Íslensk stjórnmál eru léleg
Við, pólitískir nördar, hlökkum auðvitað til þegar nýja heimildarmyndin um Jóhönnu verður frumsýnd. Ég verð samt að viðurkenna að ég ber ofurlítinn kvíðboga í brjósti fyrir áhorfinu. Og það af ástæðu sem í raun er svo smáskítleg að ég skammast mín ofurlítið fyrir það. En ég er ekki tabú svo ég ætla að gangast við því að það sem truflar mig við tilvonandi mynd er sú staðreynd að í bókahillu forsætisráðherra skuli vera á áberandi stað risastór bók sem er eitthvert alræmdasta áróðursrit þeirra sem afneita vísindalegum staðreyndum.
Síðast þegar ég vissi liggur hún enn í öndvegi í Stjórnarráðinu þessi bók og tekur á móti Sigmundi á hverjum morgni. Rauð eins og eldurinn með stórri, gylltri kjalskrift: Atlas of Creation.
Sköpunaratlasinn er ein stór falsorgía þar sem glansandi umbúðum er beitt til að troða þeirri ranghugmynd í kollinn á lesendum að dýralífið á Jörðinni sé í dag svo gott sem nákvæmlega hið sama og í aldingarðinum Eden.
Hvernig þessi bók rataði upp í hillur hjá æðsta ráðamanni þjóðarinnar okkar er ráðgáta. Þó ekki eins stór ráðgáta og sú hvernig á því stendur að hún fékk að sitja þar árum saman og stilla sér upp við ýmis hátíðleg tækifæri með forsætisráðherrum landsins. Þið finnið varla mynd af forsætisráðherra við iðju sína frá síðustu árum án hennar.
Kannski helgast notagildi bókarinnar að einhverju leyti af því að hún er öðrum þræði hagfræðirit. Í henni eru efnahagskreppur seinni tíma útskýrðar sem svo að þær séu sönnun um flumbrugang Anti-Krists enda séu ragnarök runnin upp. Síðasta orrustan og allt það.
Nema hvað. Mig langar dálítið að búa í landi þar sem snarruglaðir áróðurs- og hagsmunaseggir geta ekki troðið hvaða vitleysu sem er inn á ráðamenn landsins. Ég held nefnilega að stjórnspeki geri af mörgum ástæðum meiri kröfur á okkur en venjuleg vísindi. Ef vísindin njóta ekki griða á stjórnunin engan séns. Ég held að andvísindalegt fólk sé yfirleitt andlýðræðislegt líka. Andlegur subbuskapur smitar út frá sér.
Ég efast um að bíómyndin um lokaorrustu Jóhönnu breyti þeirri skoðun minni að hún hafi valið sér rangan bardaga. Í stað þess að laga það hvernig stjórnmál eru stunduð reyndi hún að nota þau í næstum óbreyttri mynd til að keyra fram eigin sannfæringu. Verði þinn vilji. Jafnvel þótt hún hefði unnið hefði hún tapað. Þótt þú rakir úlf máttu búast við að vera bitinn.
Íslensk stjórnmál eru uppfull af subbulegum samslætti hagsmuna og valda. Þau eru líka að mestu gersneydd hugsjónum. Það er bara svoleiðis. Stjórnmál eru fyrst og fremst fyrir fólk af „praktísku“ gerðinni. Fólkið sem heldur að það sé jarðbundið og raunsætt – en er í raun og veru dálítið sjúklegt, doldið siðvillt. Ef heilbrigð manneskja endar inni á þingi kvelst hún næstum allan tímann þar sem kaldar tennur hugsjónalausu hakkavélarinnar rífa utan af henni allt sem hún stendur fyrir.
Ég vantreysti alveg ofboðslega fólki sem líkar við Alþingi sem vinnustað. Ég held það yfirleitt annaðhvort eitthvað brenglað – eða andlega fjarverandi.
Bægslagangur menntamálaráðherra er annað dæmi um svona subbuskap. Hanna Birna hið þriðja. Hugsið ykkur, Hanna Birna nýtur formlega séð enn fullst trausts oddvita ríkisstjórnarinnar! Sem sýnir að þeir eru ekki bara siðferðilegar marglyttur – þeim er nákvæmlega sama um sæmilega stjórnarhætti. Hún blundar enn undir yfirborðinu sú hugmynd að Hanna Birna sé fórnarlamb. Það geti nú ekki verið stórmál að svína svolítið á illa þokkuðum svertingjum.
Og hvað skal segja um Illuga?
Haldiði að það sé tilviljun að hann kom fram í fjölmiðlum fyrir áratug og gerði sitt besta til að fá fólk til að efast um hlattræna hlýnun? Haldiði að það sé tilviljun að hann beitir eftirlitsstofnunum í íslenska menntakerfinu eins og þær séu framlenging á hans pólitísku aðstoðarmönnum? Haldiði að það sé tilviljun að hann noti vildarvini sína til að koma sér úr klandri og endurgjaldi greiðann með því að greiða götu þeirra erlendis?
Ekkert af þessu er tilviljun.
Ekkert af þessu er heldur bundið við Illuga, Hönnu Birnu eða Jóhönnu.
Íslensk stjórnmál eru bara léleg. Og í þeim kemst lélegt fólk upp með að gera lélega hluti – og gott fólk gerir léleg góðverk.
Athugasemdir