Margt er líkt með stöðu í hagkerfisins í dag og þess jafnvægisástands sem við upplifðum á árunum 2002-2003. Því miður bendir einnig margt til þess að framhaldið gæti orðið það sama og að við stefnum í góðæri af svipuðum toga og ríkti hér á þenslusárunum síðustu. Við virðumst með öðrum orðum vera á svipaðri vegferð og áður. Stefnir nú í að launahækkanir upp á hátt í 10 prósent ár eftir ár muni endurtaka sig og ef fram fer sem horfir munum við ganga í gegnum svipaða raungengisstyrkingu og á árunum fyrir hrun. Slík styrking ýtir undir eftirspurn eftir innfluttum vörum og veikir samkeppnisstöðu útflutningsgreina.
Á síðasta þensluskeiði var hið opinbera gagnrýnt fyrir að ráðast í talsverðar fjárfestingar og auka útgjöld á góðæristímum og nú eru aftur sterkar vísbendingar þess efnis að opinber útgjöld muni aukast á komandi árum. Það stefnir því í enn eitt þensluskeiðið þar sem opinber fjármál auka á þenslu fremur en að draga úr henni líkt og þau ættu fremur að gera. Við það bætist að á sama tíma og við erum enn að vinna úr vaxtamunarviðskiptum síðustu góðærisára, sbr. hinar svokölluðu aflandskrónur, eru vaxtamunarviðskipti hafin á ný. Vaxtamun við útlönd svipar nú til þess sem hann var á árunum 2006-2007.
„Við virðumst með öðrum orðum vera á svipaðri vegferð og áður.“
Þó margt sé líkt með stöðunni núna og síðasta þensluskeiði þá hefur sú gagngera breyting orðið á útflutningsgeiranum að ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsatvinnugrein landsins og þrátt fyrir mikla raungengisstyrkingu síðustu missera er þjóðarbúið enn að skila viðskiptaafgangi upp á 6 prósent af landsframleiðslu. Með tilkomu ferðaþjónustunnar virðumst við því enn sem komið er þola hærra raungengisstig, þótt það gæti auðveldlega breyst. Skuldastaða þjóðarbúsins er jafnframt allt önnur í dag, en síðustu ár hafa heimili og fyrirtæki greitt niður skuldir og hrein erlend skuldastaða við útlönd hefur sjaldan verið betri. Á síðasta þensluskeiði var skuldastaðan t.a.m. mun alvarlegri. Þá hefur Seðlabankinn safnað nokkuð hressilega í gjaldeyrisforðann samhliða verulegu gjaldeyrisinnflæði öfugt við þau mistök góðærisáranna að hafa of lítinn gjaldeyrisforða til að mæta útflæði þegar að kreppti.
Margt jákvætt er að eiga sér stað um þessar mundir í íslensku efnahagslífi en um leið eru aðrir þættir sem skapa áhættu. Mikilvægt er að hafa í huga að tilkoma ferðaþjónustunnar hefur átt stóran þátt í því að koma okkur á þann stað sem við erum í dag. Boðaðar launahækkanir munu koma til með að bitna verulega á ferðaþjónustunni þar sem launahlutall er þar hærra en í flestum öðrum greinum. Miklar launahækkanir gætu því stórskaðað greinina og þar af leiðandi gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Að óbreyttu stefnir í mikla þenslu innan hagkerfisins á sama tíma og laun hækka mikið en slíkt getur orðið hættulegur kokteill í baráttunni fyrir stöðugleika á komandi árum.
Pistill Ásdísar Kristjánsdóttur er innlegg í umfjöllun um nýja góðærið sem birtist í októberblaði Stundarinnar.
Athugasemdir