Eftir hlé frá störfum (eða hvernig Sigmundur Davíð vill láta okkur gleyma)
Það hefur verið ansi vandræðalegt að fylgjast með tilraunum Sigmundar -,,Íslandi allt“ Davíðs til þess að koma í veg fyrir að kosið verði í haust. En á sama tíma mjög áhugavert, þ.e. að fylgjast með honum reyna að gera eins lítið úr mestu mótmælum lýðveldissögunnar og búa til nýja ,,sannleika“ í sambandi við framferði hans í og eftir Wintris-málið.
Sigmundur Davíð sagði þjóðinni ósatt, hann reyndi síðan hvað hann gat til þess að breiða yfir þá staðreynd með allskyns skrifum á netinu. Sterkt þema í þeim málflutningi var (og er) að þetta sé allt eitt samsæri gegn Sigmundi.
Hann hrökklaðist úr embætti í kjölfar gríðarlegra mótmæla, sem eiga ekki sinn líka í sögu landsins. Um þetta segir Morgunblaðið í leiðara þann 28.7 (fyrirsögn: Einstök aðför):
Hlé frá störfum
,,Sigmundur Davíð tók sér hlé frá störfum í ríkisstjórn til að fá tóm til að fara yfir mál sem Ríkisútvarpið hafði þyrlað upp og svo að endurskoðendur og skattyfirvöld gætu upplýst hvort eitthvað væri óuppgert þar. Því er lokið. Ekkert er óuppgert. Fræ efans, sem Ríkisútvarpið sáði, ættu því ekki að skjóta rótum.“ (Leturbreyting, GHÁ).
Þetta er einmitt gott dæmi um tilraun til þess að búa til nýjan sannleika. Að láta hina skammarlegu afsögn Sigmundar Davíðs líta út eins og það sé bara ,,hlé frá störfum“! Þetta er bara hlægilegt. En einmitt þetta fyrirbæri hefur orðið æ algengara í íslenskum stjórnmálum,þ.e. spunar, hálf-sannleikar og nýir ,,sannleikar“.
Einnig er áhugavert að skoða ummæli Sigmundar Davíðs sjálfs um þá staðreynd að þegar hann hafði hrökklast úr embætti, þá stóð eftirmaður hans og varaformaður, Sigurður Ingi ásamt Bjarna Benediktssyni í tröppum Alþingis og lofuðu kosningum í haust. Hinsvegar segir Sigmundur Davíð um þetta í frétt á visir.is: ,, „Einhverra hluta vegna hefur hluti samstarfsmanna okkar í Sjálfstæðisflokknum verið áhugasamur um að flýta alþingiskosningum.”
Einhverra hluta vegna...
Orðalagið ,,einhverra hluta vegna“ er einkar áhugavert. Hér er verið að minnka hlutina, smækka þá, reyna að láta líta út fyrir að ástæðan fyrir hinum lofuðu kosningunum sé allt önnur en hún raunverulega er: Framkoma og lygar Sigmundar beint í andlitið á íslensku þjóðinni. En mótmælin snerust ekki bara um lygar, heldur líka tvöfeldni (dásama krónuna, en vera með peninga í skattaskjólum, þ.e þáverandi kærasta, nú eiginkonan, Anna), að vera að berjast gegn kröfuhöfum bankanna á sama tíma og kærastan og hann (sem eigendur að aflandsfélaginu Wintris lýstu kröfum í þrotabúin og keyptu kröfur í þau. Væntanlega var það gert til þess að græða á því eða að ná glötuðum peningum til baka. Margir sem töpuðu hinsvegar á falli bankanna hafa hinsvegar ekki verið í aðstöðu til þess að ná sínum peningum til baka og töpuðu miklum eða jafnvel öllum eignum sínum.
Það er þessi siðferðisbrestur, hræsni og tvöfeldni sem gerði fólk svo reitt. En Sigmundur Davíð virðist ekki skilja það. Nú er allt afgreitt sem ,,,einhverra hluta vegna“, allt skal fyrirgefið og þjóðin á að gefa Sigmundi séns að klára kjörtímabilið og verkefnin sem endalaust er tuðað um. Bara draga strik yfir þetta, eins og ekkert hafi gerst, eins og Sigmundur hafi bara tekið sér ,,hlé frá störfum“!
I‘ll be back...
Skilaboðin eru þessi: Þetta vara bara svona minniháttar dæmi, ekkert glæpsamlegt var gert og þessvegna á Sigmundur að fá séns til að snúa til baka og gefa ,,Íslandi allt“. Svona rétt eins og Arnold Schwarzenegger sagði og gerði í Terminator: ,,I‘ll be back“!
Sigmundur framdi ekki glæp í Wintris-málinu, það er ekki glæpur að segja ósatt, nema þú sért eiðsvarinn fyrir dómstól. En það er rangt. Og stjórnmálamenn sem ljúga verða að segja af sér, það er bara þannig. Þetta er ekkert flókið, eins og sumir myndu segja.
Sigmundur hegðaði sér í hrópandi andstöðu við sínar eigin yfirlýsingar, dansaði ásamt kærustunni á gráa svæði laganna, sagði A en gerði B. Og það varð honum að falli.
Fyrirgefning syndanna?
En kannski eigum við bara að vera góða og gera eins og Jesús myndir gera; fyrirgefa og sýna Sigmundi kærleika, gefa honum annan séns? Kannski höfum við, lýðurinn, bara misskilið allt saman, kannski var þetta bara hluti af einhverju stærra plani, sem við náum ekki að fatta, bara Sigmundur.
Vandamálið er bara að það er ákveðinn ,,pólitískur ómöguleiki“ við fyrirgefninguna. Miklar kröfur eru gerðar til kjörinna fulltrúa og það á að gera háar kröfur. Eitt alvarlegasta vandamálið sem íslensk stjórnmál glíma við er skortur á trausti. Og traustið eykst ekki ef menn komast upp með hvað sem er og leyfa sér allt. Það opnar fyrir upplausn og stjórnleysi. Þess vegna er fyrirgefning ekki möguleg. Svo einfalt er það.
Athugasemdir