Þessi færsla er meira en 12 ára gömul.

Minnkum vinnuna: Styttum vinnudaginn II

Í fyrri pistli var fjallað um vinnustundir á Íslandi í samanburði við nágrannalöndin og önnur lönd í heiminum. Var þar minnst á að mikil vinna sé neikvæð. Hér verður fjallað stuttlega um rannsókn á áhrifum vinnunnar á íslensk heimili og á vinnuálagi, og aðeins fjallað um styttingu vinnudags í öðrum löndum.

Áhrif langs vinnudags

Í alþjóðlegri rannsókn sem var gerð fyrir fáum árum kom tvennt afar áhugavert í ljós: Í engu öðru þátttökulandi rannsóknarinnar voru fleiri (hlutfallslega) sem sögðust koma of þreyttir úr vinnu nokkrum sinnum í mánuði (eða oftar) til að sinna heimilislífi, en einmitt á Íslandi. Í aðeins tveimur löndum voru fleiri sem játtu því að þeim gengi illa að klára öll verkefni í vinnunni, en hér á landi. Hér ber að hafa í huga að þátttökulöndin voru fjölmörg; öll Norðurlöndin, mörg önnur Evrópulönd, Bandaríkin, Ástralía, Nýja-Sjáland og fleiri til.1

Það er ábyggilega engin tilviljun að hér sé unnið mjög mikið – meira en í nágrannalöndunum og mikið á heimsvísu, og þess að fólk sé þreytt vegna vinnunnar, þreyttara en í fjölmörgum öðrum löndum. Orsakasamhengið er ekki bara líklegt, heldur næstum augljóst.

Hugum að því af hverju fólki gengur illa að klára verkefnin í vinnunni. Nú er það svo að framleiðni á Íslandi – þ.e., hversu mikið er framleitt á hverri unninni klukkustund – er öllu minni en á öðrum Norðurlöndum, minni en í mörgum öðrum Evrópulöndum og minni en í Bandaríkjunum. Þau lönd sem fylgja fast á eftir Íslandi í þessum efnum eru einkum lönd í Austur- og Suður-Evrópu.2 Getur verið að þetta tvennt – erfiðleikar við að klára verkefnin og léleg framleiðni – sé vegna þess að á Íslandi sé vinnuskipulag – hvernig vinnan er unnin – verra en á öðrum Norðurlöndum og verra en í ýmsum öðrum löndum, t.d. Þýskalandi og Frakklandi? Það er mjög líklegt.


Stytting – áhrif og fordæmi.

Stytting vinnudags ætti að hafa mjög jákvæð áhrif á heimilislíf. Færri ættu að verða þreyttir eftir vinnudaginn og fleiri stundir ættu að vera til staðar fyrir fjölskyldu og vini.

Það yrðu líka önnur áhrif, áhrif á sjálfa vinnuna. Eitt af því sem gerist yfirleitt samhliða og/eða í kjölfar styttingar vinnudagsins er að skipulagi vinnunnar er breytt.3 Það sem gerist þá yfirleitt er að afköst aukast á hverri unninni klukkustund. Þetta er vel þekkt mynstur. Þetta myndi hafa þau áhrif að færri myndu vera í vandræðum með að klára verkefnin í vinnunni, en áður, sem myndi svo áreiðanlega auka starfsánægju.

Vinnudagurinn hefur lítið styst á Íslandi undanfarin 30 ár. Meðalmaðurinn vann um sjö vinnudögum minna (að meðaltali) árið 2008 en árið 1980.4 Í ýmsum öðrum löndum hefur hins vegar verið gripið til aðgerða til að stytta vinnudaginn, á þessu sama tímabili. Þekkt dæmi eru Þýskaland og Frakkland. Önnur dæmi eru S-Kórea og Bretland.5

Í stuttu máli þá hefur reynslan af styttingu vinnudagsins yfirleitt alltaf verið jákvæð. Slík stytting hefur yfirleitt ekki haft neikvæð áhrif á atvinnu, viðskipti – hagkerfið almennt.6

Því má líka bæta við að ýmsir fortíðarmenn okkar sáu fyrir sér að vinnudagurinn sem við myndum vinna, væri gerólíkur þeim sem við vinnum í dag. Einn þessara manna var enski hagfræðingurinn John Maynard Keynes. Hann skrifaði ritgerð sem ber titilinn, upp á íslensku, „Möguleikar barnabarna okkar til lífsviðurværis“, en ritgerðin var skrifuð árið 1930 þegar kreppan mikla var byrjuð að herja á heimsbyggðina.7 Hann sá fyrir sér að vinnudagurinn myndi styttast smám saman, þar til, um það bil árið 2030, að hann yrði í hinum þróaða heimi, um það bil þrjár stundir. Við hér á Íslandi erum heldur betur langt frá því. Trúlega er þetta engu að síður mögulegt – en þá þarf líka mjög margt að breytast.

Hvað svo sem líður framtíðardraumum Keynes, er eitt víst: Við getum og ættum að stytta vinnudaginn, sjálfra okkar vegna – sem og afkomenda okkar vegna. Verkalýðsfélögin þurfa nú þegar að taka við sér og hefja baráttu fyrir skemmri vinnudegi. Er þitt verkalýðsfélag að gera eitthvað í málinu?

 Þessi pistill birtist fyrst á vefnum Innihald.is fyrr á þessu ári. Hann birtist einnig á vefsvæði höfundar á DV.is.

Heimildir: 

1. Kolbeinn H. Stefánsson (2008). Samspil vinnu og heimilis: Álag og árekstrar. Rannsóknarstöð þjóðmála: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Óútgefið handrit.

2. Þorvaldur Gylfason (2007). Evrópa: Minni vinna, meiri vöxtur. Skírnir, 181 (vor), 61-81.

3. Lee, S., McCann, D, og Messenger J. C. (2007). Working time around the world. Routledge.

4. The Conference Board (2011). Total Economy Database.

5. Lee, McCann, og Messenger (2007).

6. Schor, J. (1991). The overworked American. New York: Basic Books.

7. Keynes, J. M. (1930/1972). The collected writings of John Maynard Keynes. Volume IX: Essays in persuasion. London: Macmillan. Bls. 321-332.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.