Að standa upp til varnar magabolum
Ég skil ekki skólastjóra Háteigsskóla. Hreinlega átta mig ekki á tíðnilengdinni sem hann er á. Og ef það er rétt að aðstoðarskólastjórinn hans hafi í raun og veru sagt nemendum að skólinn teldi eðlilegast að neyða ósiðprúðar unglingsstúlkur í víða, svarta boli þá er einhver djúpstæð meinsemd í því hvernig stjórn skólans kemur fram við nemendur – og einhver hroðaleg skekkja í því hvað telst eðlilegt.
Raunar finnst mér aðdáunarlegt að sjá unglingana í skólanum standa upp og andæfa fráleitu hugmyndum um að barn sem beri á sér naflann geri það af kynferðislegri ögrun.
Mér finnst fallegt að sjá foreldrana standa upp til varnar börnum sínum og hlakka til þeirrar stundar þegar stjórn skólans neyðist til að biðjast afsökunar á fráleitu frumhlaupi sínu í þessu máli.
Ég er jafnframt hugsi.
Ég er hugsi yfir því samhengi sem árásin á líkamsfrelsi barnanna var sett í. Börnin áttu sumsé að klæða sig öðruvísi til að valda ekki truflunum í sálar- og skólalífi annarra barna og kennara.
Það er þetta orð truflun sem truflar mig. Og hefur gert það lengi. Umræddur skólastjóri skrifaði nefnilega einu sinni grein sem mér finnst í raun margfalt svívirðilegri en bréfið til foreldra um að gæta heiðurs dætra sinna betur.
Í pistlinum sagði skólastjórinn meðal annars um grunnskólabekk dagsins í dag: „Tveir til þrír nemendur búa við greindan athyglisbrest þannig að þeir geta ekki einbeitt sér. Finna þarf leiðir til að þeir haldi athygli sinni án þess að þeir trufli aðra.“
Eins talaði hann um að „einn nemandi“ með geðraskanir eða „atferlisvanda“ gæti tekið heilan skóla í „gíslingu“ og sett skólastjóra í þá stöðu að þurfa að sóa tíma sínum í að sinna nemandanum í stað þess að gera eitthvað gagnlegt.
Áhyggjur mínar jukust mjög þegar ég varð ekki var við að nokkur manneskja stæði upp á sínum tíma til varnar fyrir börnin sem skólastjórinn kaus að líkja við gíslatökumenn. Hann komst upp með að dæma raunveruleg börn sem hálfgerða óværu sem truflar betur gerð börn.
Mér finnst sorglegt að foreldrar og samfélagið skuli viðbúið að taka til varna fyrir réttinn til að klæðast magabol – en að setið sé hjá þegar ráðist er á börnin sjálf.
Á endanum er það léttvægt að hafa lent í smá átökum í tíunda bekk um það hvort maður megi klæðast magabol í skólanum. Það sem ekki er léttvægt er að vera neyddur til að eyða mörgum árum í skólaumhverfi sem lítur á þig sem truflun, sem aðskotahlut. Slíkur nemandi er gísl skólans – ekki öfugt.
Í þessu dæmi sýnist mér kvenfyrirlitningin ekki vera annað en liljublað á hyldjúpri tjörn mannfyrirlitningar.
Athugasemdir