Lærdómar um harðstjórn og lýðræði
Um harðstjórn – tuttugu lærdómar sem draga má af tuttugustu öldinni eftir Timothy Snyder prófessor í sagnfræði við Yale-háskóla er verulega merkileg bók um efni sem nauðsynlegt er að kunna skil á. Hver eru einkenni harðstjóra? Hvernig geta borgararnir komið í veg fyrir að harðstjórar taki völdin enn á ný? Hvernig eru stofnanir eyðilagðar? Hvað tekur langan tíma að rústa lýðræðisríki?
Bókin minnir okkur á að órannsakað líf er einskis virði eins og Sókrates fullyrti forðum. Ekki láta aðra hugsa fyrir ykkur og stjórna lífi ykkar. Ekki hlýða í blindni.
Hlustið ekki á óvildarmenn sem vilja leggja stofnanir niður sem eiga að þjóna almenningi. Ekki láta valdafólk grafa undan trausti á embættismönnum með því að gera þá tortryggilega.
Ásýnd samfélagsins er ekki aðeins á ábyrgð annarra heldur einnig okkar sjálfra. Hafnið ævinlega vopnum og temið ykkur yfirvegun. Ekki láta sefjun stjórna lífinu, skerið ykkur úr ef með þarf í stað þess að þegja yfir óréttlætinu.
Látið ekki telja ykkur trú um að sannleikurinn sé ákvörðunarefni og sé háður aðstæðum. Á tímum bullsins er nauðsynlegt að kunna að gera greinarmun á réttu og röngu, góðu og vondu og sannleika og lygi.
Talið um hlutina, ekki lesa skipulagslaust fréttir, horfist í augu og skiptist á skoðunum. Ekki þykjast vita svarið áður en umræðan hefst, njótið þess að rannsaka málið sjálf. Forðist hægindastólinn, farið á vettvang, í kröfugöngur, mótmæli, verið sýnileg og takið þátt. Talið við ókunnuga og takið þátt í félagasamtökum, styðjið góðgerðarsamtök, styrkið siðað samfélag og kennið öðrum að láta líka gott af sér leiða.
Eyðið öllum njósnaforritum í tölvunum og símunum með reglulegu millibili, munið að tölvupóstar geta verið misnotaðir af öðrum. Talið bara meira saman. Temið ykkur að reiðast yfir óréttlæti og hafnið öfgastefnum umsvifalaust. Veitið ekki undanþágu frá mannúð. Látið enga harðstjórn takmarka tjáningarfrelsi ykkar eða breyta réttarkerfinu.
Elskið land ykkar og þjóð en látið ekki hvarfla að ykkur að ein þjóð geti verið framar annarri eða einn hópur öðrum fremri. Safnið vinaþjóðum, ekki óvinum. Gerið eitthvað fyrir aðra og verið hugrökk.
Bókin Um harðstjórn hvetur lesandann til að kynna sér mannkynssöguna til að geta betur lagt lýðræðinu lið í nútímanum. Snyder sýnir með dæmum að komist harðstjórar til valda muni þeir nota fyrsta tækifæri til að eyðileggja lýðræðið, t.d. með því að lýsa yfir neyðarástandi gagnvart ógn og leggja svo niður þær stofnanir sem þjóna almenningi. Þetta þarf ekki að taka langan tíma.
Vakið hugrökk á verðinum!
Vertu öflugur borgari
Bókin er áskorun um að vera öflugur borgari! Í bókinni Hugskot stendur: "Öflug borgaravitund er forsenda fyrir því að vera fullgildur einstaklingur í samfélagi. Það er ekki nóg að vera góður og gegn þegn. Hugrekki er höfuðdyggð í lýðræðisríki. Auðsveipni og hlýðni eru einungis dyggðir í augum einræðisherra. Heilbrigt ríki býður fram kröftuga menntun sem eflir gagnrýna hugsun, efa og von um réttlátt samfélag."
Athugasemdir