Tilraunir með styttingu vinnudagsins skila árangri — líka á Íslandi
Fyrir áramót sögðu íslenskir fjölmiðlar fréttir af tilraun með styttingu vinnudagsins í dönsku upplýsingatæknifyrirtæki, IIH Nordic. Tilraunin fólst í því að starfsfólk fyrirtækisins vann fjóra daga í viku, í stað fimm áður, og 7,5 tíma hvern dag, í stað átta áður. Niðurstaðan varð 30 tíma vinnuvika, afkastaaukning upp á 20%, færri veikindadagar starfsfólksins, og betri líðan þess. Ekki einungis leið fólki betur, og átti meiri tíma fyrir sjálft sig, heldur gekk rekstur fyrirtæksins mjög vel: „Í eitt ár höfum við unnið 14 þúsund færri stundir en samt viðhaldið veltu og hagnaði fyrirtækisins“, sagði stjórnarformaður fyrirtækisins.
Nýlega sagði Guardian svo fréttir af fjárfestingarfyrirtæki í Nýja-Sjálandi sem hafði ráðist í svipaðar aðgerðir: Vinnuvika starfsfólksins var stytt í fjóra daga (úr fimm), og unnið var í átta tíma á dag – samtals 32 stundir yfir alla vikuna. Starfsfólkið hélt þó óbreyttum launum. Starfsfólk fyrirtækisins taldi að með þessu hefði betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs náðst: Áður en skemmri vinnuvika var innleidd taldi 54% starfsfólksins að það gæti haldið ágætu jafnvægi milli vinnu og heimilislífs en 78% töldu svo vera eftir styttinguna. Streita meðal starfsfólksins minnkaði og ánægja með lífið jókst.
Þetta er sannarlega markverður árangur, af ekki flóknari aðgerð en þetta. Niðurstaðan er þó ekkert sérlega óvænt: Í mörgum fyrirtækjum má stytta vinnudaginn og breyta því hvernig unnið er, en samt viðhalda rekstri fyrirtækjanna – víða er þó lítilll hvati til slíks, lítill áhugi meðal stjórnenda, og hlutirnir fastir í fornu fari.
Fornu fari?
Já, fornu fari.
Átta tíma vinnudagur, nokkuð sem okkur nútímafólkinu þykir nokkuð eðlilegur, var nefnilega ekki mótaður í kringum störf sem krefjast þess að hugsa, skapa og skipuleggja eitthvað nýtt í hverri viku, heldur var hann hugsaður fyrir störf í verksmiðjum þar sem hlutir eru hreyfðir til og frá, í nokkuð föstu verklagi frá degi til dags. Raunar voru hugmyndir um átta tíma vinnudag voru orðnar mótaðar árið 1817 – fyrir tvöhundruð árum, á tímum verksmiðjanna –, og brutust meðal annars fram í slagorðum eins og þessu hér: „Átta tíma vinna, átta tíma frístundir, átta tíma svefn“. Það tók svo áratugi fyrir þessar hugmyndir að verða að veruleika í hinum Vestræna heimi – ef þær þá yfir höfuð náðu því að verða að veruleika.
Í samtímanum er þó allt annað uppi á teningnum hvað eðli hagkerfisins varðar en var árið 1817, sem sést einna best á því, að árið 2017, starfa langflestir við þjónustu í hinu íslenska hagkerfi: um 77%. Aðeins um 5% vinna við fisköflun og landbúnað, en restin vinnur við iðnað og annað í þeim dúr. Í kringum 1900, hins vegar, var 15 til 20% starfandi sem vann við þjónustu, og 75 til 80% sem vann við landbúnað (skv. gögnum frá Hagstofu Íslands og úr Hagskinnu Hagstofunnar). Þetta er ekki séríslensk þróun, heldur þekkt tilhneiging í hagkerfum eftir því sem þau þróast og breytast: Eðli starfa breytist, sum störf hverfa og önnur taka við.
Þrátt fyrir þetta látum við eins og það sé eðlilegt að vinna átta tíma (eða lengur) á hverjum virkum degi, jafnvel þótt allir sem vinna skapandi störf, eða störf sem krefjast þess að þjónusta annað fólk, viti að það er nær ómögulegt að vinna vinnuna vel, þegar þarf að vinna átta tíma; flestir átta sig líka á því að miklu nær væri að vinna 4-6 tíma á dag, allt eftir þörfum hinna starfandi og starfsins.
Hugmyndin um átta tíma vinnudag er svo að segja úrelt miðað við nútíma atvinnuhætti, og því kannski engin furða þótt árangurinn sé skínandi þegar breytingar eru reyndar. Samfélagið, sem hugmyndin um átta tíma vinnudag mótaðist í, er horfið, en hugmyndirnar fylgja okkur enn, eins og vofur fyrri tíma.
Langir vinnudagar á Íslandi hafa vond áhrif
Á Íslandi er mjög mikið unnið, þrátt fyrir að hagkerfi landsins sé háþróað og að landið sé löngu hætt að vera fátækt. Ísland er eitt vinnusamasta samfélag Vesturlanda, og það sést í mælingum á vinnustundum. Á Íslandi er meira unnið en á öðrum Norðurlöndum, eins og má sjá á myndinni. Sjá nánar hér.
Myndin sýnir meðalfjölda árlegra vinnustunda á vinnandi mann í ólíkum löndum Evrópu milli 1990 og 2015. Myndin er teiknuð eftir gögnum frá Efnahags- og samvinnustofnuninni (OECD). Gögnin má finna hér.
Lífsgæði landsmanna verða fyrir skakkaföllum vegna þessarar miklu vinnu. Í lífsgæðamælingum sem Efnhags- og framfarastofnunin gerir árlega hefur Ísland komið illa út: Ísland var í 33. sæti af 38 mögulegum þegar kom að samræmingu vinnu og heimilislífs; Ísland skipaði sér neðar en öll hin Norðurlöndin, neðar en Bretland, Bandaríkin og Suður-Afríka. Ástæðan er langur vinnudagur (sjá hér).
Ísland var líka meðal þeirra landa sem skröpuðu botninn þegar kom að tíma til að sinna áhugamálum og að hugsa um sjálft sig. Ísland skipaði sér neðarlega á þennan lista, ásamt Mexíkó og Tyrklandi, á meðan Frakkland, Spánn, Holland, Danmörk, Belgía og Noregur voru á meðal þeirra sem komu best út (sjá hér). Langur vinnudagur er aftur þáttur, vegna þess að fólk hefur ekki tíma til að sinna sjálfu sér ef það þarf að vinna langa vinnudaga – fólk hefur takmarkaðan tíma í hverjum sólarhring. Sjá nánar hér.
Stytting vinnuvikunnar nær til Íslands
Löngu er kominn tími til að vinnandi fólk á Íslandi fái að vinna minna, en um þessar mundir hyllir í að svo geti orðið, þökk sé merkilegu tilraunaverkefni sem BSRB setti í gang. Tilraunaverkefnið er í gangi hjá Ríkinu og hjá Reykjavíkurborg, þar sem vinnudagurinn er styttur án þess að laun skerðist, en árangurinn hefur verið góður. Þá hefur í það minnsta eitt einkafyrirtæki, Hugsmiðjan, stytt vinnuvikuna hjá starfsfólkinu sínu með góðum árangri (sjá hér) – þetta er svo sannarlega skref fram á við og mættu fleiri atvinnurekendur taka sér þetta til fyrirmyndar.
Fjallað hefur verið um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar í nokkrum skýrslum og ritgerðum [1, 2, 3, 4, 5, 6] og um tilraunaverkefnið hjá Ríkinu í að minnsta kosti einni ritgerð [7].
Tilraunaverkefnið sem Reykjavíkurborg starfrækir hófst í mars 2015 og náði þá til tveggja starfsstaða, en haustið 2016 bættust við fleiri vinnustaðir. og nú nýlega enn fleiri. Yfir þúsund manns taka nú þátt í tilraunaverkefninu á tugum vinnustaða sem Reykjavíkurborg rekur. Árangurinn hefur verið góður: Það dró úr andlegum og líkamlegum einkennum álags meðal starfsfólksins sem tók þátt, starfsánægja jókst (allsstaðar nema á einum vinnustað), og þá voru áhrif styttingarinnar meiri en væntingar fólks stóðu til í upphafi (allsstaðar nema á einum vinnustað). Þetta sýna mælingar sem voru gerðar á meðan á tilrauninni hefur staðið. En þetta þýðir ekki að starfsemi þessara vinnustaða hafi raskast, vegna þess að mælingar sýna að verk eru unnin eftir sem áður og starfsemin er í góðu horfi. Mælingar sem voru gerðar sýna þetta. Þá hefur framleiðni á vinnustöðunum augljóslega aukist, þar sem sömu verk og áður eru unnnin, en nú á skemmri tíma en fyrir styttinguna.
Hjá Ríkinu var stytting vinnudagsins innleidd hjá Þjóðskrá Íslands, Ríkisskattstjóra, Útlendingastofnun og Lögreglustjóranum á Vestfjörðum. Styttingin hefur gengið vel fyrir sig og starfsfólkið hefur lýst yfir ánægju með styttinguna.
Nú nýlega var fjallað um reynsluna af styttingu vinnudagsins á vinnustöðum Reykjavíkurborgar og Ríkisins í BA-ritgerðum nemenda við Háskólann á Akureyri [7, 1]. Hér að neðan eru nokkrar tilvitnanir í viðmælendur sem rætt var við vegna rannsóknarinnar, en allir eiga þeir það sammerkt að hafa tekið þátt í tilraunaverkefninu og þar með unnið skemmri vinnuviku. Í ritgerðunum er vitnað til þátttakenda þar sem þeir lýstu því hvernig lífsgæði þeirra hefðu aukist vegna styttingarinnar:
„Þó þetta [styttingin] sé ekki nema 40 mínútur og eitthvað á dag, þá átti ég ekki von á því að lífsgæðaaukningin yrði alveg svona mikil. En þetta bara munar bara svo ótrúlega miklu“ ([7], bls. 27)
„Já, en þetta [styttingin] mér finnst þetta nýtast alveg rosalega vel, ég er bara mjög ánægð með þetta“ ([7], bls. 19)
„Maður var alltaf að gera allt um helgar, sem maður náði ekki að gera einmitt á virkum dögum. Þá er maður ekkert að hvílast þá var maður alveg bara, gæði helganna minnkuðu fyrir vikið sko.“ ([1], bls. 51)
Margir nefndu meiri tíma með fjölskyldunni og börnum:
„[...] að þurfa ekki að hafa barnið eins lengi á leikskólanum, fá meiri tíma með henni [...] það finnst mér frábært“ ([7], bls. 24)
„[...]þetta er alveg dýrmætur tími og líka þegar þú ert kannski bara með barninu þínu frá 5 til ... hálf átta eða eitthvað þegar það fer að sofa. Það er ótrúlega stuttur tími“ ([7], bls. 25)
„Líka samt tækifæri á einmitt að vera með maka þú veist, gera eitthvað meira. Fara út að borða, bíó, eitthvað kannski sem maður hefði ekki haft heldur úthald í. Eða hitta vinina. Ég finn að svona miðað við að breytingin af að vera með þessa styttingu er að hafa meira úthald í að hitta vinina í miðri viku sem var kannski meira bara um helgar.“ ([1], bls. 54)
Stytting vinnuvikunnar hafði hér beinlínis þau áhrif að fólk hafði meiri tíma til að sinna fjölskyldunni og hitta vini sína. Að hitta vini sína og vera með fjölskyldunni er eitt það mikilvægasta sem hægt er að hugsa sér í mannlegu samfélagi.
Þá nefndi fólk líka að streita hefði minnkað og að auðveldara væri að sinna daglegum verkefnum:
„Ég þurfti að fara með krakkana til tannlæknis í gær, þá bara fer ég, ég hætti klukkan tvö og fer með þau“ ([7], bls. 31)
„Mér finnst líka eins og hjá mér að því að núna er ég bara í svona venjulegri átta til fjögur vinnu, að það er oft eitthvað sem maður þarf að útrétta og vesenast á vinnutíma, bara fara í klippingu eða eitthvað að maður getur farið á þessum tíma án þess að vera með einhvern móral. En núna bara fer maður, ég kem aftur eða kem ekki aftur í dag og bara málið dautt einhvern veginn. Mér finnst það einhvern veginn vera, það léttir stressið að vera ekki að sinna sínu í vinnunni [...] ég er ekki að skrópa í vinnunni, þú veist, ég er að gera þetta á mínum tíma.“ ([7], bls. 31)
„Já slappa af og hitta fjölskylduna og eitthvað í staðinn fyrir að vera að stússast og útréttast. Hafa líka meiri orku í að gera eitthvað sem er manni, einhverjar svona frístundir og svona um helgar heldur en að vera bara að hlaða batteríin. Þannig að ef maður væri til 17 alla daga þá væri það bara helgin í að hlaða batteríin fyrir næstu viku. Það er ekkert líf.“ ([1], bls. 49)
Þá kom mjög sterklega í ljós að stytting vinnuvikunnar hafði keðjuverkandi áhrif: Vegna þess að fólk þurfti minna að vinna og gat betur sinnt öðrum skyldustörfum fyrir vikið, skapaðist tími og næði til að eiga veita því betur athygli sem aðrir í lífi fólksins voru að gera:
„Þetta er svona keðjuverkun og það er náttúrulega svona keðjuverkun sem að maður vill sjá líka bara gagnvart litlu börnunum, að það á enginn að vinna meira en 35 stunda vinnuviku og þá áttu bara að geta farið heim og sótt börnin þín og átt daginn með fjölskyldunni þinni. Maður vill sjá þessa keðjuverkun bara inn í leikskólana og þar af leiðandi minna álag inní leikskólunum og styttri vistunartími barna.“ ([1], bls. 58-59)
„Elsta stelpan mín hún er í vaktavinnu en í fjarnámi frá HA, þú veist þannig hún er oft að læra heima og þá sé ég hvað hún er að læra og ég get þú veist rætt einhvern veginn ... gefið mér meiri tíma til þess að ræða við hana og sýnt hennar námi áhuga. Ég hef ekki hugmynd um þú veist, endilega um hvað námið hennar snýst alltaf.“ ([1], bls. 59)
Af þessum tilvitnunum má ráða að lífsgæði fólksins sem tók þátt jukust, og fólk átti jafnframt auðveldara með að sinna heimilinu, fjölskyldunni og vinnunni. Mælingarnar sem rætt var um áður styðja þessa niðurstöðu jafnframt. Engin ástæða er til annars en að ætla að sams konar áhrif yrðu af styttingu vinnuvikunnar á vinnumarkaðnum í heild. Þetta er mikilvægt vegna þess að lífsgæði á Íslandi eru skert vegna mikillar vinnu, eins og lýst var hér að framan.
Tökum næstu skref – áfram
Tilraunaverkefnið heldur áfram hjá Reykjavíkurborg, sem er góðra gjalda vert. Hins vegar er brýnt að huga að því að innleiða skemmri vinnuviku á fleiri vinnustöðum, enda hafa tilraunirnar sýnt að styttingin gengur vel fyrir sig og skilar sér í meiri lífsgæðum, án neikvæðra áhrif á vinnustaði og starfsfólk þeirra. Framtak Hugsmiðjunnar sýnir að einkafyrirtæki geta vel lagt hönd á plóg í þessum málum.
En það þarf meira til. Alþingi þarf að sinna sínu hlutverki og samþykkja frumvarp sem er búið að leggja fram ítrekað (sjá hér, hér, og hér) um styttingu vinnuvikunnar. Þá þurfa stéttarfélög að berjast fyrir styttingu vinnuvikunnar í komandi kjaraviðræðum sem aldrei fyrr.
Það eru þó ljón í veginum, en það stærsta eru Samtök Atvinnulífsins, sérhagsmunasamtök fjármagnseigenda og stærstu fyrirtækja landsins. Samtökin eru alfarið á móti styttingu vinnuvikunnar og bættu fjölskyldulífi landsmanna. Vitanlega eiga sérhagmunasamtökin ekki að stjórna því hvernig við hin lifum lífinu – þau eiga ekki að ráðskast með líf okkar hinna, en þau gera það nú samt, því það er sem Alþingi nötri og stöðvist algerlega þegar andstaða Samtaka Atvinnulífsins er til staðar í einhverju máli. Þannig er það líka með þingmálið um styttingu vinnuvikunnar.
Alþingi og aðrar stofnanir landsins verða að standa í lappirnar gagnvart sérhagsmunasamtökum og gera skemmri vinnuviku að veruleika – lífsgæði fólks eru í húfi. Látum ekki sérhagsmunasamtök eins og Samtök Atvinnulífsins hræða okkur og stjórna okkur, heldur styttum ótrauð vinnuvikuna: Lifum betra lífi, okkur sjálfum, vinum og fjölskyldum okkar til heilla.
Athugasemdir