Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Jafnrétti er þjóðgildi ársins 2017

Vinsælt er að gera lista undir lok hvers ár yfir hvaðeina sem tilheyrir árinu, velja karl og konu ársins, viðskipti ársins,  tæki ársins … en það er einnig vit í að velja þjóðgildi ársins. Árið 2015 má segja að það hafi verið jafnrétti en einmitt þá var 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi og  öflugar kvennabyltingar spruttu fram. Vitundarvakning í jafnréttisbaráttu einkenndi árið, meðal annars var unnið af krafti gegn hrelliklámi undir yfirskriftinni #freethenipple og kynferðislegu ofbeldi, #konurtala, #þöggun. Árið varð því ekki aðeins afmælisár heldur upphaf byltingar til að afhjúpa, breyta og draga úr misrétti.

Borgaravitund árið 2016

Íslenskir borgarar voru kraftmiklir í mótmælum gegn fjármálaspillingu á árinu 2016, Verkefnið var að vera öflugur borgari, að skilja mátt sinn í samfélaginu og samábyrgð. Ef okkur grunar að yfirvöld séu hætt að gæta að almannahagsmunum og um það bil að spillast af lúmskum tilboðum hagsmunaaðila – og við mótmælum ekki – þá höfum við brugðist sem borgarar. Borgaravitund var því þjóðgildið 2016.

Jafnrétti árið 2017

Enginn efi er að þjóðgildið jafnrétti einkenndi árið 2017 eins og árið 2015. Hugtakið er nefnilega víðfeðmt, býr yfir mörgum víddum og kröftum. Árið 2017 birtist öflug femínísk barátta gegn kúgun, ofbeldi og þöggun m.a. undir merkjunum #höfumhátt og #MeToo.

Fólk lærði að greina kúgunartilburði, hinar ólíku tegundir ofbeldis og öðlaðist þor til að segja frá og mótmæla af krafti.

Staðalímyndir um kynin voru afhjúpaðar, fordómar skoraðir á hólm og þolinmæði gagnvart kennivaldi brast og feðraveldið stóð afhjúpað  á brókinni.

 "Hugtakið feðraveldi þýðir félagslegt kerfi þar sem konur eru undirskipaðar og karlar gera ráð fyrir yfirráðum sínum. Kerfið hyglar körlum, veitir þeim hærri stöður og laun. Þetta er kerfi kúgunar sem kemur í veg fyrir jafnrétti kynjanna. Feðraveldið er hugtak yfir margháttaða kúgun kvenna og fleiri hópum sem falla ekki að ríkjandi viðmiðunum karlsins." (Hugskot, 106).

Markmiðið með jafnréttisbaráttu kynjanna almennt er að skapa jafnvægi milli kvenlægra og karllægra sjónarmiða og koma með því í veg fyrir yfir- og undirskipun, drottnun og kúgun. Í ljósi réttlætis og lýðræðis er langsamlega best að borgararnir leggi stund á samráð kynjanna og komi sér saman um valdajafnvægi.

 

Teikning eftir Sirrý Margréti en í bókinni Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni eftir Friðbjörgu Ingimarsdóttur og Gunnar Hersvein (IÐNÚ, 2016) sem m.a. fjallar um staðaímyndir, fordóma og jafnréttismál. https://www.idnu.is/vara/hugskot-skamm-fram-og-vidsyni/

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni