Sigmundur Davíð Gunnlaugsson reynir nú að verja leyndina um hans prívathagsmuni með því að hann hafi unnið þjóðinni stórkostlegt gagn í viðureigninni við hina erlendu kröfuhafa.
Hann skrifaði í hinu makalausa bréfi sem hann og Anna Sigurlaug kona hans birtu á heimasíðunni hans:
„Ég greip með afgerandi hætti inn í atburðarásina í íslenskum stjórnmálum og boðaði fordæmalausar aðgerðir til að verja hagsmuni almennings ...“
Nú er auðvelt að rugla mig í ríminu þegar flóknir fjármálagjörningar eru annars vegar, en mér sýnist þó að Sigmundur Davíð sé - viljandi eða óviljandi - að rugla saman þremur hlutum þegar hann stærir sig af því mikla gagni sem hann hafi gert þjóðinni.
Eftir því sem ég man felast samskipti Sigmundar og hinna ýmsu kröfuhafa í hruninu í þrennu.
Í fyrsta lagi Icesave.
Sigmundur Davíð var maðurinn sem Indefense hópurinn valdi til að leiða baráttu sína gegn Icesave. Og það má Sigmundur eiga að hann gerði það af miklum dugnaði. Að sjálfsögðu var hann langt í frá sá eini sem barðist gegn Icesave, en hann má eiga það sem hann á.
Sumir halda því að vísu fram að sigurinn í Icesave-málinu hafi ekki verið jafn mikilvægur og Sigmundur og félagar vilja vera láta, og við værum eflaust komin jafn langt í bataferlinu eftir hrunið þótt jafnvel hinir hötuðu Svavarssamningar hefðu verið samþykktir. Þetta treysti ég mér ekki til að meta en þetta segir Már Seðlabankastjóri.
En hér má Sigmundur Davíð sem sé eiga það sem hann á, en athugið að við Hollendinga og Breta var að eiga varðandi einn þátt eins banka, ekki hina margfrægu almennu kröfuhafa allra bankanna þriggja.
Í öðru lagi „leiðréttingin mikla“.
Sigmundur Davíð hélt því fram fyrir kosningar 2013 að hann gæti útvegað 300 milljarða frá hinum erlendu kröfuhöfum - sem hann kallaði þá „hrægamma“ - og þeir peningar myndu fara beint í að leiðrétta húsnæðisskuldir almennings. Hann gaf meira að segja í skyn að upphæðin gæti verið „jafnvel hærri“ en þessir 300 milljarðar.
Raunin varð sú að „leiðréttingin mikla“ varð í raun „tilfærslan mikla“ þegar um 80 milljarðar (ekki 300) voru færðir úr ríkissjóði (okkar allra og barnanna okkar) til sumra þeirra sem skulduðu húsnæðislán, og var lítill vandi að reikna út að í mjög mörgum tilfellum fóru peningar til þeirra sem síst þurftu á að halda.
Og „hrægammarnir“ sluppu í sjálfu sér alveg við að borga tilfærsluna, þótt allir kröfuhafar (þar á meðal lífeyrissjóðir og Seðlabanki Íslands) borguðu reyndar bankaskatt sem beint rann í ríkissjóð. Og hefði verið hægt að nota í svo miklu nauðsynlegri verkefni en að „leiðrétta“ skuldir jafnvel forríks fólks.
Nú mun svo raunin vera sú að vegna hækkandi húsnæðisverðs hefur það tap sem einmitt þetta fólk varð fyrir í hruninu vegna húsnæðis að mestu gengið til baka.
Í þriðja lagi samningar við slitabú bankanna og kröfuhafa.
Raunar skilst mér að samningar við þá hafi legið að mestu fyrir þegar gengið var til kosninga 2013. Sigmundur Davíð hafi í raun alls ekki lagt neitt sérstakt til þeirra samninga - nema helst að slá þeim meira og minna á frest í nokkur misseri, af einhverjum ástæðum sem enn á eftir að skýra. Niðurstaðan varð sú að slitabúin borga um 400 milljarða króna í svokallað stöðugleikaframlag sem fer í að lækka skuldir ríkissjóðs.
Margir telja að vel hefði mátt fá meira en 400 milljarða í viðbót með því að skella skatti á slitabúin, og botna ekki í þeirri mildi sem slitabúunum var sýnd, en hvort sú leið hefði verið raunhæf skal ég ekki meta.
Kröfuhafarnir munu að minnsta kosti hafa verið hæstánægðir með sinn hlut eftir samningana.
En niðurstaðan af þessu þrennu er eiginlega eitt stórt spurningamerki.
Að Icesave frátöldu, þar sem Sigmundur Davíð sýndi Bretum og Hollendingum vissulega staðfestu, hver voru þá hin miklu afrek hans gagnvart kröfuhöfum?
Athugasemdir