Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Helvíti og himnaríki á jörðu eða ekki

Helvíti og himnaríki á jörðu eða ekki

Orð eru misþung, flestöll hafa þau merkingu en túlkun þeirra getur valdið ágreiningi. Orðið og hugtakið hálendi Íslands veldur ekki usla þótt inntakið sé óljóst fyrir sumum og fólk geti verið ósammála um umgengni við þetta svæði. En hugtök eins og helvíti og himnaríki geta valdið alvarlegum ágreiningi jafnvel þótt þetta eigi einnig að vera staðir. Hugtakið hálendi tilheyrir reyndar meðal annars náttúru- og landfræði en hugtökin himnaríki og helvíti tilheyra trúarbrögðum, bókmenntum og jafnvel uppeldi í merkingunni refsing og umbun. Samanburðurinn er því kannski ekki alveg sanngjarn. En þrátt fyrir það þá felst verkefnið í greiningu og túlkun á þeim - í tilefni dagsins.

Helvíti á jörðu

Orðasambandið helvíti á jörðu á rætur að rekja til speki Salómóns (apókrýfískt rit).

En helvíti er ekki bókstaflega á jörðinni. Það er annars staðar, allsstaðar, hvergi eða á öðrum plánetum. Markmiðið siðmenningarinnar er ævinlega að koma í veg fyrir að þetta helvíti á jörðu myndist, t.d. með alþjóðalögum, Sameinuðu þjóðunum og hvers konar sáttmálum.

En því miður eru alltaf einhverjir sem hafa áhuga á að skapa það. Það er vandinn.

Allt gott er skapað fyrir lífsgleðina,

ekkert fyrir helvíti, ekki neitt.

Enginn vill gangast við því að standa vörð um helvíti á jörðu. Það er öruggt en þó er mikilvægt að kunna að bera kennsl á óvildina sem vill öðlast völd og getur ekki sleppt þeim.

Allt skapað er heilnæmt. Það er góður mælikvarði.

Helvíti er aðeins til í huga og hönd misgjörðamannsins, þar skapast það og breiðist út til annarra. 

Helvíti er óbærilegt ástand sem verður ávallt skilyrðislaust að líða undir lok, hvað sem á dynur. Höldum grið og frið.

Himnaríki á jörðu

Orðasambandið himnaríki á jörðu er andstæða sambandsins helvíti á jörðu því

allt skapað er heilnæmt.

Himnaríki á jörðu er heilnæmt ástand, það er ekki eitthvað sem birtist eftir dauðann, heldur tilheyrir það lífinu sjálfu.

Enginn lifir dauðann af. Það er ekki ný eða dapurleg frétt. Aðeins bláköld staðreynd.

Himnaríki (einnig oft nefnt Paradís) er ekki annars staðar, alls staðar, hvergi eða á öðrum plánetum.

Ef það er á annað borð til þá mætti himnaríki vera lífið á jörðinni – það er auðvelt ef við viljum.

Himnaríki er ekki á himnum!

Gerum heiminn að einum stað.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni