Þessi færsla er meira en 12 ára gömul.

Minnkum vinnuna: Styttum vinnudaginn I

Eitt þróaðasta samfélag á jörðinni er hið íslenska. Og það breyttist ekki, þrátt fyrir skakkaföll – banka- og lánabóluna, sem sprakk hér með látum, ásamt tilheyrandi fylgifiskum. Þeir sem eiga heiður skilinn fyrir að hafa komið samfélagi okkar á þennan stað eru vitanlega hinir vinnandi menn eldri kynslóða, konur sem karlar.

Þetta er allt vel. En það er ekki allt í lukkunnar velstandi hér á Íslandi, þrátt fyrir hátt þróunarstig. Það er við ýmislegt að etja. Það vita allir sem fylgjast með.

Langur vinnutími er eitt af því – málefni sem lítið hefur farið fyrir á seinni tímum. Íslenskt samfélag nefnilega sker sig mjög úr frá öðrum Norrænum samfélögum í vinnutíma. Á árinu 2010, sem dæmi, var fjöldi vinnustunda meðalmannsins tveimur stundum fleiri á viku hérlendis en í Svíþjóð, fjórum stundum fleiri en í Danmörku og sex stundum fleiri en í Noregi.1 

Munurinn kann að hljóma smár, en þegar hann er skoðaður sem fjöldi vinnudaga á ári, kemur best í ljós hve mikill hann er: Hérlendis vann meðalmaðurinn um fjórtán fleiri vinnudaga árið 2010 en meðalmaðurinn í Svíþjóð, 23 fleiri en í Danmörku og 38 fleiri en í Noregi. – Þessar tölur miðast við Íslenskan átta tíma vinnudag og 48 vinnuvikur eins og tíðkast hérlendis.

Svipaða sögu er að segja um Ísland í samanburði við Frakkland, Belgíu, Þýskaland, Holland og fleiri lönd í Evrópu – þótt munurinn sé minni.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Atvinnuþátttaka á Íslandi er mjög mikil í samanburði við önnur þróuð og meðal-þróuð lönd. Tökum árið 2009 sem dæmi. Það ár, á Íslandi, voru 85% allra á aldrinum 15-64 ára í launaðri vinnu eða í leit að vinnu.2 Þetta er með því hæsta sem þekkist. Engin af hinum Norðurlöndunum eru með svo mikla atvinnuþátttöku – í Danmörku var hlutfallið 81%, í Svíþjóð 79% – og helstu iðnríki Evrópu eru með lægra hlutfall – Þýskaland með 76%, t.d.3 Mikil atvinnuþátttaka hefur löngum einkennt íslenskan vinnumarkað4 – árið 2009 er ekkert „tilviljanaár“.

Þetta tvennt, vinnutíma og atvinnuþátttöku má skoða í samhengi. Þetta hefur Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur gert og borið saman mörg mismunandi lönd í þessu tilliti.5 Með því að margfalda saman meðalvinnustundir lands við atvinnuþátttöku (og deila með 100) kemur út meðalfjöldi vinnustunda allra þeirra sem eru á aldrinum 15-64 ára. Fyrir árið 2009 voru þær 1463 á Íslandi, 1265 í Svíþjóð, 1257 í Danmörku, 1249 í Finnlandi og 1112 í Noregi. Munurinn er greinilegur milli Íslands og hinna Norðurlandanna. Munurinn á Íslandi og Danmörku er, til dæmis, 26 vinnudagar þetta ár.

En aftur er ekki öll sagan sögð. Ef haldið er áfram og þetta sama reiknað út fyrir enn fleiri lönd – fjölmörg lönd í Evrópu, einnig Bandaríkin, Japan, Ástralíu, S-Kóreu o.fl. – kemur í ljós að á þennan mælikvarða var hvergi var unnið meira en á Íslandi meðal þessara landa (öll OECD löndin nánar tiltekið). Kolbeinn sýnir fram á að á þennan mælikvarða er unnið meira á Íslandi en í Suður-Kóreu. Verður það að sæta nokkrum tíðindum, því það þykir mjög mikið unnið í Suður-Kóreu. Eru S-Kóreubúar gjarnan taldir vera þeir vinnusömustu á jörðinni! Það skyldi þó ekki gert mikið úr því að meira sé unnið hér á landi en í Suður-Kóreu á þennan mælikvarða, munurinn er lítill og gæti stafað af skekkjum, því mælingar á vinnutíma verða seint hárnákvæmar. Þau samfélög sem komast einna næst S-Kóreu og Íslandi, eru Rússland (1440 stundir), Grikkland (1436), Tékkland (1361) og Eistland (1352). Allt samfélög sem eru vanþróaðri en okkar. Það ber að hafa í huga að árið 2009 er trúlega ekkert einsdæmi – vinnustundum hefur lítið fækkað síðan þá og atvinnuþátttaka er svipuð.6 

Mikil atvinnuþátttaka er almennt jákvæð, um það er tæpast deilt. Vinnunni er með því móti dreift á fleiri hendur. En mikil vinna er hins vegar neikvæð. Og það er einmitt vandinn hér á Íslandi, við vinnum mun meira en við ættum að geta gert. Í þessu er bara eitt að gera: Stytta vinnudaginn, í það minnsta þannig að hann verði álíka langur og á öðrum Norðurlöndum – jafnvel styttri!

Stytting vinnudagsins ætti að vera forgangsmál hjá verkalýðsfélögunum. Vinnudagurinn á Íslandi ætti að geta verið orðinn álíka langur og á öðrum Norðurlöndum innan fárra ára. Það er vel hægt fyrir jafn þróað samfélag og okkar að stytta vinnudaginn. Það vantar bara að koma málinu í framkvæmd – rétt eins og gildir um ýmis önnur vandamál íslensks samfélags: það vantar breytingarnar, allt annað er til staðar.

Þessi stytting ætti að fara fram á næstu 2-3 árum, í þrepum. Laun myndu haldast óbreytt (þ.e., heildarlaun) enda myndi fara fram breyting á því hvernig vinnan er unnin samfara styttingunni. Sú breyting ætti að geta skilað því að á styttri vinnudegi myndu afköst verða svipuð og fyrir styttingu. Og þar sem afköst (á hverri vinnustund) eru lægri en í nágrannalöndum okkar, þá er ástæða til að ætla að gera megi betur í þeim efnum – Ísland er ekki það frábrugðið nágrannalöndunum. Þar sem fyrirtækin ættu eftir styttingu að framleiða og selja álíka mikið og fyrir styttingu, þá ættu þau líka að geta greitt út óbreytt laun.

Það að stytta vinnudaginn er mikilvægt mál sem verkalýðsfélögin þurfa nú, öll sem eitt, að taka upp á sína arma og ná fram. Þetta hlýtur að vera eitt af þeirra brýnustu verkefnum.

Þessi pistill birtist fyrst á vefnum Innihald.is fyrr á þessu ári. Hann birtist einnig á vefsvæði höfundar á DV.is.

Heimildir:

1. Upplýsingar um vinnutíma eru fengnar úr Total Economy Database, sem The Conference Board heldur utan um.

2. Hafa ber í huga að þótt atvinnulaust fólk sé inni í útreikningunum skekkir það ekki útreikningana að neinu viti, atvinnuleysi árið 2009 var svipað hér og í nefndum löndum, eða þá hærra þar (nema í Noregi).

3. Kolbeinn Stefánsson. Óbirt handrit. Upplýsingar í handriti hans byggja á gögnum frá OECD.

4. Hagstofa Íslands (2011). Laun, tekjur og vinnumarkaður: Vinnumarkaður 2010. Hagtíðindi, 96 (10).

5. Óbirt handrit Kolbeins.

6. Hagstofa Íslands (2011). Laun, tekjur og vinnumarkaður: Vinnumarkaður 2010. Hagtíðindi, 96 (10).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.