Ræða á fundi Radda fólksins á Austurvelli 30. september 2017
Seint í vetur, í myrkasta skammdeginu, fengum við, kennararnir í skólanum mínum, heimsókn frá útlöndum. Þetta var lítill hópur kennara sem stendur framalega í skólaþróun í heiminum. Þeir kenna flestir í Bandaríkjunum en ferðast líka um heiminn, m.a. til að kynna margt af því nýjasta og ferskasta í kennslufræði 21. aldarinnar.
Skömmu eftir heimsóknina fékk ég tölvupóst frá leiðtoga hópsins. Í póstinum þakkaði hann kurteislega fyrir mótttökurnar og bauð okkur íslensku kennurunum í heimsókn þegar við kæmum því við. Hann bæti svo við nokkrum orðum frá eigin brjósti. Hann sagði að mér kynni að þykja það kjánalegt – en hann vildi samt endilega segja mér frá því sem hefði verkað einna sterkast á hann í Íslandsreisunni.
Þannig er mál með vexti að ég og samkennarar mínir hefjum alla daga eins. Við setjumst niður á kaffistofunni í dálitla stund. Sumir fá sér kaffi. Aðrir hafragraut. Kaffistofan hefur stóran suðurglugga með útsýni yfir Heiðmörkina og Bláfjöll. Út um hann sér maður daginn vakna. Í skammdeginu dempum við ljósin, kveikjum á kerti – og njótum þess að eiga saman rólega og notalega stund áður en kennslan hefst.
Það var á svona morgni sem hinir bandarísku gestir komu í heimsókn. Við buðum þeim kaffi og sátum svo saman í smá stund í hálfrökkrinu og spjölluðum áður en við snerum okkur að erindi þeirra, sem var að hitta íslensk börn í leik og starfi.
Og það var þessi stund sem hinn þrautreyndi og heimsfrægi ameríski kennari sagði að hefði líklega haft mest áhrif á sig í allri heimsókninni. Stutt og notalegt kaffispjall við kertaljós í íslensku skammdegi.
Ástæðan sagði hann að væri sú að svona lagað væri að mestu horfið úr skólunum sem þau þekktu. Hið opinbera sæi enga ástæðu til að vera að stuðla að morgunsamveru kennara. Þvert á móti væri ætlast til þess að dagarnir byrjuðu á móttöku nemenda og kennslu. Kennarar sem endilega vildu kaffi mættu taka með sér hitabrúsa að heiman.
Ég hef af og til hugleitt þetta atvik á árinu þegar fréttir hafa gefið tilefni til. Nú síðast þegar frétt barst frá Bretlandi um að þarlent hjúkrunarfólk hefði ekki lengur tíma til að tala við sjúklingana.
Það er nefnilega svo að það er bæði hægt að tímamæla og verðleggja blóðprufur og uppsetningu þvagleggs. En bros finnst ekki í neinni verðskrá – og natni hefur enga skilgreinda tímalengd. Og það sem ekki er hægt að reikna til mínútna eða króna – ratar á endanum ekki inn í töflureiknana – og það sem ekki ratar inn í töflureiknana þarf fyrr eða seinna að víkja fyrir því sem þar er.
-
Að reka samfélag er ekki bara tæknilegt viðfangsefni. Samfélag verður að vera mannlegt.
Períkles er einna fyrstur sagður hafa lýst grundvallarstoðum lýðræðisríkis. Í lýsingu hans, sem er um 2400 ára gömul, kemur fram að algjört grundvallaratriði sé – að borgara í lýðræðislegu samfélagi sé annt um lýðræðið.
Sem kennari eyði ég minni tíma í baráttunni við áhugaleysi nemenda en í baráttuna við andleysi þeirra sem telja að menntun sé einungis tæknilegt viðfangsefni. Við fólk eins og menntamálaráðherrann sem lofaði að efla lestur og lét skilgreina upp á sekúndu hve lengi ákveðinn hundraðshluti barna ætti að vera að lesa hundrað orð – á sama tíma og hann tók þátt í því að hækka verulega skatta á barnabókum.
Læsi er mikilvægt. En það er ekki mikilvægt af sjálfu sér. Það er ekki mikilvægt af tæknilegum ástæðum. Manneskja sem les hratt er ekki sjálfkrafa betri en manneskja sem les hægar. Lestrarkennsla hefur þá aðeins skilað árangri þegar orðin á síðunum fá vængi í huga lesandans. Til þess þurfa börn bækur.
Það er enn ekki til það skjal í fórum menntayfirvalda sem vegur frumleika hugsunar eða þrýstikraft innblásturs. Frá sjónarhóli – eða ætti ég að segja sjónarholu – tæknikratana skiptir þetta tvennt litlu máli.
Það eru ekki bara í Bretlandi þar sem fagfólk og umönnunaraðilar mega varla vera að því að tala við fólkið sem það er að vinna fyrir. Á íslenskum hjúkrunarheimilum stendur fagfólk í nákvæmlega sama slag við kerfisköngullærnar sem allt þarf að straumlínulaga og öllu þurfa að hagræða. Afleiðingin er einmana, veikt, gamalt fólk sem vigtað er með messubundinni reglusemi og stungið með nálum – en skortir það sem á endanum er allra mikilvægast: Mannlega nánd og mannlega reisn.
Það er bölvað hark að viðhalda mennskunni í samfélagskerfum tæknikratanna.
Í frægri sálfræðitilraun voru apa-ungar píndir með því að vera rifnir af mæðrum sínum og settir í búr með gervimæðrum. Þeir höfðu val um tvær mömmur. Önnur var hlý og mjúk (þótt hún væri steindauð). Hin var kalt og bert víravirki með áfestum pelum. Markmiðið var að rannsaka hvort væri ungviði mikilvægara, hlýja eða næring.
Niðurstöðuna þekkjum við flest. Ungarnir héldu dauðahaldi í hlýju mömmuna og komu helst ekki nálægt víramömmunni nema til að seðja sárasta hungrið. En stukku svo jafnharðan í fang hinnar mömmunnar.
Að þessu leyti er meira vit í munaðarlausum apaunga en mörgum rekstrarfræðingnum.
Börn á Íslandi nutu þess öldum saman að vera alin upp á mannmörgum heimilum. Þau heppnustu fengu að sitja í afa- eða ömmufangi meðan foreldrarnir strituðu. Það var þar sem þau lærðu að lesa. Það var þar sem þau fengu ást á sögum. Það var þar sem orð fengu vængi í hugum barnanna. Það var þess vegna sem hér urðu til rithöfundar sem leiddu tungumálið okkar til þarfrar endurfæðingar í bókmenntum.
Ömmurnar sitja núna einmana inni á stofnunum og bíða eftir blóðprufunni eða baðinu. Börnin eru hrifin af fjölskyldum sínum meðan þau eru enn ómálga, því vinnumarkaðurinn telur algjörlega nauðsynleg að bæði mamma og pabbi byrji sem allra fyrst að vinna. Því heimurinn er fullur af „peningum og allskonar“ eins og einn stjórnmálamaðurinn orðaði það. Börnunum er því troðið inn á leikskólana sem eru allt of litlir fyrir öll þessi börn. Þangað inn vantar með börnunum a.m.k. 1500 leikskólakennara – en það verður að vera svo. Það er leyst með því að stétt íslenskra leikskólakennara er sú stétt slíkra kennara í okkar heimshluta sem býr við mesta vinnuþrælkun. Þegar einn kennari brennur út … kemur enginn í staðinn.
Þolinmóðar ömmur sem áður sátu og lásu með börnum – og lásu í börn – verða smám saman í menntakerfinu að víravirkisömmum með áfestum skeiðklukkum – sem mæla hraða og fjölda mismæla svo hægt sé að finna barninu stað í Excel-skjali.
Kerfin sem þjóna áttu manneskjunum eru hægt og rólega að ýta mennskunni út á jaðarinn – enda er mennskan ekki auðhöndlanlegt tæknilegt viðfangsefni.
Timothy Snyder, sagnfræðingur, sagði í Silfrinu um daginn að þegar fólk hættir að trúa því að kerfi geti bætt ástandið – þá fari því að standa á sama um kerfin sem slík.
Hvergi í kringum okkur eykur langskólanám tekjumöguleika fólks minna en hér – og hvergi í kringum okkur virðist fólki standa jafn mikið á sama um menntun og hér.
Þegar við stöndum hér þessum velli, fyrir framan þetta hús, þá gerum við það vegna þess að okkur er ekki sama. Það þýðir, að þessi hópur sem hér er samankominn, hefur enn trú á að hlutirnir geti batnað. Trú á lýðræðinu.
Lýðræðið deyr þegar fólki verður sama um það. Og fólki verður sama um það þegar fólk missir vonina. Það er gunnfáni vonarinnar sem blaktir yfir okkur öllum hér í dag.
Og það er býsna merkilegt að hér sé þó þetta margt fólk sem enn vonar.
Síðustu daga höfum við horft á stjórnmálamenn vakna upp við vondan draum og átta sig á því að þeir verða að bregðast hratt við breyttum aðstæðum. Þegar fólk veit ekki alveg hver næstu skref eru, þá er nærtækt að gera það sem maður er vanur. Við mætum hingað og reynum að glæða vonina í hjörtum okkar og annarra. Stjórnmálamenn og hirð þeirra fara að ástunda hefðbundin íslensk stjórnmál af gríðarlegu kappi. Og ef stjórnmálin væru eimuð kæmi í ljós að þau samanstanda að mestu leyti af dylgjum og dellu.
Fólkið í landinu hefur hrakið frá völdum þrjár ríkisstjórnir á einum áratug. Á allra síðustu árum hafa tveir forsætisráðherrar hrökklast frá völdum. Þeir eiga það báðir sameiginlegt að upplifa fall sitt sem fullkominn óþarfa og misskilning.
Þegar formaður Framsóknarflokksins steig til hliðar á sínum tíma talaði faðir hans um stórkostlega fléttu. Enda kom seinna í ljós að nýi forsætisráðherrann hafði lofað hátíðlega að verða aldrei annað en leppur. Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins var hrakinn frá völdum sá hann enga sök hjá sjálfum sér – aðra en hugsanlega þá að hafa vanrækt ákveðnar tæknilegar lagabreytingar. Að öðru leyti fannst honum – og finnst eflaust enn – hann bara óheppinn.
Fall síðustu ríkisstjórnar snýst ekki um að einhver hafi gert tæknivillu. Fall hennar stafar af því að menn vanræktu mennskuna, sá sem stjórnar lýðveldinu þarf að sýna í verkum sínum að lýðveldinu þyki vænt um fólkið sitt – ef fólkinu á að geta þótt vænt um lýðveldið á móti.
Kerfið einblíndi á þætti sem það kunni að bókfæra. Þar fannst hvorki skilningur né siðferðiskennd.
Í Morgunblaðinu birtist á dögunum „skopmynd“ þar sem flóttafólk var táknað sem innrásarher. Andstæðingar flóttafólks voru málaðir sem varnarlið íslenskrar menningar.
Við erum semsagt komin þangað.
Á meðan allir eru sammála um að sárt sé að sjá vonina í augum flóttabarna slokkna, þá telja sumir að lausnin felist í að sjá til þess að hún nái aldrei að kvikna. Forgangsverkefnið sé að hrekja í burt frá landinu fólk – áður en það nær að mynda mannleg tengsl. Og áður en mannlegu tengslin ná að skjóta fræjum mannlegrar reisnar.
Á sama tíma hefur numið hér land hin trömpíska-bylgja. Það er farið að trosna úr sannleikanum. Augljósar mótsagnir og lygar skipta ekki verulegu máli – svo lengi sem svellur í sannfæringunni.
Sjálfur forsætisráðherrann sá ástæðu til að leiðrétta mann sem krafðist þess að nýja stjórnarskáin yrði tekin á dagskrá. Slíkt væri misskilningur. Það væri ekki til nein ný stjórnarskrá.
Það eru ærin tilefni til að æðrast.
Og samt stöndum við hér. Og okkur er ekki sama. Við höfum ennþá von.
Við vonum að það sé nóg að fella þrjár ríkisstjórnir til að stjórnmálamenn skilji að stjórnmálin þurfa að breytast.
Við vonum að stjórnmál í landinu hætti að vera skylmingar með hagsmuni þar sem sá sterkari kúgar stöðugt þá veikari.
Við vonum að stjórnmál í landinu fari að snúast um almannahag – og að lýðræðinu fari að þykja vænt um fólkið sitt – svo fólki fari líka að þykja vænt um lýðræðið sitt.
Við þurfum fleiri ömmur á Alþingi og færri mjólkandi málmapa.
Við þurfum stjórnarskrárumbætur.
Ég fylgdist náið með störfum Stjórnlagaráðs á sínum tíma. Ég man hvernig fyrstu fundir þess voru næstum óþolandi. Þeir minntu of mikið á pólitíkina. Hver talaði í kapp við annan og reyndi að tala hæst.
En svo gerðist eitthvað. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að í samfélaginu ríkti þá þögul örvænting um framtíð landsins eða hvort það var vegna þess að menn fundu til ábyrgðar vegna hins lýðræðislega ferils málsins – allavega, þá breyttist yfirbragð Stjórnlagaráðs ótrúlega hratt.
Þarna voru samankomnir einstaklingar sem mun lengra var á milli í skoðunum – en á milli þess fólks sem hamast nú við að naga hæla hvers annars í kosningabaráttu. Þarna voru frjálshyggjumenn og félagshyggjumenn; trúaðir og trúlausir; fólk héðan úr hverfinu og fólk lengst utan af landi.
Allt í einu fór þetta fólk að tala saman. Um hagsmuni þjóðarinnar. Mál voru rökrædd og skoðanamunur var uppi. En að endingu – í þetta eina skipti – virtist fólk ekki láta hindra sig í að halda áfram og komast að sameiginlegri niðurstöðu.
Það er í raun pólitískt undur.
Þjóðaratkvæðagreiðsla studdi nokkrar meginniðurstöður Stjórnlagaráðs. Á sama hátt og Stjórnlagaráð hafði stuðst við Þjóðfund.
Í dag er í tísku að tala niður stjórnarskrána og láta eins og hún sé ekki til. Þjóðaratkvæðagreiðslan er líka hædd. Ég gef ekkert fyrir slíkar úrtölur fólks sem á sama tíma skákar í skjóli þess að pólitískar skoðanir þess njóta vægis langt umfram hlutföll þeirra í samfélaginu vegna skekkju í kjörsókn.
Nýja stjórnarskráin er ekki atkvæðasegull. Þú fitar ekki hesta framboðanna á henni. Samt nýtur hún meirihlutastuðnings þjóðarinnar.
Mig grunar að áhugaleysið stafi af því að of margir hafi tapað voninni um að stjórnmálakerfið geti í raun bætt sjálft sig.
Það útskýrir líka þróttinn í þeim sem berjast fyrir stjórnarskránni. Vonin er öflugur hreyfill.
En það þarf ekki endilega mörg vonarfyllt hjörtu.
Eitt einasta kerti getur dugað til að lýsa upp heilt skammdegi – og þannig minnt okkur á mennskuna þar sem hún kann að hafa gleymst.
Það er kannski bæði bernskt og kjánalegt af mér – en það sem verkaði sterkast á mig þegar enn ein stjórnmálatilraunin hrundi til grunna hér í landinu var að frétta af því að Hörður Torfason og fólkið hér á vellinum ætlaði að hittast hér um helgar fram að kosningum. Þá mundi ég að Ísland er ekki bara brokkgengt stjórnmála- og fjármálakerfi. Ísland er fólk. Gott fólk.
Gott fólk á það til að hverfa þegar kerfið nær sér á strik. En þegar það hikstar skapast tækifæri fyrir gott fólk að minna á mikilvægu mennskunnar í kerfinu. Okkur fer ekki að þykja vænt um lýðræðið okkar – fyrr en það sýnir að því þykir vænt um okkur.
Það eru skilaboð mín til stjórnmálamanna í kosningaham. Verði áfram mennsk og látið væntumþykju sjást í stjórn landsins.
Mig langar líka að nota tækifærið og bera skilaboð til Harðar Torfa og Radda fólksins. Þau eru ekki flókin:
Takk.
Athugasemdir