Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Frumvarp um styttingu vinnuvikunnar lagt fyrir á Alþingi

Frumvarp um styttingu vinnuvikunnar lagt fyrir á Alþingi

Frumvarp um styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir hefur verið lagt fram á Alþingi, nú í þriðja sinn. Það er þingflokkur Pírata sem leggur frumvarpið fram.

Í athugasemdum með frumvarpinu er enn og aftur minnt þá staðreynd, að á Íslandi er mjög mikið unnið: Á Íslandi er meðalfjöldi vinnustunda um 1880 stundir á ári á hvern vinnandi mann, á meðan í Þýskalandi eru þær í kringum 1360 á ári. Þá er nefnt að í mælingum Efnahags- og samvinnustofnunarinnar (OECD), mælist Ísland í 34. sæti af 38 mögulegum, hvað varðar tíma sem borgararnir hafa aflögu til frístunda meðal landanna sem mælingarnar ná til — þau lönd sem verma efstu sætin eru lönd eins og Frakkland, Spánn og Holland, Danmörk og Belgía, á meðan löndin sem verma neðstu sætin eru lönd eins og Ísland, Ísrael, Lettland, Mexíkó og Tyrkland.

Í athugasemdunum er einnig vikið að lélegri framleiðni á Íslandi í samanburði við önnur lönd Evrópu, en sambandið milli framleiðni og vinnustunda er á þá leið að minni framleiðni er tengd mörgum vinnustundum (og öfugt). Gera má ráð fyrir því að framleiðni á Íslandi aukist, verði frumvarpið að lögum, enda mun fólk og fyrirtæki þá leggjast í að endurskipuleggja verkferla og vinnufyrirkomulag.

Í seinna skiptið sem þetta frumvarp var lagt fram, þá komu jákvæðar umsagnir frá allnokkrum félagasamtökum og stofnunum: Barnaheillum, Umboðsmanni Barna, Öryrkjabandalagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Jafnréttisstofu, Félagi foreldra leikskólabarna í Reykjavík og Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga. Umsagnir þeirra voru á þá leið að yrði frumvarpið samþykkt, myndi samfélagið verða fjölskylduvænna, áhrif á líðan barna yrðu jákvæð, jafnrétti kynjanna myndi aukast, auk þess sem skemmri vinnuvika gæti mögulega leitt til minna nýgengis örorku. Það sama á vitanlega um frumvarpið sem nú er lagt fram, enda er það alveg eins efnislega.

Þá er rétt að geta þess að á miðvikudaginn næstkomandi verður haldið málþing, tileinkað styttingu vinnuvikunnar og því tilraunaverkefni sem Reykjavíkurborg og BSRB hafa staðið að undanfarin ár, þar sem vinnuvikan er stytt á allnokkrum vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Málþingið verður haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sjá nánar hér.

***

Mynd: Átta stunda vinnudags krafist í Melbourne, Ástralíu, 1856. Mynd af Wikipediu. Nánar hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni