Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

ÖgurStund tjáningarfrelsis

Tjáningarfrelsi má greina í þrjá þætti: málfrelsi, skoðanafrelsi og upplýsingafrelsi – án afskipta yfirvalda. Skömmu fyrir hrun þurfti stundum hugrekki til að tjá sig opinberlega um ýmis hagsmunamál þjóðarinnar. Er sá tími runninn upp aftur?

Fólk nýtir frelsið til að tjá sig, gagnrýna heimsku, spillingu og ofbeldi og til að mótmæla ósanngjarni hegðun. En það eru alltaf einhverjir sem vilja setja öðrum of þröngar skorður. Í hverju landi og á hverjum tíma er iðulega til hópur sem berst ekki fyrir tjáningarfrelsi borgarana. Slíkir hópar mega ekki öðlast völd eða hver vill búa í samfélagi kvíða og angistar.

Samfélag þar sem borgarar þora ekki að tala eða taka þátt í rökræðum og samræðu af ótta við afleiðingarnar er ekki í góðum málum. Frelsi er eitt af þjóðgildunum. Þjóðfundurinn 2009 valdi frelsi og þjóðfundurinn 2010 valdi einnig frelsi. Hvers vegna?

Vegna þess að þjóðin fann fyrir skorti á frelsi andans og frelsi fjölmiðla til tjáningar.

Innra ófrelsi

Málfrelsi, ritfrelsi, talfrelsi, tjáningarfrelsi – hvers vegna ætti einhver að beita sig innri ritskoðun óttans, í stað þess að vera fyrirmyndarborgari sem tjáir sig og vill styrkja rétt sinn og annarra  til að segja skoðun sína og taka þátt í umræðunni?

Innra ófrelsi felst í því að skapa sjálfum sér eða taka í arf ótta og hugleysi til að stíga skrefin. Sá sem býr við andlegt ófrelsi lýtur eigin þvingunum og stjórnsömu fólki. Hann nemur innri rödd og löngun, veit hvað hann vill, en skortir kraft og sjálfstraust til að fylgja því eftir. Frelsið er fyrir hendi en hann nýtir það ekki til fulls.

Hrædd á nýjan leik?

Hættum að þræta um útmörk mögulegs frelsis og hefjumst handa við að velja leiðir til að bæta aðstæður, líðan, menntun og valfrelsi annarra. Frelsi spinnst af mörkum. Þau mörk snúast um kúgun og ofbeldi gegn manninum og anda hans. Frelsið sjálft felst í því að skapa heim sem fer ekki yfir mörk ofbeldis. Frelsi klæðir heiðarlegar manneskjur vel en óheiðarlegar illa.

Frelsi án hugrekkis er gagnslaust. Spurningin um þessar mundir, eftir lögbann á umfjöllun Stundarinnar 16. október, er hvort aftur sé að renna upp sá tími þar sem fréttafólk og almenningur hikar við að tjá sig um mikilvæg málefni þjóðarinnar, um spillingu og mörk stjórnmála og viðskipta?

Ótrygg er ögurstundin. Stundin í dag ... hver verður það á morgun?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni