Umbótasinnar: Undirbúum okkur fyrir langa krísu
Við erum stödd í miðjum heimsfaraldri af völdum veiru sem hefur þegar kostað miklar hörmungar í nokkrum heimsálfum, og ekki er öllu lokið enn. Líklegt er að faraldurinn muni geisa í nokkra mánuði enn – að lágmarki, sennilega lengur.
En eins og flestir hafa áttað sig á hefur faraldurinn ekki eingöngu áhrif á heilsu fólks, því hann hefur þegar haft mikil áhrif á hagkerfi heimsins, og er næsta víst að áhrifin munu verða mikil um óákveðinn tíma.
Áhrifin eru nú þegar orðin það mikil á Íslandi að ljóst er að um mikla krísu er að ræða – þrengingar sem mun taka langan tíma að vinna okkur úr. Nú þegar hefur atvinnuleysi aukist á Íslandi, krónan veikst, og næsta víst er að fjöldagjaldþrot eru framundan. Ólíklegt er að úr þessu leysist hratt hér á Íslandi, þar sem hagkerfið hér hefur verið mjög háð ferðamönnum, sem nú eru tæplega væntanlegir aftur í stórum skömmtum, sérstaklega þar sem faraldrinum er enganveginn lokið, og ólíklegt að fólk fari að ferðast fljótt eftir að faraldrinum fer að slota – sökum efnahagsástandsins í heimalöndum þeirra sem myndu annars ferðast, sem og vegna félagslegra þátta. Þetta eru dæmi um hin keðjuverkandi áhrif á efnahagskerfið, sem kemur til bæði vegna veikinda fólks og sóttvarna.
Og hætt er við að efnahagsáhrifin af heimsfaraldrinum verði langvarandi, einmitt vegna þess að erfitt er að bæta úr slíkri keðjuverkun; viðskiptatengsl munu tapast, auður mun færast til og tapast. Faraldurinn er og verður hnattrænn, sem og efnahagslegu áhrifin. Það flækir ástandið.
En öllum þrengingum fylgja breytingar, það sýnir sagan. Þessi krísa gæti orðið löng, sem fyrr segir, og þeim mun meiri ástæða til að huga að stjórnmálalegum áhrifum hennar. Það er nefnilega ekkert sjálfsagt við að stjórnmálalegu breytingarnar verði jákvæðar, ekki heldur á Íslandi. Til að auka líkurnar á að eitthvað jákvætt komi út úr krísunni er nauðsynlegt að huga að gildum og hugmyndum – hvers konar samfélagi viljum við búa í?
Krísur og breytingar
Áður en lengra er haldið er kannski rétt að velta fyrir sér hvernig krísur og breytingar haldast í hendur. Er það raunverulega þannig að eftir krísur breytast samfélög? Svarið er: Bæði og. Það er þess virði að skoða nokkur dæmi um breytingar á samfélögum eftir krísu.
Eftir kreppuna miklu á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar komu flest vestræn ríki sér upp velferðarkerfi af einhverju tagi, enda höfðu flestir þá séð afleiðingarnar af víðtæku atvinnuleysi: Örbirgð og erfiðleika. Það var líka eftir kreppuna miklu sem margir áttuðu sig á því að kreppan magnaðist upp sökum þess að almenningur án atvinnu hefur engar ráðstöfunartekjur, sem gerði það að verkum að enn minna var keypt, sem olli enn víðtækara atvinnuleysi. Eins manns neysla og útgjöld eru nefnilega sala og tekjur annars – í ákaflega einfaldaðri mynd, og svo virðist sem þessi lærdómur fylgi okkur enn: Strax og ljóst var að margir myndu missa atvinnuna, vegna núverandi krísu, að öllu óbreyttu, jafnvel þótt atvinnugreinin sem fólkið vann við ætti framtíðina fyrir sér, var brugðist við með hlutabótum og fleiru til, allt í því augnamiði að fólk héldi tekjum og til að sjá til þess að fólk gæti snúið til vinnu, hraðar en annars hefði orðið raunin með uppsögnum. Þessi ráðstöfun mun draga úr glundroða og fjárhagslegum erfiðleikum margra.
Eftir seinni heimsstyrjöldina var komið upp mjög yfirgripsmiklu heilbrigðiskerfi í Bretlandi, National Health Service, yfirleitt einfaldlega kallað NHS. Til staðar var fyrir mjög brotakennt heilbrigðiskerfi sem margir höfðu engan aðgang að. Í þá sjö áratugi sem NHS hefur starfað, hafa milljónatugir – ef ekki hundruð milljóna – einstaklinga notið aðstoðar þessa heilbrigðiskerfis. Kerfið er fjármagnað af skattfé, og er lykilatriðið að það sé gjaldfrjálst fyrir notendurna. Þetta kerfi hefur breytt bresku samfélagi svo um munar, með mun jafnara og betra aðgengi að heilbrigðiskerfi fyrir alla.
Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar var svo beinlínis búin til stofnun sem átti að koma í veg fyrir styrjaldir, auka samvinnu milli ríkja og liðka fyrir milliríkjasamskiptum, jafnvel vera sáttasemjari. Þessi stofnun er Sameinuðu þjóðirnar, sem líklega hefur náð að koma í veg fyrir mörg átök í gegnum árin – en þó alls ekki öll, því miður. Sameinuðu þjóðirnar hafa nú kallað eftir vopnahléi um allan heim, og hafa allnokkur ríki fallist á það (en ekki öll!). Rétt er að nefna að Sameinuðu þjóðirnar hafa gegnt mikilvægu hlutverki því að reyna að hemja loftslagsbreytingar, m.a. með stofnun Alþjóða loftslagsráðsins (e. IPCC), og hafa haft forystu um að standa vörð um mannréttindi í heiminum. Þá gegnir ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, mikilvægu hlutverki í viðbrögðum við heimsfaraldrinum sem nú geisar. Sameinuðu þjóðirnar eru langt í frá gallalaus stofnun, en gagnleg engu að síður.
Seinni heimsstyrjöldin og kreppan mikla voru vissulega mjög stórir viðburðir sem settu mark sitt á heiminn. Þessi krísa sem núna er í gangi – bæði sú heilsufarslega og sú efnahagslega – getur hæglega haft mjög mikil áhrif til langs tíma. Krísan ætti að geta orðið til að stuðla að miklum breytingum, hvort sem er í efnahagslífinu eða á alþjóðlegum stofnunum. Dæmin sem voru rakin að ofan – stofnun NHS og Sameinuðu þjóðanna, uppbygging velferðarkerfa – sýna að sögulegir atburðir geta orðið til þess að breytingar eiga sér stað.
En það er ekki sjálfgefið að breytingarnar verði allar jákvæðar: Nú þegar hefur á Íslandi borið á því að hjálpa eigi fyrirtækjum sem ekki eiga í neinum sérstökum vanda, og standa jafnvel vel, m.a. með því að fella niður ýmis gjöld þeim til handa. Hefur þetta meðal annars verið krafa frá hagsmunasamtökum fyrirtækja- og fjármagnseigenda. Einnig hefur verið rætt um að fella úr gildi ýmiss konar reglur í fiskeldi, undir því yfirskyni að hjálpa landinu úr krísunni – þetta kom frá sjálfum sjávarútvegsráðherra landsins. Engin merki eru um að þessi grein sé í vanda vegna ástandsins.
Þetta tvennt – hjálp til vel stæðra fyrirtækja og afregluvæðing – er vísbending um að ástandið gæti verið nýtt til slæmra verka: Til að auka á spillingu, til að auka á ójöfnuð, og til að gera fyrirtækjum auðveldara að ganga illa um umhverfið. Höfum í huga að þetta voru viðbrögðin aðeins um mánuði eftir að samkomubannið gekk í gildi hér á Íslandi, hætt er við að eftir því sem efnahagsþrengingarnar verði lengri, að þrýst verði enn frekar á svona hugmyndir.
Verkefni umbótafólks á Íslandi næstu árin ætti vera að koma áleiðis breytingum, eins og meiri jöfnuði og meðfylgjandi skattkerfisbreytingum, auknu lýðræði í stjórnmálunum og í hagkerfinu, umbyltingu í umhverfismálum, og ýmsu öðru. Einnig þarf að afstýra vondum breytingum. Til þessa þarf samstöðu, en ekki síst: Ferskar hugmyndir og ný gildi. Leitin að þeim þarf þó ekki að vera löng.
Ný gildi og nýjar hugmyndir
Rétt eins og í kringum seinni heimsstyrjöld þegar byrjað var að leggja grunninn að velferðarkerfum í Evrópu (og víðar), er núna rétti tíminn til að huga að því að láta nýjar hugmyndir verða að veruleika – og kannski ekki allt nýjar, sumar eru gamlar. Það er mjög rík ástæða til: Við búum í heimi sem einkennist af miklum og vaxandi ójöfnuði, heimi þar sem loftslagsbreytingar af mannavöldum eru óumflýjanleg staðreynd, heimi þar sem ofnotkun auðlinda er vandamál, heimi þar sem lýðræðið á undir högg að sækja. Í kringum seinni heimsstyrjöld voru viss vandamál – brotakennd velferðarkerfi, heilsugæsla takmörkuð, alþjóðasamvinna lítil – sem tekið var á í framhaldinu. Í okkar heimi eru vandamálin sumpart önnur og sumpart þau sömu, en löngu kominn tími til að takast á við þau.
Nú, eins og þá, eru það hugmyndir og gildi sem þarf að takast á við.
Í okkar samtíma verðum við að leggja mun meiri áherslu á efnahagslegan jöfnuð, því jöfnuður er lykillinn að svo mörgu: Fleiri hafa tækifæri til að spreyta sig í lífinu þegar jöfnuður er meiri, fólk upplifir meiri stöðugleika í jafnari samfélögum, fólk getur frekar leitað réttar síns í jafnari samfélögum, streita og offita er fátíðari í jafnari samfélögum en ójöfnum, færri enda í fangelsum í jafnari samfélögum, og fleira og fleira.1
Jöfnuður er ekki spurning um öfund þeirra sem hafa minna á milli handanna, eins og sumir virðast halda: Ójöfnuður er kerfisbundinn og gerir það að verkum að mismunandi hópar samfélagsins hafa mjög mismunandi möguleika í lífinu, sumir hafa meira en aðrir, og fólk getur hreinlega ekki breytt sinni samfélagsstöðu auðveldlega. Einnig má benda á að hin svokallaða „stærri kaka“, sem oft er nefnd í þessu samhengi dugar ekki til: Ójöfnuðurinn hefur aukist eftir því sem „kakan“ hefur stækkað undanfarna áratugi.
Við þurfum einnig að efla lýðræðið; víða um heim er sótt að lýðræðinu, eins og í Ungverjalandi og Póllandi. Þá er lýðræðið í mörgum öðrum löndum veikt, löndum þó eru talin búa við fullt lýðræði, sökum áhrifa auðfólks og sérhagsmunasamtaka, en einnig vegna þess að almenningur á orðið erfiðara með að koma málefnum sínum á dagskrá stjórnmálanna. Það er hreinlega auðveldara fyrir sérhagsmunasamtök að gera það, eins og sést kannski ágætlega á aðgengi Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins að ráðuneytum og stofnunum landsins og fjölmiðlum, og hvernig þeirra óskum er sinnt af stjórnvöldum. Aðgengi þessara samtaka má bera saman við umhverfisverndarsamtök, sem gjarnan eru sniðgengin af sömu aðilum. Einnig má hafa í huga málefni ýmissa hópa, öryrkja meðal annars. Ástandið á Íslandi hvað þetta varðar er ekki verst af öllum löndum, þrátt fyrir að dæmin séu þaðan; í Bandaríkjunum er þessum málum enn verr farið, geta almennings til að hafa áhrif á dagskrá stjórnmálanna er enn minni þar.
Umhverfismál hafa loksins fengið þá athygli fjölmiðla og stjórnmálamanna, sem nauðsyn er til. En mjög margt er þar ógert, og ljóst að mannleg samfélög verða að breyta hegðun sinni, einkum til að afstýra verstu áhrifum loftslagsbreytinga og ofnotkun auðlinda. Þótt það sé heimsfaraldur í gangi, þá halda loftslagsbreytingar áfram að ágerast, enn verður að bregðast við þeim. Þegar faraldrinum lýkur verður enn þá að bregðast við loftslagsbreytingum, og raunar minni tími til stefnu.
Hvernig tökumst við á við öll þessi vandamál? Með því að endurhugsa hugmyndir og gildi, og með því að láta stofnanir sjá um að hugmyndirnar festist í sessi og séu framkvæmdar. Hér eru nokkur atriði sem er vert að velta fyrir sér:
-
Meiri jöfnuður er æskilegur. Rannsóknir sýna að meiri jöfnuður en við búum við núna er æskilegur, en alger jöfnuður er ekki nauðsynlegur og heldur ekki alltaf æskilegur. Hófsamur ójöfnuður hvetur fólk áfram, hvetur það til menntunar og til að taka þátt í samfélaginu, á meðan mikill ójöfnuður gerir fólki erfiðar með að mennta sig, skipta um eða fá starf, og getur leitt til þess að heilu hóparnir geta ekki tekið þátt í samfélaginu. Ójöfnuð má minnka með breytingum á skattkerfinu, en einnig með meira lýðræði á vinnustöðum. Markmiðið er ekki alger jöfnuður, enda myndi það seint ganga upp.
-
Breytingar á skattkerfinu. Fellum brott fjármagnstekjuskatt og skattleggjum fjármagnstekjur eins og laun af venjulegu starfi. Ein orsök ójafnaðar á Íslandi er að fjármagnstekjur – arður frá fyrirtækjum, vaxtatekjur og fleira til – eru skattlagðar öðruvísi en launatekjur. Fjármagnstekjur eru skattlagðar lægra en laun; fjármagnstekjur bera flatan 22% skatt á meðan laun bera í kringum 35% skatt að lágmarki. Fjármagnstekjur eru ein helsta tekjulind auðfólks á Íslandi, á meðan laun eru tekjulind vinnandi fólks. Hér er því ein leið til að auka jöfnuð á Íslandi með einni aðgerð. Auk þessa, þá er órökrétt að gera greinarmun á launatekjum og fjármagnstekjum; hvort tveggja er afleiðing af atvinnustarfsemi – tekjur – og ætti því að skattleggja með sams konar skatti.
-
Lýðræði á vinnustöðum. Í okkar samfélagsgerð, sem við viljum kenna við lýðræði, er eitt svið þar sem við nánast undanskiljum lýðræðið: Vinnustaðirnir sem við vinnum á. Þegar við mætum í vinnuna finnst okkur nánast sjálfsagt að við tökum við skipunum frá eigendum fyrirtækjanna og hlýðum þeim, án andmæla, og án þess að við höfum nokkuð með ákvarðanirnar að gera. Þetta er ekki algilt, en samt meginreglan. Flestir vinnustaðir hafa ekki formlegan farveg þar sem starfsmennirnir geta haft áhrif á stefnu fyrirtækjanna. Hins vegar eru til slík fyrirtæki, eins og Mondrágon samsteypan á Spáni, sem rekur verslanir, framleiðslufyrirtæki og mjög margt fleira, og er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins. Þúsundir slíkra fyrirtækja eru til á Spáni og Ítalíu og víðar, og eiga það sammerkt að starfsmennirnir eiga þau, ákvarða meginstefnu þeirra og geta kosið um stærri mál. Þetta eru lýðræðisleg fyrirtæki (e. Worker’s Cooperative).2 Þá njóta starfsmennirnir ágóðans af rekstrinum í formi arðs, ef svo ber undir. Slík fyrirtæki standa fremur af sér kreppur en önnur fyrirtæki og hlúa betur að starfsmönnum sínum allajafna.
-
Ræktum lýðræðið í stjórnmálunum. Við verðum líka að rækta lýðræðið utan vinnustaðanna, stjórnmálin sjálf. Til að gera almenningi kleift að taka dagskrárvald stjórnálanna í sínar hendur, verður að gera almenningi kleift að ræða ágreiningsmál og flókin umræðuefni, með gögn og sérfræðiþekkingu að leiðarljósi, og geta skilað niðurstöðu. Þetta er hægt að gera með borgaraþingum (e. Citizens’ Assemblies), en það eru samkomur almennings – venjulegs fólks – þar sem þátttakendurnir eru valdir af handahófi, til að ræða tiltekin mál og komast að niðurstöðu um aðgerðir. Borgaraþing lúta stjórn þeirra sem þau skipa, og geta kallað til sín hvaða sérfræðinga sem er og er ætlað að komast að niðurstöðu. Þau vara mislengi, en hálft ár til níu mánuðir er algengt.3 Árangurinn er oft sá, að þeim tekst að mynda sátt í samfélögunum þar sem þau eru haldin, meðal annars vegna þess að þau eru mjög gagnsæ og veita upplýsingum út í samfélagið á meðan þau eru starfa. Á Írlandi, sem dæmi, hafa nokkur slík borgaraþing verið haldin, meðal annars með þeim árangri að skapa mun meiri sátt um þungunarrof, en stjórnarskrá landsins hefur nú verið breytt til að þau séu ekki bönnuð lengur.
-
Samfélagsbankar. Bankar á Íslandi eru reknir á þeim forsendum að eigendur þeirra eigi að hagnast, til þess eins séu bankarnir reknir og til þess megi beita hvaða meðulum sem er, nánast. Að lána fjármagn til samfélagslegra skynsamlegra verkefna og taka siðferðilega ábyrgð er aukaatriði nánast. En samt myndu allir taka undir að þetta tvennt séu mjög mikilvægir kostir við banka. Til eru bankar sem kallaðir eru samfélagsbankar,4 en þeirra markmið er að varðveita sparifé viðskiptavina þeirra og lána fé til fyrirtækja og einstaklinga – hagnaður er ekki aðalatriðið, en allur hagnaður fer til að styrkja bankann í sessi og veita viðskiptavinum betri kjör. Auk þess, þá er siðferði mikilvægur þáttur í rekstri slíkra banka, og sneiða þeir framhjá vafasömum viðskiptum og aðilum sem eru líklegir til að stunda peningaþvætti. Dæmi um banka sem þennan er Sparkasse í Þýskalandi. Sjálfsagt mál ætti að vera að umbreyta einum af þeim bönkum sem íslenska ríkið á, í samfélagsbanka, annað hvort Íslandsbanka eða Landsbankanum.
-
Loftslagsbreytingar. Við þurfum að bregðast við loftslagsbreytingum. Þegar verstu skakkaföllunum er lokið þurfum við að búa til hagkerfi þar sem minni áhersla er lögð á neyslu og meiri áhersla er lögð á lífsgæði og frítíma; það er ein leið til að takast á við loftslagsbreytingar (ásamt t.d. orkuskiptum). Fólk sem vinnur minna, og neytir minna, veldur nefnilega minni losun á gróðurhúsalofttegundum allajafna. Ein leið til þess að þetta geti raungerst er að fólk geti unnið hlutastörf og samt lifað mannsæmandi lífi; við þurfum að tryggja fólki sem vinnur hlutastörf betri réttindi til að hlutastörf séu talin góður og gildur kostur.
-
Við verðum að stytta vinnuvikuna. Þrátt fyrir þessar alvarlegu þrengingar, að fólk hafi þurft að draga úr vinnu um tíma, og að margir hafi orðið atvinnulausir, þá verðum við að halda áfram að stytta vinnuvikuna. Stytting vinnuvikunnar er mikilvægt mál þrátt fyrir þessi skakkaföll: Ef ekkert verður að gert, þá munum við leita í sama farið og fyrir heimsfaraldurinn, með tilheyrandi streitu, ofvinnu og kulnun. Við eigum enn hina gríðarlega miklu tækni til að gera okkur kleift að vinna minna, við erum enn efnað tæknivætt samfélag. Auk þess, þá er stytting vinnuvikunnar enn mikilvæg í ljósi þess að miklar tæknibreytingar munu eiga sér stað í framtíðinni, sem má nýta til að vinna minna og eiga meiri frítíma með vinum og fjölskyldu.
Þessar hugmyndir eru allar tiltölulega auðskiljanlegar og ættu að geta orðið grunnur að hugmyndafræði umbótasinna, sérstaklega á Íslandi og í efnuðum ríkjum. Þessar hugmyndir eiga sérstaklega vel við slík samfélög.
Engar þessara hugmynda þýða einhvers konar kollsteypu: Við myndum enn vera með markaðshagkerfi þar sem fólk skiptist á vörum og þjónustu og notar peninga sem greiðslumiðil, við myndum enn vera með þing og ríkisstjórn, og við myndum enn vinna. Hins vegar myndum við búa við meira og dýpra lýðræði í vinnunni og í stjórnmálunum, við myndum geta valið að vinna minna og neyta minna, við myndum ganga betur um umhverfið, fólk hefði fleiri tækifæri til að láta drauma sína rætast – óháð uppruna – og fólk myndi líta á bankann sinn sem stofnun sem hjálpar samfélaginu. Þetta er enginn draumaheimur, heldur raunverulegur möguleiki í okkar opna, tæknivædda samfélagi, sem byggir á lýðræði.
Það sem vantar er að umbótasinnað fólk sameinist um hugmyndir, eins og þessar, og láti þær verða að veruleika í gegnum stjórnmálasamtök sín og baráttu fyrir betri heimi. Hugmyndir frjálshyggjunnar eru innantómar og öllum ljóst að þær leiða til hruns – núna er hins vegar tækifærið til að hrinda þeim brott endanlega og byggja upp samfélag sem byggir á samhygð, lýðræði, jöfnuði og frelsi. Heimurinn þarf á því að halda, við þurfum á því að halda, og framtíðin þarf á því að halda: Ný og öflug framtíðarsýn getur fleytt okkur langt. Það verður æ augljósara eftir því sem líður á krísuna að ekkert annað er raunverulega í boði, breytingar eru nauðsynlegar. Það verður ekki haldið áfram með þær hugmyndir sem áður leiddu okkur áfram.
Tíminn til raunverulegra breytinga er núna.
***
Aftanmálsgreinar:
1. Þetta hafa rannsóknir Richard Wilkinson og Kate Pickett leitt í ljós, sem þau fjalla um í bókunum The Spirit Level og The Inner Level, sem og í margvíslegum vísindagreinum.
2. Rétt er að taka fram að lýðræðisleg fyrirtæki eru ólík fyrirtækjum sem til voru á Íslandi og voru nefnd samvinnufyrirtæki: Lýðræðisleg fyrirtæki eru í eigu starfsmanna sinna, á meðan samvinnufyrirtækin voru í eigu þeirra sem versluðu við þau, hvort sem voru neytendur (í tilfelli kaupfélaganna) eða framleiðendur (í tilfelli framleiðslufyrirtækjanna). Munurinn er mikilvægur, enda voru starfsmenn samvinnufyrirtækjanna ekki eigendur þeirra og höfðu takmörkuð völd innan þeirra. Markmiðið með lýðræðislegum fyrirtækjum er að færa valdið í hendur starfsmannanna. Eric Olin Wright (2010) fjallar nánar um lýðræðisleg fyrirtæki í bókinni Envisioning Real Utopias (bls. 237-238).
3. Fjallað er nánar um borgaraþing í Envisioning real Utopias (bls. 171-179).
4 .Samfélagsbankar eru ólíkir sparisjóðunum sem voru áberandi stofnanir í íslensku samfélagi á árum áður, en eru orðnir fáir núorðið. Rétt er að undirstrika muninn: Samfélagsbankar taka siðferðislega afstöðu til viðskipta sinna og setja sér siðareglur. Samfélagsbankar taka ekki þátt í vafasamri fjármálastarfsemi, ólíkt því sem margir sparisjóðir voru tilbúnir til að gera, í það minnsta undir lokin. Samfélagsbankar eru ekki fjárfestingarfyrirtæki. Og samfélagsbankar eru sjálfseignarstofnanir, en sparisjóðirnir í reynd í eigu þeirra sem héldu um stofnfjárbréf þeirra og undi eigendum stofnfjárbréfanna hvað verður um sparisjóðina.
Athugasemdir