Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Hjálpum, Emanuel og móður!

Hjálpum, Emanuel og móður!

Hér er hægt að skrifa undir áskorun um alþjóðlega vernd fyrir mæðgin á Íslandi

1500 voru búin að skrifa undir kl. 9. þann 9. apríl og bréf sent til Kærunefndar, Útlendingastofnunar og Dómsmálaráðuneytis. Haldið verður áfram að safna og fleiri bréf send. 

Nú situr ósýnilegt fólk á rökstólum – eða ekki - um hvort Melody Otuwho (f. 1994) og sonur hennar Emanuel Winner (3ja mánaða) fái alþjóðlega vernd á Íslandi . Melody tókst með naumindum að flýja mansal. Hún segist elska Ísland og vonast til að geta gefið syni sínum það sem hún fékk ekki, t.d. að ganga í skóla.

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda hana aftur til Ítalíu, þar sem hún var atvinnu- og heimilislaus flóttamaður frá Nígeríu, var kærð til kærunefndar útlendingamála af Rauða Krossi Íslands fyrir hönd Melody Otuwho, meða annars vegna þess að barninu er stefnt í hættu. Einhver hjá Útlendingastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að barnið sé ekki í hættu á Ítalíu, í aðstæðum sem móðirin hefur flúið undan í ofboði til að lenda ekki á götunni.

Þetta barn og móðir þess þurfa nauðsynlega á alþjóðlegri vernd á Íslandi að halda, þetta vita allir þrátt fyrir tilurð túlkunar á reglugerð sem kveður á um að ekki skuli taka mál sem þessi til efnislegrar meðferðar heldur senda viðkomandi bara burt.

Emanuel fæddist í desember 2017 á Landspítalanum. Hann er hérna núna og samkvæmt öllum hjálpar- og mannúðarforsendum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á hann að vera hérna áfram. (Jafnvel ný skýrsla Barnahjálpar SÞ sýnir að það vanti töluvert upp á að börn sem koma hingað til lands sem hælisleitendur njóti þeirra réttinda sem þau eiga tilkall til samkvæmt lögum). Emanuel hefur allan réttinn sín megin og fullan rétt á að hafa móður sína hjá sér. Það er barnið sem er meginviðmiðið.

Spurningin er: Hvað er best fyrir barnið?

Er svarið ekki skýrt og greinilegt?

Það dugar ekki að setja sig í dómarasæti gagnvart móður barnsins þegar verkefnið er að rétta hvítvoðungi hjálparhönd. Það dugar ekki að segja við manneskju, hvort sem hún er frá Nígeríu eða öðru landi og sem lagði af stað frá Ítalíu til Íslands: „Tak barn þitt og farðu burt!“. Það er einfaldlega rangt sjónarhorn því barnið er í fókus og á að vera mælikvarði allra þýðingarmikilla ákvarðana. Ekki neitt annað. 

Þetta (ósýnilega) fólk sem í dag heiðrar minningu dr. Marteins Luther King Jr. sem var myrtur 4. apríl 1968 eftir afburðaframmistöðu í mannréttindabaráttu hefur greinilega gleymt orðum hans um það sjálft. Það segist vera sammála honum um réttlæti en það er alltaf hængur á hverju máli og því er hörð túlkun á „reglu“ tekin fram fyrir mannúðina. MLK sagði:

„Hvítir hófsamir menn segja linnulaust: Ég er sammála þér í þeim markmiðum sem þú sækist eftir en ég get ekki verið sammála þér í þeim aðferðum sem þú beitir. Hvíti hófsami maðurinn sem hefur meiri áhyggjur af reglum en réttlæti.“

Þetta fólk hikar, bíður, dregur úr, kemur í veg fyrir og sendir svo Emanuel Winner til Ítalíu. Jafnvel þótt hann hafi aldrei komið þangað áður, jafnvel þótt hann hafi ekki komið þaðan, jafnvel þótt hann hafi aldrei átt heima neins staðar nema hér á Íslandi.

Velkominn heim, Emanuel Winner!

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.“ (1. gr. barnalaga)

Hér er hægt að skrifa undir áskorun um alþjóðlega vernd fyrir mæðgin á Íslandi

Mynd tekin af öðru tilefni en sama merking, því réttindi barna eru ekki háð duttlungum. Börn eiga ávallt að njóta vafans. Ljósmynd af  Melody Otuwhoer skjáskot úr fréttum RÚV 1. apríl 2018.

Tenglar:

Sjónvarpsfrétt á RÚV

Vísað úr landi með þriggja mánaða barn

Ný reglugerð hefur áhrif á mál mæðginanna

Fyrst og fremst barn

Martin Luther King af öllu hjarta

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni