Þegar erill daglegs lífs á Íslandi tekur að þjaka, bregður landinn iðulega á það ráð að halda á heitari slóðir. Ég flúði stressblandaðan hversdagsleikann nýverið og hélt til Tenerife með nærfjölskyldu. Hér liggur maður rænulaus á sundlaugarbakka hótels síns með hundruðum þjáningabræðra sinna sem einnig þurftu sárlega á þessu að halda. Hér þarf maður ekki að hafa áhyggjur af máltíðum sínum því þær eru allar innifaldar. Allt leirtau er einnota svo það fari nú ekki glerbrot í laugina, ofsalega þægilegt. Reyndar er eitthvað leiðindaflokkunarkerfi á ruslinu en sem betur fer er öllum slétt sama um það, maður fleygir bara öllu í lífræna. Aðspurt setur starfsfólkið þetta hvort eð er allt í sama gáminn.
Þegar maður skýst svo inn á hótelherbergi kíkir maður á Ólympíuleikana. Maður hefur stundum heyrt um að í Rio de Janeiro sé mikil fátækt en það getur varla verið miðað við dýrðina á skjánum. Svona undrasýning hlýtur að kosta sitt, það er aldeilis sem þau leyndu á sér.
Svo kíkir maður að versla í H&M, ég splæsti í fullt af flottum fötum fyrir samtals 20 þúsund kall. Maður skilur varla hvernig allir sem koma að flutningi, framleiðslu og sölu þessara fata geti grætt eitthvað á þessu, þetta er svo ódýrt! Eiginlega alveg óskiljanlegt, en einhvern veginn gera þau þetta, þessir meistarar. Get ekki beðið eftir að þeir opni nokkur útibú heima.
Einna helst snúast þó sólarlandafrí um strandferðir.
Í einni þeirra var ég á gangi nærri ströndinni þegar ég rak augun í yfirgefið óðalsetur í niðurníðslu, afgirt og sóðalegt. Ég gægðist yfir vírgirðinguna og sá ekkert nema rusl langar leiðir, þarna voru greinilega ábúendur, eitthvað vandræða hústökufólk. Óþefurinn sá um að halda flestum fjarri. En undarleg forvitni greip mig og ég klifraði yfir sjúskaða girðinguna með herkjum. Lenti með hendurnar á undan í einhverju óræðu og illa lyktandi í plastpoka. Ég dustaði af mér og gekk inn í kremhvíta villuna. Þegar inn um aðaldyrnar var komið var kolniðamyrkur. Mér skrikaði fótur og ég féll niður á langan og mjóan pall sem lýstur var upp af daufum túrkísbláum neonljósum. Hurðin hlaut að hafa lokast á eftir mér því ég sá ekkert í kringum mig nema pallinn. Á enda hans var stallur með glóandi kúlu sem virtist vera úr marmara. Ég gekk eftir pallinum í átt til hennar, hvert fótatak bergmálaði eins og rýmið væri á stærð við íþróttahöll. Það kom í ljós að kúlan var úr einhverju óræðara efni, síbreytileg á litinn með hálfgerða sápukúluáferð. Ég kom hikandi við hana og fannst sem hún drægi mig inn í sig. Ég var þá skyndilega kominn aftur út til fjölskyldu minnar í áhyggjulausa sæluna á Amerísku ströndinni. Þó var ekki allt með felldu því að þegar ég leit til himins sá ég að eyjan og hafið í kring voru umlukin einhvers konar hulu, himinhvolfi utan um eyjuna. Hvolfið hvarf bak við hafið skammt undan ströndu og fyrir utan það virtist ekkert vera nema himinn. Óðalsetrið niðurnídda var rétt undan. Það tók skyndilega að umbreytast í risavaxna saumnál sem stakk gat á þessa gríðarstóru sápukúlu og gríðarlegur hvellur skók jörðina. Eyjan liðaðist í sundur. Mannskarinn féll niður um glufurnar og húsin á eftir. Ég fann jörðina hverfa undan fótum mér.
Í órafjarska sást glitta í annað sápukúluhvolf utan þess nýsprengda. Svo virtist sem ég væri nú staddur í annarri stærri sápukúlu. Fyrir neðan mig nálgaðist Ísland óðfluga, sem virtist vera eina innihald þessarar kúlu. Í fallinu bar fyrir augu mér roskinn maður sem hneykslaðist á framferði hælisleitenda sem flissuðu saman í búningsklefa. Vafalaust þess fullviss að þeir væru að leggja á ráð um nauðgun. Ég blikkaði augunum og sá þvínæst einbeittan miðbæjarbúa í símanum með kvíðahnút í maganum reyna að tísta sem hnyttnustu Eurovision-tísti. Herskari fólks á barmi taugaáfalls vegna óvissu um starfsframa og framtíðarhúsnæði lá í öngum sínum hvert sem ég leit. Einhvers staðar í grenndinni ómaði FM95Blö í viðtæki. Þingmaður skammt undan hélt því fram að auknar virkjunarframkvæmdir væru hagkvæmur kostur fyrir þjóðarbúið, slík var sannfæringin að eitt augnablik trúði maður því jafnvel að hann tryði því sjálfur, og væri raunverulega ekki að hugsa lengra fram í tímann en þetta.
Þessi upplifun var í heildina mjög draumkennd. Í hvert skipti sem ég sneri mér við eða blikkaði augunum var ég kominn á allt annan stað en áður. Skyndilega var ég staddur á Lækjartorgi og horfði upp eftir óendanlega háu hóteli í byggingu. Um leið og ég góndi í átt að toppi hótelsins, teygði það sig of hátt og sprengdi sápukúluhvolfið sem umlukti allt. Sápukúlan sprakk með vetnissprengingarhvelli, Hallgrímskirkja féll fram fyrir sig á nokkra iPad-ljósmyndara og skelfingaróp glumdu um borgina. Úr hávaðanum mátti greina holan hlátur Loga Bergmanns, á milli þess sem ómótstæðileg rödd hans endurtók setninguna „hættið að vera svona neikvæð alltaf“.
„Þessi upplifun var í heildina mjög draumkennd.“
Ég hrapaði í gegnum holu sem myndaðist á miðjum Kalkofnsveginum sem átti þó ekkert í fallegu holurnar tvær hvor sínum megin við veginn. Í fallinu blasti við mér Miðjarðarhafið, þar sem ógrynni flótamannalíka flaut líkt og muldir ísmolar flutu í Mojito-kokteilnum mínum við sundlaugarbakkann daginn áður. Sýrlenskir flóttamenn sem í hrönnum kusu frekar að ráðast gegn torfæru hafinu en að deyja möglunarlaust heima í ofbeldinu. Útundan mér sá ég fátæka unga konu í Rio de Janeiro reyna í meðvirkni með borgaryfirvöldum að réttlæta það að búa í skólpveröld skammt undan galtómum risavöxnum íþróttaleikvöngum: „Þetta gæti verið verra, allavega er hægt að nýta þessar byggingar eftir Ólympíuleikana í ... uhh ... íbúafundi og eh ... bingó?’’
Handan alls þessa sá ég glitta í fjarlægasta sápukúluhvolfið til þessa. Ég áætlaði þá að í þessari þriðju sápukúlu væri gjörvallt samfélag manna samankomið.
Stór fylking Bandaríkjamanna vann hörðum höndum að því að skipta öllum sínum mat til helminga og safna svo öðrum helmingnum á risavaxið fórnaraltari, til heiðurs landfyllingarguðinum. „Dýrð, sér þér Hórusl!“ kyrjaði matarfórnarkórinn.
Samlandar þeirra í herstöðvarbyggingu nærri gáfu hvor öðrum spaðafimmur á milli þess sem þeir kepptust við að sigra í veðmáli sem þeir áttu sín á milli. Veðmálið – hver gæti drepið flesta Pakistana með drónum á vaktinni. „Tvöfalt headshot, móðurserðar! Það er greinilegt hvern þið eruð allir að fara að splæsa á einkadans og meððí í kvöld, fávitar!“ staðhæfði lautinantinn Tyler, með hasarmyndaglott á vör.
„Djöfulsins öðlingur og meistari,“ hugsaði ég á meðan ég leit út til hafs.
Úti í hafsauga blés skemmtiferðaskip á stærð við lítið land frá sér stríðum eiturgulum reykstraumi. Því næst tók það á loft eins og eldflaug og stefndi út í geim. Það flaug rakleiðis í gegnum kúluhjúpinn og stærsti hvellurinn til þessa fylgdi í kjölfarið. Ég datt út.
Ég rankaði við mér undir enn öðru sápukúluhvolfi. Í fljótu bragði var ekki hræðu að sjá. Bara ógnarstór kúla sem var full af lífi, dökkgræn af flóru plöntuheimsins en þó var hvers kyns landslag hvert sem ég leit. Náttúran í allri sinn fjölbreyttu dýrð. Einhver óræð og nöpur tilfinning fylgdi þó öllu sem fyrir augu bar. Svo rann upp fyrir mér ljós hvers vegna. Þegar ég rýndi á flennistóran ísjaka úti á hafi tók ég eftir að hann var að bráðna með hraði. Úthöfin öll voru að hitna og rísa. Plöntu- og dýrategundir inn á milli voru að visna upp og deyja. Ræktarland var smám saman að breytast í eyðimörk. „Jásæææll,“ hugsaði ég með mér, „allt í steik“.
Ég fór að taka eftir stöku manneskju á vappi með skelfingu í augunum. Það stóð yfirleitt ekki á löngu áður en hún var búin að blása upp risasápukúlu, stökkva inn í hana og fljóta upp til himins. Það höfðu nokkrir gert slíkt hið sama í kúlunni á undan, en í þessari fjórðu virtust fáir þola lengi við. Nokkrir aðilar virtust hafa dvalið þarna lengi, loftslagsfræðimenn, en flestir þeirra gengu um keðjubundnir við stórar olíutunnur sem þeir drógu á eftir sér.
Á meðan ég fylgdist með Suðurskautslandinu bráðna var eins og tímanum væri hraðspólað áfram. Sólin þaut fram hjá mér á nokkurra sekúnda fresti á meðan ísinn hopaði hratt. Ég varð var við linsupar sem lá í lófa mínum og setti þær í augun. Í snjalllinsunum var fréttaútsending, svo virtist sem að þessi litli heimur hafði spólast fram til næstu aldamóta. Hafstraumar voru farnir að breytast, sjávarmál búið að hækka um 1 metra, Flórída, Holland og fleiri staðir nærri sjávarmáli voru að miklu leyti sokknir í sæ. Fólk um allan heim flúði strendurnar. Ég fylgdist með hitabeltisstormi á Bahama-eyjum sem fleygði björgum á stærð við hús til og frá.
Á þessu augnabliki var ég helst farinn að búast við því að sjá ævafornan risaguð með kolkrabba fyrir höfuð rísa upp úr sænum. Ég minntist þá upphafslínanna úr Ákalli Chthulhu og fannst viðeigandi að mannfólk flýði í sínar sápukúlur. Því það að tengja alla punktana og sjá stóra samhengið, eins og ég hafði að vissu leyti fengið að gera þarna, keyrir fólk eflaust bara út af sporinu. Þess vegna þykir mér allt í lagi að hlæja að hörmungum heimsins, það gerir það auðveldara að höndla þær. Fyrir alla muni, gerið það frekar en að láta sem vandamálin séu ekki til.
Athugasemdir