Góðæri er öðrum þræði hugarástand. Að því sögðu þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar svo að unnt sé að halda því fram að þannig ári í samfélagi manna. Hagfræðingar leggja í púkkið tölur um hagvöxt, stjórnmálafræðingar benda á stöðugleika í landsstjórninni, sálfræðingar mæla hamingju fólksins. Forkólfar viðskiptalífsins lofa minni hömlur á fyrirtækin í landinu en vilja þó enn meira athafnafrelsi, málsvarar launþega berja í gegn launahækkanir en segja alltaf svigrúm fyrir hærra kaup. Almenningur unir sáttur við sitt, leyfir sér meira en áður, tekur lán og borgar af þeim en lifir vel.
Svona var að minnsta kosti síðasta góðæri, það sem virtist vara langt fram á örlagaárið mikla í Íslandssögunni, 2008, þegar sannkallað hrun blasti við. Þá er ekki aðeins átt við fall bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, sem hrundu með braki og brestum og drógu ríkið næstum því með sér á leiðinni niður. Ekki er heldur átt aðeins við hrun gjaldmiðilsins sem olli þó svo miklum búsifjum. Nei, hrun ímyndar og sjálfumgleði reyndist líka svakalegt. Dramb er falli næst, það reyndu Íslendingar fyrir nokkrum árum.
Eftir að síðasta góðæri lauk – með hruni – efast enginn með viti um að velmegunin var innantóm, fengin að láni, reist á sandi, loftbóla sem hlaut að springa svo líkingunum sem eiga við sé dengt saman í belg og biðu. Einhugur virðist líka um að bruðl viðgekkst of oft, hjá háum sem lágum þótt mest bæri á öfgunum hjá auðmönnunum sem allt gátu leyft sér. Og hér tek ég líka fram til öryggis að hrunið varð ekki vegna þess að fólk keypti sér flatskjái of fljótt eða fór í of margar sumarleyfisferðir.
„Dramb er falli næst, það reyndu Íslendingar fyrir nokkrum árum.“
Er þá einhvern lærdóm hægt að draga af þessu? Hvað segir sagan? Eigum við ekki einmitt að læra af sögunni? Til þess hlýtur sagnfræðingurinn að vera kallaður til leiks. Eina þekktustu klisju um lærdóm sögunnar á heimspekingurinn George Santayana. Hann sagði að þeir sem kynnu ekki söguna hlytu að endurtaka mistök hennar. Já, þetta er klisja en klisjur eru þess eðlis að þær komast á loft vegna þess að það er margt til í þeim, svipað og gildir um málshætti. Brennt barn forðast eldinn, ekki satt?
Með þetta í huga má ætla að Íslendingar hafi lært að minnsta kosti tvennt eftir síðasta góðæri: Í fyrsta lagi að forðast dramb, oflæti og sjálfshól. Það kom okkur í koll þá. Í öðru lagi að góðærið verður að vera reist á bjargi, traustum stoðum og þar fram eftir götunum. Ef við gefum okkur að góðæri ríki núna megum við þá gefa okkur líka að þetta sé raunin? Að við höfum lært af sögunni.
Svo þarf auðvitað ekki endilega að vera. „Í þetta sinn er það öðruvísi.“ Þannig hljómar ein klisjan enn, fleyg orð um þá fölsku sannfæringu í heimi viðskipta að þótt allt hafi farið á versta veg áður hafi menn einmitt lært af reynslunni – en stigi í raun blindir ofan í sama pyttinn. Og svo má hafa í huga að Santayana ku líka hafa sagt um söguna að hún væri eintómur uppsuni, upplognar frásagnir þeirra sem hefðu hvergi verið nærri og vissu ekkert í sinn haus.
Væri þá ekki einmitt vit í því hjá einum sagnfræðingi að segja í lokin íslenska þjóðsögu sem ég heyrði eða las einhvern tímann, man ekki alveg hvenær eða hvar, og því síður smáatriðin, en einhvern veginn svona er hún: Einu sinni var kona sem freistaðist til að hnupla digru bjúga. Hún hámaði það í sig og naut hvers stolins bita uns röðin kom að þeim síðasta. Honum skellti hún í sig með bestu lyst. En stóð þá ekki stykkið í hálsi kerlingar svo að við köfnun lá. Eldrauðri í framan tókst henni að stynja upp að hún skyldi nú aldrei framar falla í þessa freistni og viti menn, upp úr kerlu hrökk bitinn. Mátti hún nú þakka sínum sæla að vera í lifenda tölu. Leið svo og beið en aftur varð löngunin í góðærið, ég meina bjúgað á króknum, skynseminni yfirsterkari. Um leið og kerling seildist í kræsingarnar varð henni í örskotsstund hugsað til þess hvernig fór síðast. Æ, þetta reddast, sagði hún við sjálfa sig og tók svo til óspilltra málanna.
Pistill Guðna Th. Jóhannessonar er innlegg í umfjöllun um nýja góðærið sem birtist í októberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir