Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Gerum Landsbankann að lýðræðislegu fyrirtæki

 Gerum Landsbankann að lýðræðislegu fyrirtæki

Undanfarið hefur verið mikið rætt um hvað eigi að gera við Landsbankann. Vilji ríkisvaldsins er augljóslega að bankinn eigi að vera rekinn í hagnaðarskyni, og þá í þágu fjárfesta. En aðrar hugmyndir hafa líka komið fram um hvernig megi reka bankann til framtíðar.

Hér langar mig að gera athugasemdir við þessa umræðu, og bera fram enn annars konar hugmyndir.

Eins og sakir standa á ríkið bankann svo gott sem í heild sinni, en starfsfólk bankans og aðrir eiga minnihluta. Í ljósi þess hvernig síðasta tilraun til að koma bönkunum úr eigu ríkisins, og hvernig ástatt er um ýmis gjöld sem fólk þarf að reiða af hendi til bankanna, hafa margir spurt: Má ekki reka þennan banka með öðru móti, en í þágu fjárfesta? Má ekki reka hann sem samfélagsbanka? Hugsunin er þá eitthvað á þá leiðina, að banki sem er rekinn með ábata samfélagsins að leiðarljósi, hann sé síður líklegur til að enda á hvínandi kúpunni, með tilheyrandi peningamokstri úr ríkissjóði –  hinum sameiginlega sjóði okkar. Í leiðinni megi alveg hugsa sér að svona banki geti innheimt lægri gjöld – hvort sem er vexti eða þjónustugjöld, vegna þess að það markmiðin með rekstrinum séu önnur en hagnaður til handa fámennum hópi eigenda. Hagnaður fyrirtækja kemur enda úr vösum viðskiptavinanna.

Umræðan hefur verið eitthvað á þá leið að svonalagað sé tæplega gerlegt: Ríkið eigi ekki að standa í atvinnurekstri, hvað þá bankarekstri. Reynslan sýni auk þess, að spilltir stjórnmálamenn muni skipa sjálfa sig og vini sína í þesslags banka, með tilheyrandi óráðsíu. Í ljósi þessarar döpru reynslu sé miklu betra að láta „markaðinn“ um þetta, að selja bankann til einhverra sem hafa fjárráð fyrir, og vilji reka banka. Á endanum muni markaðurinn lækka gjöldin til viðskiptavinana, vegna aukinnar samkeppni – allir myndu njóta góðs af því, en alveg sérstaklega viðskiptavinirnir.

Enn aðrir vilja að við endurreisum sparisjóðina, og Landsbankinn eigi að verða að sparisjóði. Þeir sem vilja þetta, benda á að löggjöfin um sparisjóðina sé þegar til staðar, engu sérstöku þurfi að breyta, heldur aðeins hvernig Landsbankinn er rekinn.

Satt best að segja tel ég að þessi umræða sé á villgötum.

Byrjum á sparisjóðshugmyndinni: Jafnvel þótt löggjöfin sé enn fyrir hendi, þá er eignarhaldið í kringum sparisjóðina veikur hlekkur. Eins og lagt var upp með sparisjóðina á fyrri hluta tuttugustu aldar, þá átti eignarhaldið að vera í höndum fárra, en traustra aðila, sem ekki áttu að fá arð fyrir að halda utan um eign í sparisjóði. Fólki var beinlínis treyst til að vinna í þágu síns sparisjóðs – en sparisjóðurinn átti svo að gagnast samfélaginu. Þetta gekk nokkuð vel í ansi langan tíma, kannski allt þar til fjármálavæðingin hófst fyrir alvöru og menn tóku að selja hlutina, og fengu beinharða peninga fyrir. Eitthvað sem átti ekki að vera fjárfesting í upphafi, varð að fjárfestingu í tímans rás – jafnvel þótt upphaflega hafi verið gefið loforð um að ekki ætti að hagnast á því að halda utan um eignarhaldið.

Þetta er held ég meginástæðan fyrir því að sparisjóðsleiðin er dæmd til að mistakast: Fjármálavæðing samfélagsins – að ógleymdri gróðahyggju – myndi á stuttum tíma leiða til þess að Landsbankinn yrði í höndum fólks sem hefði fyrst og fremst áhuga á hagnaði af rekstrinum, miklu fremur en að leggja eitthvað til samfélagsins í gegnum sparisjóðinn. Samfélagið er hreinlega það gjörbreytt, að eignarhaldið myndi ekki haldast stöðugt lengi.

En hvað á þá til bragðs að taka?

Ég held að svarið sé ekki að bankinn verði að sparisjóði, ekki að hann verði í eigu ríkisins, að hann verði að fyrirtæki í eigu einkaaðila.

Einn möguleiki er að Landsbankinn verði að fyrirtæki, sem er rekið sem sjálfseignarstofnun, með það eitt að leiðarljósi að bjóða upp á þjónustu á hagstæðu verði fyrir sína viðskiptavini. Skynsamlegur hagnaður er settur í varasjóði fyrir lakari tíma, en annars eru þjónustugjöld lækkuð svo enginn annar hagnaður myndist. Þetta myndi vitanlega þrýsta á aðra banka að lækka sín gjöld. 


John Lewis er félag í eigu starfsmanna sinna. Lewis er einn stærsti atvinnurekandi Bretlands.

Það má líka vel hugsa með sér að Landsbankanum verði breytt í lýðræðislegt fyrirtæki, þar sem starfsmennirnir eiga allir jafnan hlut: Þeir hirða þá arðinn af rekstrinum, og bera ábyrgð á rekstrinum. Reynslan af svoleiðis fyrirtækjum bendir til að Landsbankinn yrði ekki rekinn með það að augnarmiði að hirða sem mestan arð, heldur fyrst og fremst til að veita góða þjónustu og tryggja atvinnu fyrir starfsfólkið. Það er enda þeirra hagur, fyrst og fremst, að halda vinnunni til langs tíma, og því myndi ásóknin í arð minnka fyrir vikið – áhættusækni myndi minnka, og í staðinn myndi starfsfólkið öðlast meira atvinnuöryggi. Það gæti jafnvel verið hvati til að lækka þjónustugjöldin með þessu móti, því þeir sem þurfa að vinna með viðskiptavinunum, augliti til auglitis, finna fljótt að lægri þjónustugjöld skila sér í ánægðari viðskiptavinum. Þeir hinir sömu ættu líka bankann og hefðu völd til.

Báðar þessar leiðir hafa þann kost í för með sér að með þá hafa stjórnmálamenn ekki neinn sérstakan aðgang að fyrirtækinu, í því augnarmiði að koma sjálfum sér og spilltum vinum sínum í góða vinnu í bankanum. Ríkið hefði ekkert um Landsbankann að segja, framyfir aðra banka í landinu. Báðar þessar leiðir hafa líka báðar þann kost að þjónustugjöldin myndu lækka, en auðvitað það líka að tryggja stöðugri rekstur bankans. 

Það munar um minna.

***

Mynd af byggingu John Lewis er fengin af Wikipediu, tekin af notandanum Man vyi.

Mynd af útibúi Landsbankans sömuleiðis fengin af Wikipediu, tekin af notandanum Bjarki S.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Ópera eða þungarokk? - Áhrif smekks á viðhorf annarra til okkar
Samtal við samfélagið#8

Ópera eða þung­arokk? - Áhrif smekks á við­horf annarra til okk­ar

Hef­ur smekk­ur okk­ar áhrif á hvernig aðr­ir meta okk­ur? Mads Meier Jæ­ger, pró­fess­or við Kaup­manna­hafn­ar­skóla, svar­aði þeirri spurn­ingu á fyr­ir­lestri sem hann flutti ný­lega á veg­um fé­lags­fræð­inn­ar og hann ræddi rann­sókn­ir sín­ar í spjalli við Sigrúnu í kjöl­far­ið. Því hef­ur oft ver­ið hald­ið fram að meiri virð­ing sé tengd smekk sem telst til há­menn­ing­ar (t.d. að hlusta á óper­ur eða kunna að meta ostr­ur) en lægri virð­ing smekk sem er tal­inn end­ur­spegla lág­menn­ingu (t.d. að hlusta á þung­arokk eða vilja bara ost­borg­ara). Á svip­að­an hátt er fólk sem bland­ar sam­an há- og lág­menn­ingu oft met­ið hærra en þau sem hafa ein­ung­is áhuga á öðru hvoru form­inu. Með meg­in­d­leg­um og eig­ind­leg­um að­ferð­um sýn­ir Mads fram á að bæði sjón­ar­horn­in skipta máli fyr­ir hvernig fólk er met­ið í dönsku sam­fé­lagi. Dan­ir álíta til dæm­is að þau sem þekkja og kunna að meta hluti sem tengj­ast há­menn­ingu fær­ari á efna­hags­svið­inu og fólk ber meiri virð­ingu fyr­ir slík­um ein­stak­ling­um en þau sem að geta bland­að sam­an há-og lág­menn­ingu eru tal­in áhuga­verð­ari og álit­in hafa hærri fé­lags­lega stöðu. Þau Sigrún ræða um af hverju og hvernig slík­ar skil­grein­ing­ar hafa áhuga á mögu­leika okk­ar og tæki­færi í sam­fé­lag­inu. Þau setja nið­ur­stöð­urn­ar einnig í sam­hengi við stefnu­mót­un, en rann­sókn­ir Mads hafa með­al ann­ars ver­ið not­að­ar til að móta mennta­stefnu í Dan­mörku.