu glatað sérstöðu sinni og hásætum. Lögfræðingar, kennarar og læknar njóta engrar sérstakrar virðingar umfram aðra. Það gera rithöfundar ekki heldur. Þjóðin upplifir ekki að þeir hafi neitt sérstakt erindi lengur, nema það að skemmta fólki. Enda eru þeir flestir komnir á endurminninga- og heimsósómastigið.

Sömu öfl lúra þó undir niðri. Börn læra enn ljóð utanbókar, bara ekki eftir löngu dauða karla. Fólk er enn háð stórum örlagasögum, bara núna á Netflix. Og fólk vill enn mennta sig. Annars væri menntamálaráðherra ekki að reyna að berja það af háskólunum.

Ég held samt að bæði íslenskt mál og íslensk menning sé í ákveðinni hættu. Ákveðin verðmæti liggja þar undir skemmdum. Það er samt ekki vegna þess að of stór hluti þjóðarinnar hafi gleymt að leggja rækt við landið sitt. Heldur vegna hins að landið hefur gleymt að leggja rækt við fólkið sitt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni