Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er af mestu auðmannaætt landsins. Frændfólk hans er um allt hagkerfið að græða peninga.
Eins og til dæmis má sjá hér.
Og Bjarni sjálfur var heilmikið í bissniss hér á árum áður og þóttu þá ýmsir Vafningar helstil flóknir.
Bjarni verður að sætta sig við að því sé til haga haldið - eins og til dæmis er gert hér.
Nú heldur Bjarni því fram að hann hafi ekki vitað að félag sem hann átti og hélt utan um 40 milljón króna eign - að því er við best vitum - hafi verið skráð í hinu alræmda skattaskjóli Seychelles-eyjum.
Bjarni kveðst hafa HALDIÐ að félagið hans væri skráð í Lúxembúrg.
Nú er það svo að Lúxembúrg flokkast nú gjarnan sem skattaskjól líka.
En hvað sem því líður, þá neitaði Bjarni því tvisvar í viðtali við Kastljósi í fyrra að hann hefði komið nokkuð nálægt skattaskjólum.
En var hann að segja satt?
Það er nú það.
Að maður af þrautþjálfaðri peningaætt, maður sem hefur þurft að verjast ásökunum um allskonar dularfulla Vafninga og innherjaviðskipti og ég veit ekki hvað og hvað, og ætti því að hafa lagt alveg sérstaklega mikið upp úr að hafa öll sín eignamál á hreinu; maður sem gegnir embætti fjármálaráðherra í lýðræðisríki og verður því ekki bara að vera heiðarlegur, heldur verður líka að vera SJÁANLEGA heiðarlegur - að slíkur maður VITI EKKI hvar tugmilljónafélag hans hafi verið skráð ...
Fyrirgefðu, Bjarni, ég bara kaupi það ekki.
Athugasemdir