Pepe Mujica er oft kallaður „fátækasti forseti heimsins“ og það eru eflaust orð að sönnu. Hann var forseti Úrúgvæ þangað til í fyrra en í stað þess að líta á embættið sem tækifæri til að raka að sér fé deildi hann enn kjörum með fátækasta hluta úrúgvæískrar alþýðu.
Í viðtali sem birtist fyrr í dag á spænskri rás CNN sagði hann meðal annars:
„Við fundum upp það sem við köllum fulltrúaræði og segjum að það sé meirihlutinn sem ráði. Því sýnist mér að við [þjóðarleiðtogar] eigum að lifa eins og meirihlutinn en ekki eins og minnihlutinn.“
Hann sagðist ennfremur ekki hafa neitt á móti ríku fólki en kvaðst telja að það stæði sig ekki vel sem fulltrúar þess meirihluta sem væri ekki ríkur.
„Ég hef ekkert á móti fólki sem á peninga, sem elskar peninga, sem er vitlaust í peninga,“ sagði forsetinn fyrrverandi. „En í pólitík þurfum við að aðgreina það fólk. Við þurfum að reka það fólk sem elskar peninga of mikið úr stjórnmálum, slíkt fólk er hættulegt í stjórnmálum ... Fólk sem elskar peninga ætti að helga sig iðnaði eða verslun, og margfalda auðinn. En stjórnmál snúast um baráttuna fyrir hamingju allra.“
Athugasemdir