ALDARFJÓRÐUNGUR FRÁ ENDALOKUM SOVÉTRÍKJANNA
Um þessar mundir eru liðin 25 ár, aldarfjórðungur, frá því að Sovétríkin liðu undir lok og á annan dag jóla (að okkar tímatali) árið 1991 var sovéski fáninn dreginn niður í Kreml, í síðasta sinn.
Sumir segja að þar með hafi kommúnisminn, ein áhrifamesta hugmyndafræði stjórnmálanna, lent á ruslahaugi sögunnar. Og muni aldrei koma aftur.
En hvað voru Sovétríkin og hverskonar samfélag buðu þau upp á?
Um var að ræða ríkjasamband, sem formlega var stofnað þann 30.desember árið 1922, í byrjun af fjórum lýðveldum, en síðar urðu þau 15, með Eystrasaltsríkjunum meðtöldum (innlimuð af Stalín).
VALDARÁN - BYLTING
Þá var þetta unga ríki í raun að komast út úr grimmilegri borgarastyrjöld, en í október árið 1917 höfðu Bolsjévíkar, með Vladimírs Lenín í fararbroddi náð að hrifsa til sín völdin í því sem kallað hefur verið ,,Októberbyltingin.“ Andstæðingar þeirra gerðu hinsvegar kröftuga tilraun til þess að ná völdum aftur og er almennt talað um að borgarastríð fylkinganna hafi geisað á árunum 1918-1920 í Rússlandi.
Eftir dauða Leníns úr heilablóðfalli (fékk reyndar nokkur slög), árið 1924, tók Jósef Stalín við stjórnartaumum Sovétríkjanna og hélt þeim til dauðadags árið 1953. Undir hans stjórn urðu Sovétríkin eitt mesta ógnarríki heims, en hann stóð einnig fyrir gríðarlegum umbótum og framförum í þessu landi, sem um aldamótin 1900 var bæði gríðarlega fátækt og vanþróað. En í jörðu þess leyndust gríðarlegar auðlindir.
SKAPHUNDURINN KRÚSTSJOV
Skrautlegi Úkraínumaðurinn Nikíta Krústsjov, tók við af Stalín og var við völd í rúman áratug, en var sviptur völdum af Leoníd Brésnev-klíkunni, sem sakaði hann meðal annars um stórfengleg mistök á sviði efnahagsmála. En undir stjórn Krúststjovs fór til dæmis fyrsti maðurinn út í geiminn, Júrí Gagarín og hann gekk á hólm við Stalínismann og persónudýrkunina á Jósef Stalín í frægri leyniræðu árið 1956.
Tímabil Brésnevs hefur verið kennt við efnahagslega stöðnun í Sovétríkjunum og þegar hann lést árið 1982 má segja að ,,elliræði“ hafi ríkt í Sovétríkjunum, risaveldinu var stýrt af gömlum flokksjálkum. Í kjölfarið á Brésnev komu tveir leiðtogar, sem hrukku uppaf hver á fætur öðrum; Konstantín Chernenko og Yuri Andropov, en sá síðarnefndi var fyrrum yfirmaður leyniþjónustu Sovétríkjanna, KGB.
,,UNGLINGURINN“ KEMUR OG FER
Það kom því í hlut hins unga Mikaíls Gorbatsjov að reyna að blása lífi í staðnað heimsveldi, sem var í raun efnahagslega og hugmyndafræðilega gjaldþrota. Hann var aðeins 54 ára þegar hann tók við árið 1985, en ferill hans stóð aðeins sex ár, þar sem Sovétríkin voru öll í desember 1991. Honum mistókst ætlunarverk sitt, því það er ekki hægt að viðhalda alræðiskerfi, en leyfa samt frelsi hugmynda. Þetta tvennt eru ósamrýmanlegar andstæður.
En hversvegna hrundu Sovétríkin – þetta mikla risaveldi sem á sínum tíma stóð Bandaríkjunum og Vestrinu á sporði? Fyrir því eru ýmsar ástæður, sem ég til dæmis rek hér í svari á Vísindavefnum. En segja má að þær séu bæði efnahagslegar og pólitískar. Efnahagskerfi Sovétríkjanna var að sjálfsögðu ríkisrekið samkvæmt marxísku hugmyndakerfi og þar var stundaður áætlunarbúskapur. Ekkert frelsi og einstaklingsframtak var leyft og þar af leiðandi engin samkeppni á markaði. Ytri aðstæður, fall Berlínarmúrsins og þróun í alþjóðamálum spilaði einnig sterkt inn í þetta.
HEIMSVELDI PÚTÍNS?
En hvað skildu Sovétríkin eftir sig? Jú, þau voru risaveldi á sviði lista, menningar og vísinda, en það var fyrst og fremst á efnahagssviðinu og því pólitíska sem allt brást. Og þá má ekki gleyma því að mannréttindi voru fótum troðin í Sovétinu, menn voru teknir af lífi, sendir í gúlag (þrælkunar og vinnubúðir) og eða lagðir inn á geðsjúkrahús sem stjórnarandstæðingar.
Það Rússland sem síðan kom út úr öskustónni er nú það Rússland sem Vladimír Pútín (einnig úr KGB) vinnur markvisst að því að gera að heimsveldi að nýju. Hann tók við árið 2000 af Boris Jeltsín, fyrsta forseta hins nýja Rússlands, sem einnig var skrautlegur leiðtogi, drakk eins og svín og kleip konur við opinber tækifæri, ef svo bar undir.
En Pútín sagði sjálfur á sínum tíma að hrun Sovétríkjanna hefði verið stórslys. Þjóðernisstefna hans og einbeittur vilji til þess að reyna að endurvekja hina fornu frægð Sovétríkjanna, en nú sem Rússlands, hafa valdið og munu áfram valda spennu í alþjóðakerfinu og virðist Pútín harðákveðinn í að endurreisa stolt Rússlands og Rússa með margvíslegum aðferðum; allt frá innlimun landssvæða til tölvuhakks.
Athugasemdir