Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Lýðræðið, hagsmunagæsla og efling trausts í stjórnmálunum

Fyrir nokkrum dögum var mikilvægri skýrslu skilað til forsætisráðuneytisins, en hún fjallar um hvernig megi efla traust gagnvart stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum og valdastofnunum landsins. Í þessari skýrslu – sem er vönduð – eru fjölmargar gagnlegar ábendingar um hvernig megi auka traust almennings gagnvart þessum aðilum, enda ekki vanþörf á, því traust almennings gagnvart stjórnmálunum og valdastofnunum landsins er í lágmarki.

Skýrslan tekur á fjölmörgum atriðum sem valda því að traustið er lítið, en meðal þeirra er sú lenska að (fyrrum) stjórnmálamenn taki að vinna fyrir hagsmunagæslusamtök, eða öfugt. Til að sporna við þessu er lagt til í skýrslunni, að settar verði reglur sem takmarki möguleikana á að svissa úr því að vera stjórnmálamaður og yfir í að vera hagsmunagæsluaðili (og öfugt), sem er vel. Þetta er raunar áberandi vandamál á Íslandi, en í kosningunum til Alþingis 2016, sem dæmi, umbreyttust tveir starfsmenn Samtaka atvinnulífsins í stjórnmálamenn, yfir nótt. Það ætti að vera sjálfsagt mál allra heiðarlegra stjórnmálamanna að taka á svona löguðu, enda ættu hagsmunagæsluaðilar ekki að eiga greiðan aðgang að stjórnmálunum – umbreyting eins og þessi grefur undan trausti gagnvart stjórnmálunum og í leiðinni lýðræðinu.

Í skýrslunni er einnig lagt til að tekin verði upp skráning á þeim sem hafa það að atvinnu að stunda hagsmunagæslu, sem ætti að vera sjálfsagt mál.

En þetta tvennt er varla nóg til að sporna við áhrifum sérhagsmunaafla á Íslandi. Hagsmunagæslusamtök hérlendis eru öflug, og hafa úr umtalsverðu fé að spila: Samtök atvinnulífsins veltu um 650 milljónum króna árið 2016, Viðskiptaráð Íslands hafði um 143 milljónir króna í tekjur árið 2015, bara svo tvö dæmi séu nefnd – fyrir peninga sem þessa má greiða stórum hópi fólks góð laun, sem og er gert af hálfu þessara samtaka. Rétt er að hafa í huga að sérhagsmunasamtökin eru fleiri hér á landi en bara þessi tvö.

Vegna þess að hagsmunagæslusamtökin eru mjög vel fjármögnuð, þá geta þau látið raddir sínar heyrast hátt á Íslandi, hærra en raddir almennra borgara, hærra en raddir umbótafólks. Og raddir sérhagsmunasamtakanna geta lifað miklu lengur, af því að þau hafa fólk í vinnu við að boða sérhagsmunina. Flestir almennir borgarar geta hins vegar ekki staðið í jafn langri baráttu, né er það á færi smærri samtaka; flestir almennir borgarar þurfa að sinna vinnunni sinni og fjölskyldunni, umfram það að vinna að umbótum á samfélaginu, og flest félagasamtök eru veikburða fjárhagslega. Vegna þess hve sérhagsmunasamtökin eru öflug og hafa greiðan aðgang að stofnunum samfélagsins, þá er einfaldlega miklu auðveldara fyrir stjórnmálamenn að fylgja boðvaldi öflugra, fjármagnaðra sérhagsmunasamtaka, en að gera það sem er í þágu hagsmuna almennings hverju sinni.

Dæmi um þetta eru lög sem tryggja sanngjarna hlutdeild almennings af arði sjávarútvegsfyrirtækja, en aldrei hefur tekist að koma á slíkum lögum á Íslandi, þvert á vilja almennings. Annað dæmi eru lög um skemmri vinnuviku, sem Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað stöðvað með andstöðu sinni á opinberum vettvangi – samtökin hafa haft uppi mjög harða andstöðu gegn öllum tilraunum til slíkrar lagasetningar, og hingað til haft árangur sem erfiði.

Tillaga skýrslunnar um skráningu hagsmunagæslusamtaka myndi ekki taka á þessum vanda, vegna þess að skráningin er engin takmörkun, og hagsmunagæslusamtök landsins myndu geta haldið áfram uppteknum hætti. Reglur sem takmarka möguleikana á að hagsmunaverðir verði stjórnmálamenn gætu þó haft einhver áhrif, en líklega lítil.

Kjarni vandans er einfaldlega þessi: Sérhagsmunasamtök sem starfa fyrir fyrirtæki og vissar greinar atvinnulífsins, hafa úr miklum fjármunum að tefla, og þau fyrirtæki sem standa að þeim hafa hvata til að láta fé af hendi rakna til slíkra samtaka, enda mun öflug starfsemi sérhagsmunasamtaka skila sér beint í formi aukins hagnaðar fyrirtækjanna, þökk sé lægri skattheimtu, minna eftirliti og almennt minni kvöðum. Þetta skapar þó mikið ójafnvægi í lýðræðinu, eins og rakið var að framan. Gjaldið er því lýðræðisins að bera, og að lokum, almennings.

Til að taka á þessum vanda þurfum við að setja ítarleg lög um fjármögnun hagsmunasamtaka. Hagsmunasamtök og starfsmenn þyrftu að skrá sig, en þau þyrftu enn fremur að undirgangast lög, áþekk þeim sem í dag gilda um stjórnmálaflokka og fjármögnun þeirra: Samtök sem stunda hagsmunagæslu gætu ekki tekið við fé frá hverjum sem er, algert gagnsæi þyrfti að ríkja um hvaðan rekstrarfé slíkra samtaka kæmi, og takmörkun þyrfti að vera á því hvað hvert fyrirtæki í landinu má greiða til hagsmunagæslu á ári. Frekari takmarkanir yrðu enn fremur nauðsynlegar til að takmarka möguleikana á að komast hjá reglunum á lagatæknilegan hátt.

Með þessu móti yrði hagsmunagæsluaðilum að vissu leyti gert erfiðar fyrir, enda er það markmiðið. Að hagsmunagæsluaðilar geti dreift áróðri sí og æ, er óeðlilegt, grefur undan lýðræðinu og vinnur gegn hagsmunum almennings. Linnulaus áróðurinn takmarkar enn fremur möguleika þeirra sem hafa úr minni fjármunum að spila, jafnvel þótt hugmyndir þeirra kunni að vera betri og í betri takt við hagsmuni almennings. Í lýðræðislegum samfélögum er eðlilegt að bregðast við svona löguðu með takmörkunum.

Í skýrslu fyrrgreindrar nefndar um eflingu trausts í stjórnmálunum, þá er einnig rætt um að viss félagasamtök verði styrkt, svo fremi sem þau uppfylli tiltekin skilyrði um starfsemi og skipulag. Þetta er eðlilegt, til að tryggja að vinnubrögð þessara félagasamtaka séu góð, samtökin séu ekki handbendi skuggaafla og að þau vinni að hagsmunum almennings. Fyrirkomulag eins og þetta er enn fremur eðlilegt, af því að heimurinn sem við búum í er flókinn, og í flóknum heimi þarf fólk til að hugsa um lausnir á þeim vandamálum sem koma upp, óháð ríkisvaldinu og hagsmunum stórra fyrirtækja. Þannig verða lausnir til við ýmsum þeim vanda sem blasir við.

Alþingi þarf að bregðast við þeirri stöðu sem ríkir varðandi hagsmunagæslu á Íslandi, og ætti að setja lög þar um sem allra fyrst. Slíkt yrði lýðræðinu á Íslandi til framdráttar, myndi bæta lífskjör almennings, og myndi jafna stöðu ólíkra aðila innan samfélagsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni