Þessi færsla er meira en 11 ára gömul.

Kjarasamningar í nánd: Verður vinnutími til umræðu?

Í fyrradag hélt ég erindi um styttingu vinnutíma á opnum fundi hjá Bandalagi Háskólamanna (BHM). Ég kynnti hugmyndir Öldu um styttingu vinnutíma, hvers vegna stytting væri nauðsynleg og hvernig ætti að koma þeim í framkvæmd. Fundurinn var vel sóttur og stóð yfir í um klukkustund, góðar umræður voru á fundinum og tóku fundargestir vel í hugmyndirnar.

Vinnutími er mikilvægt málefni núna í aðdragana kjarasamninga, því að það þarf að verða viss hugarfarsbreyting þegar kemur að kjarasamningagerð: Menn verða að átta sig á því að skemmri vinnutími mun þýða bætt lífsgæði ef rétt er að öllu staðið, en menn eru þó enn dálítið fastir í því að hækka eingöngu laun (þó ekki án undantekninga).

Auðvitað er ástæða fyrir því að menn hugsa fyrst og fremst um launahækkanir í tengslum við kjarasamningagerð, því launahækkanir hafa sögulega skilað aukningu á lífsgæðum. En nú hefur orðið breyting á: Rannsóknir benda til þess að þetta gildi ekki lengur, því í ríkari löndum eru lítil tengls milli tekju- og framleiðniaukningar og bættra lífsgæða og hamingju. Aðrir þættir vega nú þyngra en áður í því að auka lífsgæði og hamingju, en það eru helst þrír þættir sem skipta máli: Félagsleg tengsl, jöfnuður og umhverfisgæði, en stytting vinnutímans gerir okkur kleift að rækta þetta þrennt.

Ekki má skilja sem svo að launahækkanir muni ekki auka lífsgæði neinna hópa - það er ekki það sem átt er við, heldur að ýmsir hópar, sem hafa viðunandi laun, muni öðlast meiri lífsgæðaaukningu með skemmri vinnutíma en launahækkunum, á meðan aðrir þurfa að fá einhverja launahækkun til að auka sín lífsgæði.

Þetta er eitthvað sem þarf að hafa í huga í kjarasamningagerðinni.

 

Nánar upplýsingar um stefnu Öldu varðandi vinnutíma má finna hér, en þar má einnig finna nánari rökstuðning fyrir hugmyndinni.

***

Þessi pistill birtist áður á bloggsíðu höfundar á DV.is

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni