Ég var lítil stelpa í Safamýrinni og dagar mínir snerust um fótbolta. Á veturna þóttumst við krakkarnir ekki heyra í skólabjöllunni og tókum tveggja klukkustunda leiki á malbiksvellinum á skólalóðinni. Á sumrin hittumst við fyrir æfingar, æfðum aukaspyrnur og skölluðum á milli, og eftir æfingu hjólaði ég heim og sparkaði bolta í húsvegginn. Eftir því sem ég varð eldri fóru sumarlaunin mín í markmannshanska og í miða á leiki. Táneglurnar mínar eru flestar afmyndaðar, fótleggirnir munu að eilífu bera merki fórnfýsi, rammskakkur litli putti mun fylgja mér í gröfina eftir örlagaríkan leik í Grafarvoginum. Allt voru þetta smámál. Fegurðarstaðlar samfélagsins fengu að sitja á hakanum, boltinn var það eina sem skipti máli.
Svo gerðist eitthvað, og í dag læt ég mér duga að æpa upp yfir mig af kæti þegar Íslandi gengur vel.
Hvað var þetta „eitthvað“ sem gerðist? Hvað varð til þess að harðákveðin stelpa eins og ég hætti við öll plön og alla drauma um háskólastyrk í Bandaríkjunum og atvinnumennsku á meginlandinu og lagði skóna á hilluna?
Niðurlæging. Vanvirðing. Mismunun. Svona í stuttu máli.
Stelpum í knattspyrnu á Íslandi er kennt að þeirra íþrótt sé áhugamál á meðan strákarnir ætla að verða bestir í heimi og þeir hvattir til að elta þann draum. Íþróttafélög og nærumhverfi hafa ekki sömu væntingar til hvatanna sem liggja að baki hjá stelpum og strákum. Tómstundaiðja á móti framtíðaráformum.
Umræðan um stelpur sem æfa með strákum kristallar þetta fullkomlega. Þær stelpur sem eru nógu góðar fá að æfa með strákunum. Af hverju? Jú, til þess að þær – sem vilja einhverra hluta vegna ná langt – fái samkeppni og þjálfun við hæfi. Hinar geti haldið áfram að leika sér.
Ég veit að enginn hugsar þetta nákvæmlega svona og trúi því að meiningin komi frá réttum stað en ég verð að leyfa mér að efast um nálgunina. Að baki þessum hugmyndum liggja djúpstæðar og inngrónar hugsunarvillur sem þarf að leiðrétta.
Af hverju eru strákar, sem eru ekki einu sinni kynþroska, betri en stelpur sem eru jafngamlar? Vegna þess að strákar fá betri þjálfun og þeir mæta jákvæðara og meira hvetjandi viðmóti. Þeir fá að lesa opnur í dagblöðum um fyrirmyndir sínar og horfa á framtíðardrauminn ljóslifandi í sjónvarpinu á hverju kvöldi.
Af hverju þótti mér það ótrúlegur heiður að fá að fara á æfingu með strákunum, nákvæmlega sömu strákum og ég hafði spilað á móti í frímínútum fyrr um daginn? Af hverju var mér kennt að horfa niður til stelpnanna í flokknum mínum, að þær væru ekki nógu góðar fyrir mig? Af hverju var verið að senda mér þau skilaboð að strákar væru verðugri fótboltamenn en stelpur? Og af hverju er ennþá verið að senda stelpum og strákum þessi skilaboð?
„Stelpum í knattspyrnu á Íslandi er kennt að þeirra íþrótt sé áhugamál á meðan strákarnir ætla að verða bestir í heimi og þeir hvattir til að elta þann draum.“
Af hverju er það svona sjálfsagt að strákar fái betri þjálfun og að þær stelpur sem skara fram úr fái að æfa með þeim? Í staðinn fyrir að gera öllum krökkum jafnhátt undir höfði?
Ég man eftir því að mæta á æfingar á sparkvellinum á skólalóðinni þegar ég var komin í 4. flokk af því að það hafði gleymst að gera ráð fyrir okkur á æfingarsvæðinu. Að hafa verið með þjálfara sem var nokkrum árum eldri en við á meðan strákarnir voru með menntaðan þjálfara. Ég man eftir foreldrum sem mættu á stjórnarfundi hjá íþróttafélaginu og þurftu að berjast með kjafti og klóm vegna þess að kvennadeildin var að leggjast niður á meðan stjórnin var að hafa áhyggjur af rútumálum fyrir strákana. Ég man eftir að hafa lesið viðtal við íslenskar atvinnukonur í Bretlandi sem höfðu ekki efni á leigunni sinni og þurftu að víkja ef karl hjá sama félagi vildi æfa á þeirra æfingartíma. Ég man eftir því að loka dagblaðinu, fara að hágráta og ákveða að hætta í fótbolta. Ég meikaði ekki niðurlæginguna.
Ég vil að lausnin við óviðunandi þjálfun kvennadeildar sé ekki sú að leyfa bestu stelpunum að æfa með strákum, heldur að bæta þjálfun, umfjöllun og viðmót gagnvart kvennabolta. Ef við viljum efla kvennaknattspyrnu þarf að efla kvennaknattspyrnu, ekki bara leyfa stelpum sem eru góðar að fá að taka þátt í öflugu karlastarfi. Og ég vil að við hættum að hampa örfáum stelpum með því að niðurlægja aðrar stelpur í íþróttagreininni. Það er ekki rétta leiðin.
Pælið í því hvað öfluga kvennalandsliðið okkar væri fáránlega gott ef allar stelpur á landinu hefðu fengið jafn góða þjálfun og strákarnir, en ekki bara þær stelpur sem sköruðu fram úr.
Athugasemdir