Jæja.
Hér erum við þá komin. Sjö árum og tveimur mánuðum eftir að við stóðum hér á þessum sama velli, og við komum frá völdum vanhæfri ríkisstjórn, og við ætluðum að byggja nýtt Ísland.
Svona fór nú það.
Eftir sjö ár og tvo mánuði, þá stend ég hér og skammast mín.
Ég skammast mín fyrir svo margt - og ekki bara atburði síðustu dægra.
Ég skammast mín fyrir þá ríkisstjórn sem allt frá sínum fyrstu starfsdögum hefur blygðunarlaust þjónað undir rassgatið á ríka fólkinu í þessu landi.
Ég skammast mín fyrir þá ríkisstjórn sem vogaði sér – sem vogaði sér! – að hirða ekkert um niðurstöður í heilli þjóðaratkvæðagreiðslu, þjóðaratkvæðagreiðslu sem snerist þó ekki um neitt smámál, heldur sjálfa stjórnarskrá landsins – undirstöðuna sem við viljum hafa undir samfélag okkar.
Ég skammast mín fyrir stjórnvöld sem láta heilbrigðiskerfið reka á reiðanum, uns það sem við vorum svo stolt af og héldum að væri til marks um að hér ríkti sanngirni og jafnrétti fyrir alla – það heilbrigðiskerfi er að verða myglu að bráð.
Ég skammast mín fyrir ríkisstjórn sem hirðir ekkert um verndun landsins okkar – þetta eina land sem við eigum, en skyndigróði verktaka og stóriðjufyrirtækja fær að ráða ferðinni – skítt með landið fagurt og frítt, skítt með sjóndeildarhringinn, skítt með það hvort börnin okkar muni eftir fáein ár sjá einhverja ástæðu til að búa hér.
Og ég skammast mín fyrir að búa í landi þar sem þessum sjö, átta árum eftir mesta efnahagshrun seinni tíma, og ekki bara efnahagshrun, heldur siðferðishrun líka – innan við áratug eftir að við vorum öll skilin eftir í sárum af spilltum og gráðugum og vanhæfum kolkröbbum sem teygðu sig um allt samfélagið – innan við áratug seinna þá er allt byrjað upp á nýtt, og náfrændi fjármálaráðherra græðir milljónir og aftur milljónir á því að kaupa með einhverjum brellum fjármálafyrirtæki – af ríkisbankanum!
Ég sagði erlendri konu frá þessu í gær og hún sagði: „Drottinn minn dýri, þetta gæti alveg eins hafa gerst í Rússlandi.“
Hún meinti það ekki sem hrós.
Og þá, já, þá skammaðist ég mín fyrir það.
„Ég skammast mín fyrir forsætisráðherra sem virðist haldinn alvarlegum Jesúkomplex og býr til þjóðsögu um sjálfan sig sem bjargvætt þjóðarinnar.“
Og þó vitum við að ef við sjálf stoppum það ekki, þá er þessi þróun rétt að byrja. Því nú á að fara að selja eignir sem ríkið fékk upp í hendur eftir að misheppnaðir kaupahéðnar og spilltir stjórnmálamenn eyðilögðu samfélagið okkar, og partur af því hvernig þeir bisa við að halda í valdastólana er að nú á að tryggja að vinir þeirra og frændur, og kaupfélagsstjórarnir þeirra hreppi feitustu bitana – ódýrt.
Og ég skammast mín fyrir stjórnvöld sem taka hverjum votti af gagnrýni sem loftárásum frá fjölmiðlum, ég skammast mín fyrir stjórnvöld sem setja upp innihaldslausar leiksýningar um eigið ágæti, ég skammast mín fyrir stjórnvöld sem eru svo duglaus að þau geta ekki brugðist með sómasamlegum hætti við ferðamannastraumi sem ógnar jafnvel náttúrunni okkar allra, því alltaf er bara hugsað um stundargróðann - ég skammast mín fyrir ríkisstjórn sem lætur jöfnuð lönd og leið, sanngirni, samstöðu, og sómasamlegt mannlíf – öllu þessu skal fórnað á altari stundargróðans þar sem ránfuglar rífa í sig hræ samfélagsins.
Guð, hvað ég skammast mín stundum.
Og núna – ég skammast mín fyrir að sjö árum og tveim mánuðum eftir að við ætluðum að snúa við blaðinu þá sitjum við uppi með silkihúfur sem ljúga, sem þegja um mikilsverða prívathagsmuni, sem ákveða markvisst og samviskulaust að leyna þeim hagsmunum til að tryggja sér aðgang að valdastólunum, og svara gagnrýni með útúrsnúningum, hótfyndni og ennþá frekari lygum.
Eða þá algjörri þögn.
Ég skammast mín fyrir forsætisráðherra sem virðist haldinn alvarlegum Jesúkomplex og býr til þjóðsögu um sjálfan sig sem bjargvætt þjóðarinnar.
Ég skammast mín fyrir að Ísland skuli nú um víða veröld vera orðið að athlægi, vera orðið hneykslunarhella, fyrir klúður og spillingu.
En athugið eitt – það sem alheimur hlær nú að – og dæsir yfir því hvernig þetta gat gerst í norrænu velferðarlandi, í vestrænu lýðræðisríki, á fögru eyjunni okkar með hreina vatnið og jöklana og norðurljósin tæru – allt það sem fólk útí heimi býsnast nú yfir, það gerðist ekki í gærkvöldi klukkan sex - þegar Kastljós byrjaði.
Það hefur verið að gerast lengi. Það hefur verið að gerast árum saman – við, við fólkið í landinu, við höfum látið líðast að samfélagið okkar – samfélag sem er ætlað okkur og saman – það hefur orðið ránfuglunum að bráð. Við höfum látið líðast spillingu, vaxandi ójöfnuð, skeytingarleysi um hag okkar minnstu systra og bræðra – þetta höfum við látið líðast alltof lengi, og ég skammast mín fyrir minn þátt í því.
Og þótt það eigi auðvitað ekki að skipta öllu máli hvað útlendingum finnst um okkur – þá verð ég að viðurkenna að ég skammast mín alveg oní rassgat fyrir að forsætisráherrann í mínu landi sé nefndur í sömu andrá og Pútin og Assad, og það birtast af honum myndir ásamt ýmsum ófélegum þjóðarleiðtogum – undir fyrirsögninni:
“The Dirty Dozen.”
Ég skammast mín fyrir að ráðherrann sé svo óforskammaður að hann sjái ekki villu síns vegar, og hann heyri ekki hverjum klukkan glymur.
Enn í dag þorir hann ekki að horfast í augu við sjálfan sig – ekki einu sinni með „öðru auganu“.
Ég skammast mín fyrir að enn sé ráðist á fjölmiðla sem flytja fréttir af ósköpunum. Ég skammast mín fyrir forsætisráðherra sem hringir á lögregluna þegar blaðamenn reyna að fá tali af honum.
Og ég skammast mín fyrir að valdaklíkunum og auðmönnunum og spilltu pólitíkusunum og lágkúrulegu framapoturunum skuli hafa tekist að skapa hér svo pólaríserað andrúmsloft, að fjöldi fólks telur sér skylt að verja þessi ósköp. Jafnvel almennilegt fólk, skikkanlegt íslenskt fólk, það er enn að reyna að verja spillinguna, valdníðsluna, fáránleikann og fíflaskapinn og þá algjöru veruleikafirringu sem einkennir þessa ríkisstjórn.
Og ég skammast mín fyrir að formaður þess flokks sem í tæp hundrað ár hefur verið kjölfestan í íslenskri pólitík, flokksformaður og fjármálaráðherra sem veit fullvel fyrirfram á hverju er von og veit að hann verður þar sjálfur í aðalhlutverki – ég skammast mín fyrir að samt er hann ekki hér heima að reyna að bæta skaðann, upplýsa um sannleikann, gera hreint fyrir sínum dyrum og sinna, eða leggja þjóðinni lið – heldur er hann á Flórída að spila golf.
Og missti svo alveg óvart af flugvélinni heim, þar sem hann hefði átt að standa fyrir máli sínu í dag.
Eða heim? Er það kannski ekki rétt að orði komist? Er öruggt að Bjarni Benediktsson eigi heima hér?
Ég veit það ekki. En við eigum heima hér.
Þetta er landið okkar, þetta er samfélagið okkar. Og við skiljum hvað hefur gerst. Það þarf ekki að útskýra það fyrir okkur á lagamáli, og það mun ekki duga að drekkja því í loðrullu, rugli og þvælu.
Við skiljum orðið „samfélag“ þótt við höfum misst það í hendurnar á hræfuglum um stund, og þótt við höfum ekki gætt fjöreggsins okkar. Það samfélag á ekki vera leiksoppur valdaklíku og fégráðugra spillikróka sem líta á okkur sem námu til að tæma, akur til arðræna, fiskimið til að þurrausa, rennandi vatn til að virkja og selja.
Við eigum þetta land, og við erum þetta samfélag. Ekki þeir. Og þrátt fyrir allt – þá erum það ekki við sem eigum að skammast okkar.
Þeir eiga að skammast sín – valdsmennirnir.
Sigmundur Davíð, þú átt að skammast þín. Bjarni Benediktsson, þú átt að skammast þín. Og þið hin, sem eruð með þeim í klíku – skammist ykkar öll saman.
Látið samfélagið okkar í friði, þvælist ekki fyrir með ykkar einkahagsmuni þegar við viljum hreinsa út. Hér þarf að gefa upp á nýtt, hér þarf að kjósa, hér þarf að leggja niður hið hrokafulla starfsheiti „ráðherra”, hér þarf að hugsa svo margt, svo ótal margt uppá nýtt.
Og hunskist þið frá – vogið ykkur ekki að vera fyrir – hunskisti bara frá – því við þurfum að bjarga okkur sjálf.
Og til að það megi verða – þá þarf ríkisstjórn valdsherranna að fara frá – hún verður að fara frá. Burt með hana. Burt með þessa ríkisstjórn – nú þegar.
Látum ekki líða önnur sjö ár. Tökum til starfa – það er vor, þrátt fyrir allt.
Athugasemdir