Eiga Píratar eitthvert raunverulegt erindi?
Bernie Sanders safnaði á einum sólarhring andvirði 818 milljóna króna með því að biðja almenning um að styrkja sig til áframhaldandi kosningabaráttu. Það er stórfrétt. Hingað til hafa risaframlög til forsetaframbjóðenda fyrst og fremst komið frá innmúruðum hagsmunaaðilum. Auðvitað í trausti á það að peningunum fylgi hagsmunir í kaupbæti.
Það er að eiga sér stað gliðnun í kerfinu. Á vissan hátt er það að rætast sem Platón spáði í Ríkinu. Lýðræðisumbætur spretta upp úr umhverfi þar sem ráðandi öfl hafa ekki lengur hagsmuni af því að öllum farnist vel. Sérstaklega ef aðstæður leiða saman þá undirokuðu og hina drottnandi þar sem hinir drottnandi hafa ekki skjól af sérstöðu sinni.
Það er áhugavert að velta fyrir sér stjórnmálaaflinu Pírötum í þessu samhengi. Að mörgu leyti er mikill stuðningur við Pírata á Íslandi tilviljun. Því verður ekki neitað að fjöldi fólks lýsir ítrekað við þá stuðningi vegna óbeitar á íslenskum stjórnmálum. Þeir hafa ferskleika, þann sama og Jón Gnarr sigldi á í Ráðhúsið og Sanders og Trump reyna að komast á í Hvíta húsið.
Þegar kemur að næstu kosningum munu Píratar fá fylgi. Það verður líklega ekki mjög langt frá 20%.
Gott gengi í skoðanakönnunum hefur þó augljóslega skapað spennu. Það er ekki einhugur um erindi Pírata, t.d. það að hve miklu leyti Píratar eru tilbúnir að gera stjórnarskrárumbætur að meginmáli.
Það er mikill samtryggingarþrýstingur á Pírata þessa dagana. Eini möguleiki Samfylkingar á fjörkipp í pólitík er ef takast skyldi að þjappa Pírötum og Vg utan um stjórnarskrármálið. Verði Árni Páll ekki búinn að ganga plankann mun hann reyna að skrifa söguna þannig að alþingiskosningar sem færu fram undir slíkum gunnfána séu einmitt umboðið sem hafi skort þegar hann neyddist til að setja stjórnarskrána í kæliskáp á sínum tíma.
Um leið væri Framsókn gert erfitt fyrir. Það er tiltölulega lítið mál að gera Pírata tortryggilega þegar kemur að borgaralaunum og öðrum útópískum hugmyndum. Almenningur hefur ekki minnsta skilning á þeim heimspekilegu rökum sem eru til grundvallar borgaralaunum. Það er alltof erfitt að hugsa sér nýja tíma ofur-gervigreindar og sjálfvirkni í samfélagi sem alltaf hefur tekið strit framyfir vit. Það er mjög auðvelt að útmála hugmyndina sem aðför að velferðarkerfinu eða meðvirkni með letingjum. Og þetta er fyrir utan praktísku hliðina.
Ég held að sumir Píratar ofmeti aðdráttarafl borgaralauna. En ég held að almenningur vanmeti um leið þær áskoranir sem hugmyndin um borgaralaun er sprottin út.
Fyrir fáum árum hefði verið óhugsandi að almenningur hefði gefið frambjóðanda tæpan milljarð á einum sólarhring í keppninni um Hvíta húsið. Tæknilega hefði það verið útilokað. Og jafnvel þótt fólk hefði gefið hefði tekið óratíma að koma peningunum til skila. Að þessu leyti eru peningar til marks um gerbreytta valdastöðu í heiminum. Almenningur getur nú fnæst og hvæst húsin ofan af grísum sem byggðu þau úr seðlabúntum.
Framtíðin þeytist nær okkur með ógnarhraða. Stór hluti af „fylgi“ Pírata nú kemur þó frá kyrrsetufólki í málefnum framtíðar. Fólk vill uppræta spillingu og pólitískt ruglumbull. Þar má fókusinn samt alls ekki liggja. Að því leyti sem Píratar eru verðugt stjórnmálaafl er það vegna þess að þeir eru meðvitaðir um áskoranir framtíðar. Þeirra verkefni má ekki bara verða að moka ofan í holuna sem íslensk stjórnmál eru. Þeir eiga réttilega að spyrja sig þess hvað eigi að byggja á reitnum þegar holan er farin.
Því miður eru íslensk stjórnmál lítt uppbyggileg. Stjórnmálaumbætur snúa flestar að því að stöðva hitt og þetta – í stað þess að undirbúa breytingar. Öll gagnrýni á menntamálaráðherra lýtur t.a.m. að því hvort honum sé stætt á því að hygla vildarvinum sínum í útlöndum. Hann fær enga gagnrýni á framtíðarsýn sína – enda hefur hann enga. Hann heldur ennþá að framtíðin sé skrifuð með penna á kálfskinn. Önnur umræða er á sama plani. Á að byggja risahótel eða minjasafn um hafnargarð í borginni sem brátt verður öll komin inn á Airbnb?
Án þess að ég þekki neitt til innanbúðamála hjá Pírötum finnst mér líklegt að nú fari þeir að gera málamiðlanir. Þar má hugsa sér að horft verði til stórhækkaðs auðlindagjalds eftir stjórnarskrárbreytingar sem grundvöll frekari samfélagsbreytinga. Að öllum líkindum munu Píratar líka taka upp málstað heilbrigðiskerfisins – enda er það flakandi svöðusár á núverandi stjórnarflokkum.
Það er svo spurning hvort hægt er að fá Píratana til að sætta sig við stutt þing þegar mjög margir vilja það alls ekki. Til þess að svo megi verða er hætt við að grasrótarfyrirkomulagið verði Pírötum fjötur um fót. Mér sýnist það t.d. vera frekar illa að virka í Reykjavík. Grasrót getur orðið að gerviteppi sem kjörnir fulltrúar geta falið sig undir til að sæta ekki persónulegri ábyrgð á erfiðum málum.
Sigmundur Davíð skyldi samt fara varlega í að hæðast að Pírötum. Hann getur hæglega dagað uppi sem það nátttröll sem hann virðist vera. Framsóknarflokkurinn getur orðið pólitískur armur Útvarps Sögu. Þá er ég að meina á landsvísu – hann er löngu orðinn það í Reykjavík.
Ég lít svo á að Píratar beri með sér erindi sem skipti miklu máli. Þeir hafa meðvitund um framtíðina og meiri næmni á nútímann en flest stjórnmálaöfl. Þeir eru samt í raunverulegri hættu á að glata hvorutveggja. Dreifing valds má ekki verða samsöfnun valds í krafti stafrænnar þekkingar. Það má heldur ekki steypa hugboð um framtíðina úr steinsteypu. Auk þess ættu Píratar að ala markvisst á efasemdum sínum um einfalt meirihlutaræði. Það er hvorki endilega neitt lýðræðislegt við skoðanakannanir né atkvæðagreiðslur á fámennum sellufundum.
Þegar Píratar eru sakaðir af um að hafa ekkert erindi er það að hálfu leyti rétt. Píratar hafa vissulega engin sjókort til að leggja fram til hliðar við sjókort Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben. En það er fyrst og fremst vegna þess að þeir eru bara alls ekki á leið á sama áfangastað.
Það ku vera mýta að Píratar í Karabískahafinu hafi nokkru sinni búið til sjóræningja- eða fjársjóðskort með vandlega duldum leiðbeiningum um það hvert innvígðir gætu farið til að fylla vasa sína af illa fengnu fé. Píratar hafa ranglega verið álitnir slíkir kortagerðamenn.
Enginn þarf þó að efast um að þeir sem halda nú um valdataumana á Íslandi eru einmitt mjög sjóaðir í slíkri kortagerðalist.
Athugasemdir