Stytting vinnudags og viðhorf ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var í beinni línu á DV í gær. Hann var spurður spurningar um vinnutíma sem vakti athygli mína.
Spurningin hljómaði svona: „Er það á dagskrá hjá ASÍ að stytta vinnuvikuna? Ef ekki, hvers vegna ekki?“
Svar Gylfa var: „Virkur vinnutími á Íslandi er í dag rúmir 37 tímar (við fáum kaffitímana greidda). Stytting vinnutíma kostar atvinnulífið og því er það spurning hvort við viljum hækka laun eða auka frítíma. Áhersla hefur verið að að auka kaupmátt, sérstaklega dagvinnulauna, og því ekki hægt að gera hvoru tveggja. Ef okkur tekst að auka vægi dagvinnulauna er hægt að draga úr óhóflegri yfirvinnu og þannig stytta vinnuvikuna!“
Inntakið í svari Gylfa er að ekki sé hægt að auka kaupmátt og stytta vinnutíma samtímis, sem er rangt. Tökum Þýskaland sem dæmi: Í því landi var vinnutíminn styttur á 9. áratug síðustu aldar, jafnframt sem launahækkanir voru veittar. Þetta gekk upp; vinnutíminn styttist og launin hækkuðu.
Ég hef hitt fulltrúa ýmissa stéttarfélaga vegna verkefnis Öldu um vinnutíma (sjá og hér og hér). Þetta viðhorf Gylfa hefur komið fram hjá nokkrum fulltrúum en alls ekki öllum. Það er sem sumir átti sig ekki á því að skemmri vinnutími þarf ekki að koma niður á launum né kostnaði fyrirtækjanna.
Ástæðan fyrir því að hvorki laun né kostnaður þurfa að gjalda fyrir skemmri vinnutíma er framleiðni – því sem við getum líka kallað afköst (vinnustaða). Framleiðni er einfaldlega það sem fólk framleiðir á hverri klukkustund sem það vinnur (eða einhverri annari mælieiningu). Ef verksmiðja sem framleiðir stál eykur framleiðslu sína um tonn á klukkustund, hefur framleiðni verksmiðjunnar aukist um eitt tonn á klukkustund. Þegar framleiðni eykst, hefur fólki tekist að framleiða meira, fyrir sama vinnuframlag.
Það sem gerðist í Þýskalandi var að framleiðni jókst jafnframt því sem vinnudagurinn var styttur. Hluti af framleiðsluaukningunni var nýttur til að greiða hærra tímakaup, til að vinna upp fyrir skemmri vinnutíma. En aukin framleiðni þýddi líka að fyrirtækin gátu selt meira af varningi, fengu meira af fé í sína sjóði og gátu því greitt hærri mánaðarlaun. Hagfræðingar sem hafa skoðað þetta tímabil hafa komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækin hafi jafnvel grætt á þessari styttingu, því framleiðniaukningin jók svo á tekjur þeirra.
Hagfræðingar hafa líka komist að því, að framleiðniaukning er ekki nauðsynleg áður en stytting vinnudags á sér stað, því framleiðniaukning á sér stað jafnvel eftir styttingu vinnudagsins. Ástæðan er sú að fyrirtækin þurfa að bregðast við skemmri vinnudegi með því að breyta vinnuskipulagi – styttingin neyðir þau til þess. Stytting er þannig atburður sem kallar á breytingu vinnuskipulags.
Á Íslandi er framleiðni öllu minni en í nágrannalöndum okkar (sjá hér). Það má gera ráð fyrir að með breyttu vinnuskipulagi megi auka framleiðni, stytta vinnudag og greiða hærri laun. Munurinn á okkur og nágrannalöndum okkar er það mikill, að ef okkur tekst að auka framleiðnina, gætum við stytt vinnudaginn umtalsvert – án þess að laun skaðist.
Það er ekkert sem hamlar okkur í því að láta þetta að verða að veruleika – eingöngu það að stéttarfélög (eða Aþingi) geri eitthvað í málunum. Stéttarfélögin þurfa að semja í næstu kjarasamningum um launahækkanir og styttingu vinnudags. Þar sem ASÍ kemur að samningum er tilvalið að sambandið hjálpi til við slíka samninga – til dæmis gæti ASÍ haft samband við sérfræðinga í þessum málum.
***
Nánari rökstuðning má finna hér. Jafnframt má finna enn ítarlegri rökstuðning í grein þeirra Bosch og Lehndorff frá árinu 2001 í Cambridge Journal of Economics (25, 209-243).
***
Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is
Athugasemdir