Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Félagsmálaráðherra getur ekki verið alvara

Að sumu leyti er Bretland það land í okkar heimshluta sem á verstri leið er í menntamálum. Það kann enda að vera erfitt að tryggja framgang kröfu um jafn almennt réttlætismál og menntun í svo gersamlega stéttskiptu þjóðfélagi – þar sem ein og sama stéttin fer með flesta þræði valdsins.

Nú hafa stjórnvöld í Bretlandi stigið skref sem margir hafa óttast að yrði stigið. Afnema á kröfur um háskólamenntun grunnskólakennara. Það er viðbragð við verulegum kennaraskorti þar í landi. Hann stafar af mörgum ástæðum – sem flestar eru til staðar hér á landi í einhverjum mæli.

Um aldamótin 1900 var Evrópa full af bjartsýni. Árið 1914 var skollið á stríð. 1917 hremmdu róttækar öfgastefnur álfuna. Næstu áratugir voru tími öfga og átaka. Bjartsýnin dó og kviknaði ekki aftur fyrr en seint á öldinni.

Um aldamótin 2000 var bjart yfir menntakerfum Evrópu. Fyrirsjáanlegt var að 21. öldin myndi gera margvíslegar kröfur um nýja hæfni. Mörg ríki, þar á meðal það íslenska tóku meðvitaða ákvörðun um að búa til fyrsta flokks menntakerfi. Horfa ætti heildstætt á menntun frá leikskóla og upp í háskóla og gera sömu menntunarkröfur til kennara og annarra sérfræðinga sem höndluðu með flókin sérfræðisvið. Árið 2014 stóð þessi hugsjón meira og minna í molum. Árið 2017 var því endanlega lýst yfir af fulltrúum stjórnvalda að kennarastarfið væri dautt. Það er ekki mikil bjartsýni fyrir framhaldinu.

Leikskólakennarastarfið stendur frammi fyrir faglegum dauða. Það er nú þegar stórkostlega laskað – og í stað þess að ganga af fullum krafti til björgunaraðgerða eru valdamiklir aðilar farnir að gæla við að leyfa starfsheitinu að deyja.

Vandi leikskólanna er ekki flókinn. Óskipulagður, mannfrekur og óskilvirkur vinnumarkaður á Íslandi gerir kröfu um langa vinnuviku og miklar fjarverur frá heimili. Það kallar á miklu meiri gæslu barna en ætti að vera nauðsynleg ef hér væri tiltölulega eðlilegur vinnumarkaður og fólk gæti lifað af launum sínum vandræðalaust.

Sveitarfélögin, sem bera ábyrgð á leikskólunum, eru komin í þá stöðu að veita miklu meiri þjónustu en þau hafa ráð á. Það þýðir að sjálfsögðu að skorið er við nögl, annað hvort í launum eða aðbúnaði – eða bæði.

Út frá faglegum sjónarmiðum er viðvera margra barna í leikskólum alltof löng (hið sama gildir um grunnskólabörn). Það eru engin fræðileg eða fagleg rök fyrir því að lítil börn séu upp undir tíu klukkustundir á dag á menntastofnun. 

Vandi leikskólanna hefur dýpkað mjög hratt. Það hefur þó mjög mörgum verið ljóst lengi í hvað stefndi. Nýleg skýrsla OECD sýnir að íslenskir leikskólakennarar búa við allt önnur og verri starfsskilyrði en kennarar í öðrum löndum.

Mig langar að benda áhugasömum um þessi mál að lesa þessar tvær greinar sem ég hef skrifað um málin. Önnur er frá 2011 og hin frá 2013. Ástandið nú er orðið mun verra og alvarlegra.

Í stuttu máli er staðan svona:

Það eru of mörg börn of lengi í leikskóla. Húsnæðið annar ekki þessum fjölda og kennarafjöldinn ekki heldur. Ofan í það hafa leikskólastjórar ítrekað verið látnir „hagræða“ ofan í ástand sem orðið er gríðarlega erfitt.

Það eru engar ýkjur að leikskólinn sé að hruni kominn. Og það verður stórmál að laga þetta – og þar þarf meira en bara peninga til.

Leikskólastigið skiptir gríðarmiklu máli í menntun barna. Ekki vegna þess að leikskólar gefi foreldrum tækifæri til að vinna fjarri heimili – heldur vegna þess að það er í leikskóla sem hægt er að vera með inngrip í margvíslegan vanda sem annars getur orðið miklum mun alvarlegri. Þá mótast skapgerðin að miklu leyti fyrir sex ára aldur og heilbrigt, hvetjandi og gott atlæti hefur mikil áhrif á möguleika þína til farsældar. Enda er á leikskólum starfsfólk sem er sérfræðingar í andlegum og líkamlegum þroska ungra barna og kann að búa þeim bestu mögulegu skilyrði. 

Þegar formaður Félags leikskólakennara sagði í fréttum að fækka þyrfti leikskólabörnum var hann væntanlega að meina tvennt: Að sveitarfélög hafi ekki efni á að þjónusta öll þessi börn og að mörg börn séu í leikskólanum miklu lengur en æskilegast væri. Hvorttveggja er rétt.

Hann er ekki einn um að vera að nefna þetta. Um daginn var í fréttum rætt um að börn fengju takmarkaða leikskólavist þegar foreldrarnir væru í fæðingarorlofi.

Félagsmálaráðherra brást ókvæða við orðum formannsins. Hann sagði að hann hlyti að vera að grínast. Það gefur enda tækifæri til slíks pólitísks spuna að segjast vilja fækka börnum – það hefur andstyggilega hljóman.

Félagsmálaráðherra klykkti út með því að mönnum hefði verið nær að standa gegn hugmyndum um að bætt væri fyrir manneklu á leikskólum með því að bæta þar við öldruðum sem hefðu ekkert betra að gera.

Með þessum orðum sínum hefur ráðherrann í raun orðað það upphátt sem lengi hefur kraumað undir yfirborðinu. Í samfélaginu eru öfl sem eru tilbúin að drepa leikskólakennarastarfið sem faglegt starf – og endurskilgreina það sem gæslu.

Það mun taka marga áratugi að bæta fyrir skaðann ef þetta sjónarmið verður ofan á.

Leikskólar eru ekki geymslur fyrir atvinnulífið. Þeir hafa ekki þann tilgang að sjá til þess að atvinnulífið hafi endalausa uppsprettu vinnuafls. Þeir eru faglegar stofnanir, skólar, sem veita eiga börnum bestu mögulegu tækifæri til að verða nýtir og hamingjusamir þjóðfélagsþegnar í fyllingu tímans. 

Þær raddir hafa heyrst að leikskólann vanti betri löggildingu. Hann sé ekki skylda og þess vegna geti sveitarfélög og samband sveitarfélaga sinnt þeim illa.

Það hljómar kannski ágætlega en er alls ekki nóg. Loforðum stjórnmálamanna er auðvitað ekki hægt að treysta og oft er lítið hald í lögum. Það var í fyrradag sem tveir fatlaðir nemendur í framhaldsskóla fengu að vita að þeir myndu fá skólavist eftir að hafa verið neitað um hana mánuðum saman – þrátt fyrir skýra lagaskyldu!

Leikskólinn er ábendingarskilgreining um það hvers vegna lög eru ekki nóg. Það eru til lög um faglegan styrk leikskóla. Það eru mjög skýr takmörk á því hve margir mega starfa á hverjum leikskóla án nauðsynlegrar þekkingar og menntunar.

Þau lög eru brotin markvisst, meðvitað og ítrekað. Nú vantar 1300 leikskólakennara til starfa svo farið sé að lögum!

Það er nefnilega svo á Íslandi að hér virðist lítið mál að setja lög og brjóta þau svo með fjárlögum eða fjárhagsáætlunum. Það má setja í lög að það eigi að vera 50 metrar á milli ljósastaura en áætla síðan í málaflokkinn nægt fé til að byggja staur með 100 metra fresti. 

 

Það hefur ekki fyrr gerst að valdamesta fólk landsins gangi fram með beinum hætti og segi að tilrauninni um faglega sterka leikskóla sé lokið. Þeir eigi að verða geymslur fyrir börn vinnuaflsins og atvinnubótavinna fyrir aldraða.

Þetta er svartur dagur – og ég trúi því varla að félagsmálaráðherra sé alvara.

Ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða strax (róttækari en þegar eru í gangi) og slegið á krumlur æðstupresta atvinnulífsins – horfum við fram á eyðileggingu fyrsta skólastigsins. Reynslan sýnir að þá fylgir það næsta á eftir.

Frá 1917 til 1945 hélt 20. öldin áfram að versna nokkuð jafnt og þétt. Upp frá því fóru hlutir að mjakast í rétta átt. Við höfum ekki tíma til að bíða svo lengi með endurreisn menntakerfisins. Þá verður ráðherrann nefnilega orðinn hálfáttræður og því líklega farinn að vinna á leikskóla með sín fjandsamlegu, steinrunnu viðhorf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni