Auðvitað er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson búinn að vera sem forsætisráðherra. Hann verður að segja af sér bæði sem ráðherra og þingmaður. Svo verður hann að íhuga vandlega sitt ráð.
Það sem er eiginlega skrýtnast er þessi atburðarás:
Sigmundur Davíð fer í viðtal við sænska sjónvarpsmenn. Í miðju kafi er hann spurður um Tortóla-fyrirtækið. Hann tafsar og gerir svo tilraun til að ljúga sig út úr málinu, en rýkur síðan á dyr.
Fjórum dögum síðar lætur hann líðast að eiginkona hans birti yfirlýsingu sem er röng og/eða villandi í ýmsum atriðum. Þar er til dæmis fullyrt að hún birti yfirlýsinguna vegna þess að „Gróa á Leiti“ sé komin á kreik.
Í yfirlýsingunni er á engan hátt vikið að því viðtali, sem þó er kveikja yfirlýsingarinnar, né að þar hafi Sigmundur gefið rangar upplýsingar.
Heldur er svo látið heita sem sænska ríkisútvarpið sé „Gróa á Leiti“.
Sigmundur Davíð böðlast svo áfram í fjölmiðlum hér heima - það er að segja þeim fáu fjölmiðlum sem hann „heiðraði“ með því að svara spurningum þeirra.
Hann býður þeim öllum upp á sama pratið.
Ekki í eitt einasta sinn reynir hann að undirbúa jarðveginn fyrir þá skelfilegu uppljóstrun, sem hann hlýtur þó að vita að sé yfirvofandi - sem sé að hann hafi reynt að ljúga sig út úr vitneskju um Tortóla-félagið í viðtali við sænska sjónvarpið.
(Allir venjulegir menn hefðu auðvitað fengið samviskubit og sagt af sér strax. En ekki Sigmundur Davíð.)
Jafnvel í dag birtir hann yfirlýsingu á heimasíðu sinni, þar sem hann reynir að kenna fjölmiðlum um allt þetta vesin - og ræðst meira að segja að nafngreindri fjölmiðlakonu.
Ekki frekar en áður virðist hann átta sig á því sem eiginlega er verst fyrir hann, en það er auðvitað margnefnd tilraun hans til að ljúga að sænsku sjónvarpsmönnunum.
Og þó hafði hann látið aðstoðarmenn sína hringja í sænska sjónvarpið og fara þess á leit að þessi kafli viðtalsins yrði ekki birtur.
(„Hæ, sænska sjónvarpið? Ég er að hringja fyrir Sigmund Davíð. Hann vill ekki að þið birtið þann hluta af viðtalinu við hann þar sem hann kemur illa út.“
Skyldu ekki Svíarnir hafa farið að skellihlæja?)
En spurningin er sem sagt þessi:
Er Sigmundur Davíð virkilega svo dómgreindarlaus að hann áttaði sig ekki á að það skiptir engu máli hvílíkar lofræður hann heldur um sjálfan sig í þrotlausri viðureign sinni við hina frægu „hrægamma“ - allt það sjálfshól varð einskis virði um leið og myndirnar birtust af honum að hökta og ljúga um Tortóla-félagið?
Og hann lætur stuðningsmenn sína verja sig fram í rauðan dauðan, þótt hann hljóti að átta sig á hvað sé yfirvofandi?
Sagði hann engum frá því sem gerðist? Ekki einu sinni þeim sem honum standa næstir?
Athugasemdir