Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Nokkur orð um misheppnaða bankasölu og samfélagsbanka

Nokkur orð um misheppnaða bankasölu og samfélagsbanka

Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um einkavæðingu Íslandsbanka og efnt til mótmæla í sex skipti vegna hennar. Umræðan og mótmælin eru bæði skiljanleg og eðlileg, enda er einkavæðingin misheppnuð því traust almennings gagnvart henni er nú gufað upp. Fátt grefur jafn hratt undan trausti eins og vafasamir viðskiptahættir og sérhygli. Ef einkavæðing á að geta talist vel heppnuð verður að vera til staðar traust gagnvart henni.

Í tilfelli sölu Íslandsbanka hvarf traustið kannski enn hraðar í ljósi fyrri einkavæðingar á ríkisbönkunum árið 2002, sem mikill styr stóð í kringum. Þeir urðu svo gjaldþrota örfáum árum síðar, ásamt þriðja einkabankanum, í einni og sömu vikunni haustið 2008. Sumt af því sem hefur nú gerst í kringum einkavæðingu Íslandsbanka minnir óneitanlega á einkavæðinguna 2002. Sporin hræða – eðlilega. Fólk spyr sig hvort enn önnur hringavitleysan með bankakerfið sé hafin – réttilega.

Umræðan nú hefur mestmegnis hverfst í kringum einstaka persónur – einkum um núverandi fjármálaráðherra og hvort tiltekin lög hafi verið brotin eða ekki og hvers vegna þá. En öllu minna hefur verið rætt um hvort einkavæðing bankanna sé yfir höfuð heppileg og hvort aðrir möguleikar séu í stöðunni, til dæmis með öðru rekstrarformi bankanna sem ríkið á í nú. Í umræðunni hefur þannig alveg vantað að spyrja vissrar grundvallarspurningar: Er eðlilegt að þeir bankar sem fara með yfirgnæfandi markaðshlutdeild í bankamarkaðnum séu allir skráir á hlutabréfamarkað og séu allir reknir í því augnamiði að hámarka hagnað? Stefna stjórnvalda felur í sér svarið „já“, og umræðan hefur hingað til gengið út frá sama svari. (Landsbankinn er enn í eigu ríkisins, en það virðist vera vilji hjá einum stjórnarflokkana til að einkavæða hann og er hann rekinn með sama sniði og hinir tveir stóru bankarnir.)

En í raun og veru er ekkert sjálfsagt við þessa stefnu. Ekkert er sjálfsagt við að allir bankarnir hámarki hagnað sinn, séu allir skráðir á hlutabréfamarkað og greiði út bónusa til stjórnenda – höfum líka í huga að þetta er sama stefna og var rekin í tilfelli bankanna sem fóru í gjaldþrot síðla árs 2008. En það má breyta um stefnu: Við sem samfélag getum kosið að reka að minnsta kosti einn banka sem samfélagsbanka, hugsanlega fleiri.

Skiptum um stefnu

Allt frá bankahruninu 2008 og yfirtöku ríkisins á þrotabúum föllnu banka og stofnun nýrra banka, hefur legið ljóst fyrir að flestir stjórnmálamenn hafa viljað einkavæða bankana. Arion banki var þannig ekki lengi í eigu ríkisins, miðað við Landsbankann og Íslandsbanka. Lærdómurinn af hruninu, í huga þessara stjórnmálamanna, var að ekkert væri að bönkunum í sjálfu sér, það hefði aðeins vantað betra regluverk í kringum þá og einkavæðinguna og virkt eftirlit í alla staði. Þess vegna, þegar fjármálaráðherra blés til sölu Íslandsbanka, var sem ekkert væri eðlilegra en að fetað væri í sömu fótspor og fyrir um tveimur áratugum síðan. Eins og við höfum fengið að sjá undanfarnar vikur tók ekki svo mjög langan tíma fyrir söluna að enda með ósköpum, þrátt fyrir meira eftirlit og betri lög – og enn á eftir að selja meira.

Vandamálið er að hugmyndafræðin á bakvið söluna er gjaldþrota orðin, því þegar liggur fyrir að selja á fyrirtæki sem ætlað er að hámarka hagnað og beinlínis sýslar með fé annarra, verður freistingin of mikil fyrir aðila sem vilja aðeins hámarka hagnað sinn og skeyta lítið um hver áhrifin verða á almenning af þvi þegar illa fer í rekstrinum. Þetta er ástæðan fyrir því að einkavæðingin fór illa hér fyrir nokkrum vikum og til frekari staðfestingar á þessu, þá eru bankarnir farnir að reyna – enn á ný – að veikja löggjöfina sem á að tryggja stöðugleika fjármálakerfisins, því löggjöfin aftrar hámörkun hagnaðar þeirra.

Mynstrið sem við sjáum er hið sama og í kringum og eftir einkavæðingu bankanna fyrir tveimur áratugum. Ómögulegt er auðvitað að segja til hvort illa fari nú eins og síðast. En hugmyndafræðin er gjaldþrota, svo mikið er víst.

 

Ein ástæða sem gefin var þegar salan á Íslandsbanka fór á skrið í fyrra var sú að íslenska ríkið ætti ekki að ábyrgjast fjármálastofnanir með því að eiga þær – einkaaðilar væru þess betur um komnir að eiga þær, og ef illa færi þyrfti ríkið ekkert að ábyrgjast, nema væntanlega þá í gegnum tryggingasjóði sem það rekur. Við sjáum af hruninu 2008 á Íslandi og raunar mun víðar – til dæmis í Bretlandi í tilfelli Royal Bank of Scotland – að á endanum neyðist ríkið alltaf til að ábyrgjast fallna banka ef stærð þeirra hefur náð vissu marki. Þetta hefur ekki breyst og er ekki líklegt til að breytast nokkuð í bráð. Við verðum að sætta okkur við þennan veruleika á sama hátt og við sættum okkur við að við þurfum að mála húsin okkar. Svona virkar veröldin.

En hvernig snúum við okkur frá hinni gjaldþrota hugmyndafræði og jafnframt lifum við þá köldu staðreynd að bankar séu alltaf á ábyrgð ríkisins? Við gerum það með því að huga að öðru rekstrarformi sem samræmir þetta tvennt. Samfélagsbankar gera nákvæmlega það. Það eru bankar sem eru reknir til að þjónusta viðskiptavinina sem best fyrir sem lægst þjónustugjöld, gæta vel að starfsfólkinu sínu, taka hóflega áhættu og verja hagnaði af rekstrinum til að tryggja grundvöll bankans til langrar framtíðar í bland við að rækta samfélagslega brýn verkefni. Hámörkun hagnaðar er ekki markmiðið þótt þeir hagnist engu að síður og þá er áhættu stillt í hóf. Með þessum tveimur eiginleikum samfélagsbanka – minni áhættu, ekki er sóst eftir hámörkun hagnaðar – má komast hjá ýmsum af þeim hremmingum sem við höfum séð og gengið í gegnum í tengslum við bankana okkar. Í ofanálag þarf ríkið ekki að eiga slíkan banka: Samfélagsbanka má reka sem sjálfseignarstofnun. Ríkið þarf því ekki að standa í samkeppnisrekstri hvað bankana varðar.

Við þekkjum illa til banka af þessu tagi hér á Íslandi, en samfélagsbankar eru þó til víða um heim og eru meðal annars öflugir í mið-Evrópu. Sparkasse er dæmi um net slíkra banka sem starfa í Þýskalandi. Í Bretlandi er banki sem heitir NationWide, stofnaður á 19. öld, og er þekktur fyrir lág þjónustugjöld og góða þjónustu. Þessir bankar lifðu af hremmingarnar 2008 til 2010 og stóðu eftir þegar hámarks-hagnaðarbankarnir lentu í hremmingum og var bjargað af ríkinu.

Við þurfum ekki frekari vitnanna við: Sú stefna stjórnvalda sem hefur verið mörkuð mð sölu Íslandsbanka og mögulega Landsbankans er misheppnuð og röng. Við eigum og verðum að breyta um stefnu, og sem allra fyrst. Við eigum að miða að því að gera Landsbankann að samfélagsbanka, rekinn sem sjálfseignarstofnun, hið minnsta.

Samfélagsbanki, sem veitir öðrum bönkum góða samkeppni með lægri þjónustugjöldum og betri þjónustu og hlúir að stöðugleika og samfélagslega mikilvægum málefnum, er líklegur til að reynast samfélaginu vel og minnka kostnað við bankaþjónustu heilt yfir. Slíkur banki getur líka dregið úr áhættu ríkisins og samfélagsins alls af bankarekstri.

Endurhugsum stefnuna frá grunni

Mótmælin og sú umræða sem blossað hefur upp í samfélaginu í kjölfar hinnar misheppnuðu einkavæðingar er einkenni á mun stærra vandamáli sem blasir við með bankana: Það er ekki sátt í samfélaginu um hvernig eigi að haga framtíð bankakerfisins. Skoðanakönnun sem Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði lét gera í febrúar 2020 sýndi fram á að stór meirihluti landsmanna (62%) var á móti einkavæðingu Íslandsbanka og Landsbankans, lítill minnihluti var hlyntur (18%). Enn fremur var meirihluti hlyntur því að Landsbankanum yrði breytt í samfélagsbanka (58%). Könnunin, umræðan að undanförnu og mótmælin hníga í sömu átt: Stefna stjórnvalda er fólki ekki að skapi og brýnt er að hún sé endurskoðuð frá grunni.

Í könnun Öldu er vilji almennings til endurskoðunar stefnunnar einnig kannaður: 65% sögðust vilja að framtíðarskipan bankans yrði ákvörðuð með lýðræðislegum hætti, svo sem borgaraþingi, áður en ákvörðun um sölu á bönkunum yrði tekin. Þessi skoðun hefur trúlega aðeins styrkst í sessi.

Nú er brýnt að stjórnmálamenn líti til vilja umbjóðenda sinna – kjósenda –, taki skref til baka og hefji samráð við umbjóðendurna um framhaldið. Það má gera með eftirfarandi hætti:

  1. Allri frekari sölu ríkisins á eignarhlut þess í bönkunum verði frestað um óákveðinn tíma.

  2. Stjórnmálamenn viðurkenni að mistök hafi verið gerð.

  3. Skipulagt verði borgaraþing til að móta nýja stefnu um bankakerfið, en þar yrði meðal annars ákvarðað hvort Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka.

Það er ekki of seint að mynda nýja sátt í samfélaginu, en því lengur sem beðið er með að taka rökrétt skref í þá áttina, því erfiðar verður að láta gróa um heilt. Rétti tíminn til að bregðast við er núna.

***

Mynd af útibúi Landsbankans er fengin af Wikipediu, tekin af notandanum Bjarki S.

Mynd af útibúi NationWide er sömuleiðis fengin af Wikipediu, tekin af notandanum Alexander P Kapp.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni