Ég er kennari. Eða með öðrum orðum: ég er sérfræðingur í kennslu barna á grunnskólastigi. Ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 1993 og hef síðan bætt við mig menntun á meistarastigi. Ég hef starfað við kennslu á grunnskólastigi í hartnær 24 ár.
Að undanförnu hafa aðrir kennarar verið duglegir að fjalla um störf okkar og benda á mikið álag og áreiti, vinnuaðstöðu(leysi), agavandamál, foreldrasamskipti og fleira slíkt sem fjölbreytt starf grunnskólakennara felur í sér. Ég ætla því ekki að fjalla um þessi mál hér heldur beina sjónum að því sem liggur til grundvallar kennarastarfinu og þeirri sérfræðiþekkingu sem við kennarar búum yfir og vinnum út frá.
Ég er sérfræðimenntuð í kennslufræðum og í þeirri menntun felast margs kyns fræði sem taka til allra þátta skólastarfsins. Menntun mín felur því meðal annars í sér námskrárfræði, námsefnisfræði, námsmatsfræði, uppeldisfræði, námssálarfræði, þroskasálfræði og félagsfræði. Innan allra þessara fræða eru svo ákveðnar áherslur, svo sem kennslufræði stærðfræði, eigindlegar og megindlegar fræðilegar rannsóknir á fjölbreyttum þáttum náms og kennslu, lög og reglugerðir varðandi barnavernd, nám og kennsla yngri barna/unglinga, kennslufræði lestrar, kennslufræði tungumála, sérgreinakennsla hvers konar og þjálfun í einstökum (náms)þáttum þar sem kennarar sækja sér viðbótarþekkingu samkvæmt þeim áherslum sem ríkjandi eru í því fagi eða á því stigi sem þeir kenna. Kennaranámið, bæði grunnnámið og framhaldsnámið, er því afar fjölbreytt sérfræðinám sem nær yfir ákaflega vítt svið.
Ég held því fram að kennslunni sjálfri megi skipta í þrjú jafngild og samfléttuð svið. Eitt svið kennslu nær yfir sjálf fræðin á bak við nám og kennslu barna, eins og fram hefur komið. Annað svið kennslu nær yfir praktísk atriði, svo sem samstarf við aðra sérfræðinga og fagaðila og að skipuleggja kennslu út frá þeim áherslum sem vinna skal með samkvæmt námskrá, að viða að sér viðeigandi námsefni, sjá til þess að verkefni séu fyrir alla nemendur, sérsníða verkefni að ákveðnum hópum eða einstaklingum og hafa tiltæk þau gögn sem stuðla að því að kennslustundin skili því sem ætlast er til hverju sinni, það er að það nám fari fram sem miðað var að. Þriðja svið kennslunnar má svo kalla „listina að kenna,“ að kalla fram eiginlegt nám hjá nemendum, laða fram þá þætti sem þarf til hjá hverjum og einum til þess að kennslan skili árangri. Þegar ég tala um list í þessu samhengi, þá á ég við það að kennsla er ákveðið listform hjá hverjum og einum kennara. Við erum ekki aðeins sérfræðingar í okkar fagi á fræðilegum grunni, heldur einnig listamenn og efniviður okkar eru margir flóknir samhangandi þættir; fræðilegir, efnislegir (sem byggja meðal annars á þáttum eitt og tvö) og óhlutbundnir (sem byggja meðal annars á reynslu og persónu hvers kennara og á nemendum sjálfum, bæði sem einstaklingum og sem hópi, ásamt ytri aðstæðum hverju sinni, svo sem þjóðfélagsmálum, árstíð og samfélagslegum viðburðum, svo eitthvað sé nefnt).
„Við erum ekki aðeins sérfræðingar í okkar fagi á fræðilegum grunni, heldur einnig listamenn og efniviður okkar eru margir flóknir samhangandi þættir.“
Margt af því sem kemur inn á borð kennara er strangt til tekið ekki í starfslýsingu okkar, ekki á okkar sérfræðisviði, ætti ekki að vera eitthvað sem við þurfum að glíma við í vinnunni – og jafnvel utan vinnutíma. Við gerum það samt og teygjum okkur oft og tíðum langt út fyrir okkar sérfræðisvið, sem í einföldu máli er kennslufræðilegs eðlis – þó það sé langt frá því að vera einfalt mál.
Við kennarar erum sérfræðingar í okkar margþætta og flókna fagi og búum yfir sérþekkingu og færni sem störf okkar byggja á, líkt og viðskiptafræðingar eru sérfræðingar á sviði viðskipta, hjúkrunarfræðingar eru sérfræðingar á sviði hjúkrunar og flugvirkjar eru sérfræðingar á sviði viðhalds og viðgerða flugvéla. Við kennarar leggjum grunninn hjá þeim einstaklingum sem síðar meir verða viðskiptafræðingar, hjúkrunarfræðingar og flugvirkjar. Það er ekki ósanngjörn krafa að laun kennara endurspegli mikilvægi starfsins og séu í takt við þá menntun sem liggur að baki.
Fyrir hundrað prósent vinnu sem grunnskólakennari með rúmlega 23 ára kennslureynslu og fimm ára háskólanám að baki fæ ég um 320 þúsund krónur útborgaðar, eftir skatta og gjöld, og ég kemst ekki hærra í launastiganum. Menntun mín, sérfræðiþekking og störf með nemendum, í þágu þjóðfélagsins alls þegar öllu er á botnin hvolft, eru ekki metin til hærri fjárhæðar en þetta. Það er auðvitað bæði sorglegt og skammarlegt og ég skammast mín fyrir launin mín. Þau gera lítið úr mér sem fagmanni og sérfræðingi og þau gera lítið úr æsku landsins, sem samkvæmt þessu er ekki meira virði en svo að sú stétt sem sinnir henni, leiðbeinir, uppfræðir og menntar, er smánuð hver mánaðarmót með launagreiðslu sem kemst ekki nálægt því að framfleyta henni. (Þetta sést svart á hvítu á vef Velferðarráðuneytisins þar sem finna má reiknivél fyrir neysluviðmið).
Það segir sig sjálft að yfirvofandi kennaraskortur verður að raunverulegum kennaraskorti innan örfárra ára ef ráðamenn bera ekki gæfu til að hlusta á raddir kennara og réttmætar kröfur þeirra í kjaramálum. Örfá ár getur þýtt tvö ár, fimm ár ... Grafalvarlegt ástand blasir við í menntamálum þjóðarinnar. Það er ekkert annað að gera í stöðunni en að meta sérfræðimenntun og -störf kennara að verðleikum og í þeim efnum þurfa launagreiðendur okkar og samfélagið allt að hysja upp um sig buxurnar, bretta upp ermar og spýta í lófana. Það þarf engar langar og flóknar samningaviðræður milli samningsaðila (nóg hafa viðræður dregist á langinn nú þegar), það þarf bara að hækka laun kennara tafarlaust um að lágmarki 350 þúsund krónur í einu stökki, afturvirkt til þess tíma sem kennarar urðu samningslausir. Að mínu mati er ekki of langt seilst með þessari kröfu, þótt síður sé.
Athugasemdir