Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kæri lögmaður kennaraforystunnar

Kæri lögmaður kennaraforystunnar,

 

það ku vera í tísku þessa dagana að hóta kennurum lögsóknum. Einhver kollegi minn gæti átt yfir höfði sér lögsókn fyrir að senda barn þreytt heim úr skólanum ef marka má fréttirnar. Og sjálfum var mér í dag hótað lögsókn fyrir þessa færslu hér.

Það óvenjulega í málinu er að sá sem hótar að láta þig, kæri lögmaður, sækja mig til saka er formaður Félags grunnskólakennara. Skrif mín í gær skaprauna honum ógurlega og hann fullyrðir að þau séu aðeins „óhróður og lygar“.

Í ljósi þess að „kæruskjal“ formannsins er nokkuð óljóst og víðfemt og virðist snúast að nokkru um það sem ég skrifaði ekki (sbr. „Ég finn ekki í grein Ragnars...“ og „Ragnar setur hvergi fram hugmyndir um...“) auk þess sem megnið af meginmálinu snýst um að segja frá hlutum sem koma grein minni ekkert við – þá ætla ég að auðvelda þér vinnuna og leggja pistil minn hér á uppskurðarbekkinn svo þú getir auðveldlegar áttað þig á í hverju hinar meintu lygar felast.

Ég segi í pistlinum að ég telji oddvita kennara taka virkan þátt í að villa um fyrir kennurum og halda frá þeim mikilvægum upplýsingum.

Kæri lögmaður, þér verður vonandi ljóst við lestur þessa (langa) bréfs að þetta er því miður dagsatt. En byrjum á byrjuninni. Formanninum virðist mikið í mun að láta líta út fyrir að óánægja mín snúist um kjarasamning kennara. Það er einfaldlega alrangt. Ég hef oft og ítrekað sagt að þessi samningur sem samþykktur var hafi verið skásti samningur sem var í boði. Ég hef líka sagt að það hefði verið áhætta að hafna honum. Það sem ég hef gagnrýnt suma í kennaraforystunni fyrir er að veita kennurum ekki fullnægjandi og á tíðum rangar upplýsingar um samninginn og framkvæmd hans. Það er allt annað mál.

Ólafur gefur í skyn að ég níði skóinn af fólki í trúnaðarstöðum fyrir félag kennara. Vissulega heitir greininin „Trúnaðarmenn“ kennara. Það ber þó vott um ótrúlega slakan lesskilning ef menn halda að ég sé að gagnrýna trúnaðarmenn FG. Ég er barasta alls ekki að því. Raunar eru mjög margir úr hópi trúnaðarmanna mun ákveðnari í gagnrýni á forystuna en ég. Ég nota orðið einfaldlega vegna þess að mér hefur fundist skorta upp á að tiltekinn hópur forystumanna sýni félagsmönnum trúnað, sanngirni og heiðarleika.

Meðan ég skrifaði pistilinn gætti ég þess mjög að segja ekkert sem ég gæti ekki stutt með gögnum. Nú skaltu sperra eyrun, kæri lögmaður, því nú ætla ég að leggja á borðið forsendur fullyrðinga minna. 

Veitir kennaraforystan takmarkaðar, villandi og jafnvel rangar upplýsingar til kennara?

Svarið er hiklaust „já“.

Tökum nokkur dæmi:

Í kæruskjali formannsins er enn einu sinni gefið í skyn að kjarasamningur kennara hafi átt að vera leiðrétting á of lágum launum miðað við laun annarra. Svipað var oft gefið í skyn í aðdraganda samninga. Enda var krafa kennara um launaleiðréttingu skýr og hún átti að liggja til grundvallar allri kröfugerð. Á sama tíma var forysta kennara viðloðandi svokallað SALEK-samkomulag. Innan þess vettvangs þurfti kennaraforystan að afla launaleiðréttingarinnar gildingar ætti hún ekki að ónýtast nærri strax. Við kennarar fengum sífellt (og fáum enn eins og bréf Ólafs sannar) þá mynd af störfum forystunnar að þeir hafi verið að reyna að leiðrétta laun okkar í samfélaginu. Á sama tíma liggur nú ljóst fyrir að kennaraforystunni mistókst frá upphafi að afla aðgerðunum stuðnings innan SALEK-hópsins. Þess vegna telja m.a. sveitarfélög sig alls ekki skuldbundin að verja launaleiðréttingu kennara. Þvert á móti raunar, því kjarni þess samkomulags sem gert var (og alltaf var víst stefnt á) gerði ráð fyrir að kjarabætur kennara yrðu jafnaðar út hjá öðrum og að kröfur okkar um annað og meira mætti með réttu hunsa í nafni kröfunnar um stöðugleika.

Þetta eru mál sem skipta töluverðu máli. Forysta kennara hefur enga tilraun gert til að upplýsa félagsmenn um neitt af þessu. Ekki nokkra. Án vitneskju um þessa hluti fullyrði ég að ómögulegt sé að taka afstöðu til þeirrar áhættusömu hernaðaráætlunar sem núgildandi kjarasamningar voru.

En kannski er þetta allt saman of flókið og snúið til að sanngjarnt sé að ætla forystunni hlutverk við að upplýsa hin almenna kennara. Segjum því að forystan sé saklaus af þessum lið ákæru minnar.

Skoðum einfaldari dæmi:

Þann 27. maí 2014 klukkan 13:43:10 sendi varaformaður FG frá sér tölvupóst sem innihélt áminningu til kennara. Yfir henni stóð: „Athugið“ og svo fylgdu tvö upphrópunarmerki. Svo þetta:

„Að þessu sinni er verið að greiða atkvæði um eftirfarandi:

Ø 7, 3% launahækkun frá 1. maí og 2% 1. janúar 2015

Ø Hvort félagsmenn FG geti eftir 1. júlí ákveðið að afsala sér kennsluafslættinum. Hver og einn tekur þá ákvörðun fyrir sjálfan sig og getur látið skólastjóra vita á tímabilinu 1. júlí - 31. desember. Afsal kennsluafsláttar felur í sér launahækkun.

Ø Hærri annaruppbætur

Ø Hækkun á framlagi sveitarfélaga í sjúkrasjóð

Engin breyting verður á kjarasamningnum að öðru leyti í kjölfar þessarar atkvæðagreiðslu

Notið atkvæðisréttinn“

Því verður ekki neitað að þessi póstsending virkar mjög hvetjandi. Engar breytingar eru sagðar verða á kjarasamningi að öðru leyti en því að kennarar geti á tilteknu tímabili afsalað sér kennsluafslætti (sem síðan hefur tvisvar verið framlengt tímabundið) og svo geta menn fengið launahækkanir.

Ekki einu orði er vikið að því í tölvupóstinum að þarna var sannarlega verið að kjósa um fleira en bara þetta. Þarna var nefnilega verið að kjósa um grundvallarforsendur svokallaðs „vinnumats“. Það er ekkert smáræði. Vinnumat er algjörlega kjarninn í allri kjaraumræðu kennara þessi misserin. Fjöldi kennara samþykkti forsendur vinnumats á sínum tíma án þess að hafa hugmynd um það. Meðal annars vegna nákvæmlega þessa bréfs.

Fáum fleiri dæmi:

Níunda janúar 2015 skrifar Ólafur Loftsson á fésbókarsíðu kennara: „vegna gæslu, er rétt að minna á að gæsla verður greidd eins og áður og verður engin breyting þar á. Þeir sem vilja fara í gæslu í hádegi eða frímínútum fá greidda yfrivinnu fyrir það eins og áður. Vilji menn ekki fara í gæslu, gera menn það ekki.“

Hér gæti ég eytt löngu máli í að útskýra hvers vegna þessi færsla sé í besta falli villandi en í versta falli haugalygi. Ég ætla samt að sleppa því og ráðlegg þér að lesa bara aftur yfir kæruskjalið frá Ólafi sjálfum. Sérstaklega þennan hluta: „Mest er óánægja [með samninginn] með framkvæmd gæslumála. Allt of mikið er um að kennarar hafi verið settir í gæslu án þess að vilja það.“

Þá er enn ótalið þetta:

Formaður kennarafélags Reykjavíkur fullyrti í bréfi til félagsmanna sl. haust að „[k]ennari sem vill ekki taka gæslu getur neitað því með faglegum rökum. Fagleg rök geta verið ýmiskonar t.d. þau að finnast gæsla ekki vera faglegt starf.“

Þessi tilvitnun, sem kom fram á viðkvæmasta tíma, er einfaldlega algjörlega ósönn. Það er rangt að kennari geti neitað gæslu með þessum rökum. Það væri brot á kjarasamningnum. 

Með öðrum orðum: Ég hafna því algjörlega að það séu lygar eða óhróður að forysta kennara hafi veitt rangar og misvísandi upplýsingar. Þvert á móti er það algjörlega hafið yfir vafa. Ætti að vera óumdeilt.

Nú má vera að formaður KFR hafi einfaldlega ekki vitað betur. Og það getur verið erfitt að kalla það lygi að tjá sig óvarlega um eitthvað sem maður þekkir ekki nógu vel. Ég hef ákveðna samúð með slíkum sjónarmiðum. Þótt ég telji raunar að það sé svo gott sem óafsakanlegt að formaður stærsta kennarafélags landsins sé að senda út lögskýringar á málum sem hann hefur ekki einu sinni grundvallarskilning á. Hvað varðar mál Ólafs og Guðbjargar er þó engu slíku til að dreifa. Þar er einfaldlega verið að ljúga með þögninni. Það er verið að veita ófullkomnar upplýsingar til þess að gefa flóknu málefni meira aðlaðandi yfirbragð. Það væri saga til næsta bæjar að nota nauðungargreiðslur kennara til félagsins (en kennarar hafa ekkert val) til að borga þér, kæri lögmaður, fyrir að lemja á kennara sem afhjúpar svona athæfi.

Ég hélt ýmsu öðru fram í pistlinum. Skoðum það allt. Sjáum hvort ekki sé einhversstaðar lygi eða óhróður.

Ég sagði að í óformlegri könnun kennara hefðu níu af hverjum tíu verið óánægðir með samninginn. Hér skal ég játa á mig ofurlitla ónákvæmni. Óánægðir voru 89,8%. Ánægðir voru 8% og afgangurinn var hlutlaus.

Ég sagði að sömu hlutföll giltu um ánægju með forystuna. Þar voru 89,6% óánægðir og 6,5% ánægð. 

Ég sagði líka að innan við einn af hverjum tíu kennurum treysti forystunni til að vinna að hagsmunum kennara. Nákvæm tala er 8,6%.

Ég sagði líka að þetta hefðu verið rúmlega 500 kennarar. Þeir voru víst 523. 

Þetta má hafa í huga þegar sá liður kæruskjalsins er lesinn sem fjallar um að líklega sé ég aðeins að reyna að magna upp óeiningu meðal kennara með skrifum mínum.

Maður þarf að vera samangróinn við fílabeinið í turninum sínum til að sjá ekki að það er bullandi óeining til staðar hvað sem líður skrifum mínum. Ég er hvorki að reyna að auka hana né magna upp. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að eining muni ekki nást fyrr en kennarar geti rætt sín mál út frá öllum forsendum með fullkominni hreinskilni. Í stað þess að láta eins og meðvirk fjölskylda drykkjusjúks ofbeldismann í örvæntingarfullri tilraun til að líta út fyrir að vera bæði ánægð og sátt.

Ég sagði líka að kennaraforystan hefði brugðist við þessari óánægju með því að lofa úttekt á framkvæmd kjarasamningsins. Það getur meira að segja Ólafur sjálfur sagt þér að er alveg dagsatt. Ég sagði líka að sú úttekt hefði verið gerð á afar óvenjulegan hátt. Í stað þess að veita upplýsingar um forsendur mögulegrar óánægju var aðeins boðið upp á að svara mikilvægum þáttum þannig að þeir urðu sjálfkrafa trúnaðarmál.

Ólafur sá engan tilgang í að kanna traust fólks til forystunnar. Hann rökstuddi það fyrir kennurum með sama passíf-aggresífa hættinum og ég hef átt að venjast þegar hann sendir mér gremjufull einkaskilaboð þegar honum mislíkar það sem ég hef sagt:

„Hver ætti tilgangur slíkrar vinsældakönnur að vera ? Hvað á að gera við niðurstöðuna? Liggur það ekki fyrir að ég og forysta FG er handónýt? Það hefur margítrekað komið fram hér á þessari síðu hjá ákveðnum hópi aðila.“

Þegar niðurstöður könnunarinnar voru birtar vantaði auðvitað öll svör sem formaðurinn hafði skilgreint sem trúnaðarmál. Þrátt fyrir að margítrekað væri bent á að það væri í meira lagi vafasamt að umdeild stjórn kennarasamtaka neitaði að birta niðurstöður nema að ritskoða þær fyrst þá hafa þær enn ekki fengist birtar í neinni mynd. Enda virðist það ekki hafa staðið til. Fyrst þegar formaðurinn var gagnrýndur fyrir að halda þeim niðurstöðum eftir sagði hann:

„Eins og fram kemur eru þetta helstu niðurstöður. það sem er ekki þarna eru upplýsingar um starfshlutfall, hvar fólk kennir o.fl. Það er svo sem ekkert mál að birta þær upplýsingar, en bæta litlu við þau meginatriði sem fram eru komin.“ 

Þetta var 20. desember. Eftir frekari umræður var lofað að birta niðurstöður um ánægju og óánægju á nýja árinu. Mánuði seinna var kallað eftir efndum. Þá var svarið þetta: „Við erum búin að senda út þær niðurstöður sem mestu máli skipta. Það sem ekki var sent út voru bakgrunnsupplýsingar. Svör einstakra félagsmanna verða ekki birt enda trúnaður um það.“

Þetta þótti að vonum fúlt svar og Ólafi var ekki sleppt með svo komið. Þá sagði hann: „Enn og aftur. Einstök svör einstakra félagsmanna verða ekki birt. Við erum að klára samantekt á þeim þáttum sem félagsmenn nefndu sem jákvæða og þá þærri sem eru neikvæðir. þetta verður birt þegar þetta er tilbúið.“

Þetta var 19. janúar. 

Nú gætu margir undrast það að eitthvað sem verið er að klára 19. janúar sé enn jafn óklárað í byrjun mars. Þó verður hér að huga að hinu stærra samhengi.

Samhengið verður ekki ljóst nema skoðaðar séu fundargerðir verkefnastjórnar um vinnumat. 

Þann 17. desember er eftirfarandi fært til bókar:

„Verkefnisstjórn (vstj.) vill að gerð verði heildarúttekt á stöðu innleiðingar vinnumatsins meðal kennara og skólastjórnenda á vorönn og telur þýðingarmikið að sameiginlega verði staðið að henni af samningsaðilum. Mikilvægt er að unnt verði að meta ávinning og annmarka vinnumatsins og draga af lærdóm sem nýst getur vegna næstu kjarasamninga og áframhaldandi innleiðingar vinumatsins. Af því tilefni var dr. Amalía Björnsdóttir boðuð til fundarins til skrafs og ráðagerða um inntak og áherslur í slíkri úttekt“

Á sama fundi er eftirfarandi rætt:

„Þá kom einnig til tals hvort setja ætti upp rýnihópa í landshlutunum með tilteknar spurningar til umfjöllunar. Með því móti væri hægt að ná ítarlegri upplýsingum frá aðilum vinnumatsins og hafa jafnvel áhrif á stemminguna sem myndast, sem skipt getur máli. Uppi komu vangaveltur um það hvernig best yrði skipað í slíka rýnihópa“

Sjöunda janúar er enn verið að ræða um viðhorf kennara:

„Fundarmenn ræddu um mikilvægt þess að draga fram það jákvæða sem af vinnumatinu getur leitt fyrir þróun skólastarfs og starfsumhverfis kennara og hvetja þyrfti þá til þess að skoða möguleikana með opnum huga. Til umræðu kom hvort ekki mætti skrifa greinar í Skólavörðuna þar sem jákvæðar hliðar vinnumatsins eru dregnar fram“

Á þessum fundi var haldið áfram að ræða tilvonandi könnun á vinnumatinu. 

„Amalía Björnsdóttir sat fundinn og fór yfir það helsta sem hún hafði orðið áskynja við yfirlestur þeirra gagna sem henni voru send til skoðunar milli funda, sbr. síðasta fundargerð frá 17.12.15. Amalía taldi að betur þyrfti að vinna úr FG niðurstöðunum og hreinsa m.a. burtu ákveðna hópa svarenda sem ekki kæmu vinnumatinu við svo auðveldar væri að greina og flokka svörin, t.d. eftir kennarahópum. GR mun senda henni slíka úrvinnslu. Margt þyrfti að skoða og greina mun betur og taldi Amalía FG könnunina gefa einna gleggsta mynd af stöðunni á vettvangi af þeim gögnum sem til væru (sbr. fundargerð 39) enda væri hún nýjust. Svörun var 52% og dreifing nokkuð jöfn eftir kyni, aldri og landssvæðum. Þá mætti spyrja sig hverjir væru líklegri til þess að svara, þeir sem væru óánægðir eða hinir.

Undirstrikaði hún mikilvægi þess að markmið könnunar þyrfti að vera mjög skýrt áður en lengra væri haldið og í hvaða tilgangi niðurstöður yrðu nýttar. Könnunin þarf að geta veitt svör við því hvort við séum á réttri leið í þróun skólastarfs og starfsumhverfis með vinnumatinu. Komi fram óánægja í svörum þarf að vera hægt að greina á milli þess hvort hún felist í óánægju með kjarasamninginn sjálfan og ákvæði hans eða framkvæmd hans.“

Þarna er  7. janúar, nærri tveim vikum áður en Ólafur segir að verið sé að klára úrvinnslu könnunar FG. Þarna hefur augljóslega verið rædd óánægja og ánægja með samninginn (hin háleynilegu trúnaðargögn) ef marka má síðustu orðin í fyrri efnisgreininni. Um leið eru menn sammála um að frekari kannanir verði að hafa afar skýr markmið. Það verði fyrirfram að vera búið að ákveða til hvers verið sé að gera könnunina. 

Það er í þessu samhengi sem síðar er rætt á fundinum hvort ekki sé hægt að skrifa gleðisögur um vinnumatið í Skólavörðuna. Sem kemur í beinu framhaldi af umræðum síðasta fundar um að velja vandlega fólk í rýnihópa og reyna að hafa áhrif á „stemminguna“ (svo!).

Í minni túlkun í hinni fordæmdu færslu sem þú, kæri lögmaður, átt að fá mig dæmdan fyrir segi ég þetta orðrétt (leturbreyting eftirá):

Ráðin var til aðstoðar utanaðkomandi manneskja sem virðist hafa fengið að skoða hin háleynilegu trúnaðargögn og í framhaldi af því var ákveðið að fara þyrfti mjög varlega til að gera kennara ekki of stygga. Allar kannanir á stöðu mála þyrftu að skila niðurstöðu sem þjónuðu réttum hagsmunum.

Mest púður virtist fara í ráðagerðir um það hvernig hafa mætti stjórn á kennurum sjálfum. Rætt var um að vinna þyrfti markvisst að því að gera kennara jákvæða gagnvart grundvallaratriðum samningsins og eins að beita málgagni Kennarasambandsins til þess arna. Þá kom upp sú hugmynd að handvelja fólk í rýnihópa til að skoða málið betur og „hafa jafnvel áhrif á stemminguna sem myndast“.

Annan febrúar hefur verkefnisstjórnin ákveðið að láta barasta ekki fara fram neina úttekt. Sem ég sagði slæm málalok. Enda standi kennarar nú frammi fyrir því að þurfa að taka aðra samningalotu við stjórnendur sína og verja sig gagnvart mikilli ásælni (sem m.a. er til komin vegna þess að skólar hafa ekki nægt fjármagn til rekstrar) án þess að hafa fengið mikilvægar upplýsingar um afstöðu eða reynslu annarra kennara. Kennarar eru blindaðir og einangraðir hver fyrir sig.

Um slíka stjórnarhætti notaði ég orðin að „deila og drottna“ enda er aðferðarfræði sveitafélaga nú beint upp úr slíkum herkænskubókum.

Ég segi að kennaraforystan hafi markmið með aðgerðum sínum, sem meðal annars lúti að því að stjórna stemmningunni og gera kennara jákvæða gagnvart vinnumatinu og framkvæmd þess og að hún beiti upplýsingum markvisst (eða réttara sagt upplýsingaskorti) til að ná fram markmiðum sínum.

Þetta kallar Ólafur Loftsson lygar og óhróður. Þetta er því miður sannleikurinn.

Ólíkt Ólafi er ég vanur að vanda mig þegar ég skrifa. Ég hrekk ekki til eins og nýútsprunginn íslenskur Trump og hóta fólki lögsóknum þegar mér mislíkar eitthvað. Ég skrifa það sem ég get staðið við. Ólafur sakar mig um að lýsa sér sem glæpamanni og kallar mig lygara. Hann þykist ekki lengur geta setið undir skömmunum aðgerðalaust og ætlar því að láta lögmanninn sem ég greiði laun (en ekki hann) hræða mig til hlýðni.

Ég skal alveg gangast við því að mér þykir Ólafur heldur slappur formaður og fulltrúi kennara. Það hvarflar þó ekki að mér að reyna að þagga niður í honum með hótunum þótt það séu brögð sem sem honum virðast handgenginn. Sú ímynd að hann hafi setið þegjandi undir óhróðri og lygum er jafn fölsk og flest annað við málflutning hans. Ég á langa skilaboðahala þar sem hann skammast í mér fyrir skrifin og í eitt skiptið skrifaði hann mér öskuvondur og örfáum mínútum seinna voru komin skilaboð frá stjórnendum  stærsta spjallsvæðis kennara um að þeim hefði beðist ósk um að henda mér úr hópnum. Á þeim forsendum að ég væri ekki starfandi kennari og hefði þess vegna ekkert í hópnum að gera. Sú aftaka mistókst því þá var ég aftur farinn að starfa sem kennari. Ólíkt Ólafi. Og til dæmis ólíkt fjölmiðlafulltrúa og áróðursmanni FG sem alls ekki er kennari en hefur laumast í hópinn og hlustar þar á allt það sem kennarar segja sín á milli og lækar innlegg formannsins ef á þarf að halda.

Þannig að þú sérð, kæri lögmaður. Allt það sem ég skrifaði byggði ég á heimildum. Eins traustum og mér bjóðast. Það er, opinberum upplýsingum. Ég hef nefnilega afþakkað öll boð Ólafs nýlega um að koma í kaffisopa og ræða málin undir rós. Ég tel mig nefnilega tilheyra fagstétt og ég tel að leyndarhyggja mölvi undirstöður slíkra stétta. Ég vil bara að við höfum öll spil uppi á borðum og tökum upplýstar ákvarðanir. Öðruvísi getum við ekki fyllilega borið ábyrgð á ákvörðunum okkar. Og þá er eins víst að vítahringur sjálfsvorkunnar og leitar að blórabögglum haldi áfram eins og allan þann tíma sem ég hef verið kennari.

Að einu langar mig að spyrja þig í lokin, kæri lögmaður. Hvernig er það, ef kennara er hótað með lögsóknum fyrir að tjá sig um málefni félagsins síns og hann er að ósekju sagður vera lygari, fær hann úthlutað lögmanni til að verja málið fyrir sig – eða eru það forréttindi þeirra háttsettu?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni