Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Góðvild á tímum sjálfselskunnar

Góðvild á tímum sjálfselskunnar

Góðvild hefur oft verið útilokuð og flokkuð með draumórum. Það hefur verið hlegið að henni og hún hefur átt undir högg að sækja. Hún gengur undir mörgum nöfnum og er nefnd í ýmiskonar spekibókum og trúarritum í gegnum aldirnar. Það virðist þó ekki nægja því of fáir treysta á kraft hennar.

Mannkynið hefur efast um einn sinn allra mesta kost.

Í öndverðu kom góðvildin fram og breytti hjartalagi fólks. Veröldin var hættuleg, hranaleg og sennilega leiðinleg. Það skapaðist jarðvegur fyrir annað og meira. Fólk lærði með því að gera tilraunir, það lærði að besta leiðin til að lifa af og draga úr óttanum væri með því að hjálpast að. Það var ágætt að hver fjölskylda hjálpaði sjálfri sér en undrið gerðist ekki fyrr en ókunnugir og óskyldir hjálpuðu hver öðrum. Þar birtist góðvildin og sú tilfinning að finna til með öðrum og hæfileikinn að geta sett sig í spor annarra. Fólk lærði líka að ímynda sér hvernig því myndi líða ef það væri í aðstæðum og hlutverki annarra og það hugsaði:

Hvað get ég gert til að öðrum líði betur?

Þessi spurning, hugsun og löngun breytti öllu. Góðvild er umhyggja fyrir ókunnugum, hún er mannleg meginregla, miðjan í allri mannúð. Hún hefur verið kölluð ýmsum nöfnum á mörgum tungumálum eftir menningu, trúarbrögðum og lífsskoðunum: charity, agape, karuna, compassion og kindness.

Góðvild er helsta uppspretta gleðinnar í mannheimum.

Of margir hafa efast um góðvild og valið fremur að trúa á sjálfselsku. Það er auðvelt að efast um eigin góðvild og annarra, því hún er hrokalaus. Sjálfselskan er lævís og fólk á valdi hennar hugsar: „Kannski elska ég ekki aðra, kannski hjálpa ég öðrum bara til að mér liði betur, kannski er allt sem ég geri sjálfselska.“

Enginn verður hamingjusamur með því að hugsa einungis um sjálfan sig – heldur með því að gefa af sjálfum sér, gefa öðrum og sýna þeim góðvild.

Allir eiga vissulega að elska sjálfan sig og hafa metnað til að verða hæfileikarík manneskja. Það er nauðsynlegt en það er ekki sjálfselskan sem gerir fólk hamingjusamt heldur góðvildin.

Græðgi og eigingirni vekja kvíða en að gefa öðrum er tilraun til að skapa mannkyn þar sem fólk elskar hvert annað. Græðgi er ekki dygð sigurvegarans því sá sem verður of gráðugur fer út yfir öll mörk, traðkar á öðrum og eignast óvini.

Góðvild er nátengd farsælu lífi. Hún er dygð alls mannkyns og hamingjan er falin í þeirri athöfn að sýna öðrum góðvild. Það er lofsvert að gera eitthvað fyrir aðra og það er gefandi því fólk er þakklátt og það byggir upp hamingju.

Hamingjan felst í góðum og uppbyggilegum samskiptum við annað fólk.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni