Þegar okkur þykja forsendur fyrir samtali fáránlegar getur samtalið reynst býsna erfitt. Fyrir mér er til dæmis mun auðveldara að færa rök fyrir því að Free the nipple herferðin hafi verið öflugt vopn í höndum kvennanna sem stóðu fyrir henni heldur en því að að karlar megi alls ekki eiga konur, stjórna þeim og berja þær.
Þessu tengt: Í dag birti Kvennablaðið aðsenda grein Ólafs Grétars Gunnarssonar sem meðal annars titlar sig fræðimann í jafnréttisfræðslu, hvað í veröldinni sem það nú þýðir. Greinin er einhver sú undarlegasta þvæla sem ég hef lesið í dag og hef þó litið allnokkrum sinnum við á Facebook, Vísi og meira að segja einu sinni á Andríki. Ég ætla samt að reyna að svara henni.
Ólafur hefur mál sitt á fullyrðingu um að hætta sé á að „erfiðum málum“ fjölgi í Reykjavík með fulltingi stjórnvalda. Hann segist svo ætla að nefna tvær ástæður en nefnir reyndar bara eina. Hún er sú að almenningur geti ekki lagt mat á áhrif aukins aðgengis að brennivíni, það geti hinsvegar allskonar sérfræðingar sem hafi bent á hættuna.
Svo fer hann allt í einu að tala um að íslenskar stúlkur byrji fyrr að stunda kynlíf en stúlkur í nágrannalöndunum. Hvergi koma þó drengir við sögu svo það má gera því skóna að þær séu annað hvort að stunda þetta kynlíf hver með annarri, og takast þá að gera hver aðra óléttar með einhverjum leiðum sem ég kann ekki skil á, eða að fullorðnir karlar séu líklegri hér en í nágrannalöndunum til að níðast kynferðislega á unglingum. Ef svo er skulum við samt alls ekki beina spjótum okkar að þeim heldur gera stúlkurnar ábyrgar fyrir því að koma sér í þessar aðstæður. Þær eru nefnilega á fullu að næla sér í kynsjúkdóma og skaða sjálfsmyndina sína samkvæmt grein Ólafs. Ég velti fyrir mér hvort það sé hugsanlegt að þær séu sumar að stunda kynlíf með drengjum en það skipti Ólaf engu máli af því að það er ekki í verkahring drengja að axla ábyrgð á afleiðingum kynlífs.
„Höfundur talar af stalli sínum niður til ungra kvenna á grundvelli kynhegðunar þeirra og firrir unga karla ábyrgðinni″
Skyndilega er svo Reykjavíkurborg dregin inn í málið, ein sveitarfélaga, en forvarna- og jafnréttisfræðsla ku vera til gegn þessu lauslæti, kynsjúkdómum, barneignum og sjálfsmyndarskaða sem er að plaga íslenskar unglingsstúlkur. Reykjavíkurborg og Alþingi horfa framhjá þessari góðu fræðslu. Það kemur ekki fram hvað hann á beinlínis við en mér flugu tvær hugsanlegar skýringar í hug; að hann standi í þeirri meiningu að Reykjavíkurborg setji lög um það hvernig er hægt að nálgast áfengi í borgarlandinu. (Tókstu eftir því að ég nefndi bara eina?)
Það er bókstaflega ekkert í þessari grein sem stenst nokkra einustu skoðun nema tilvitnun sem er tekin af vef landlæknis. Þess utan eru þessi skrif skaðleg. Höfundur talar af stalli sínum niður til ungra kvenna á grundvelli kynhegðunar þeirra og firrir unga karla ábyrgðinni af afleiðingum þessarar sömu kynhegðunar. Þetta gerir hann allt undir því yfirskini að hann vilji vernda stúlkur. Mín vegna, og ég hef verið ung stúlka sem stundaði allskonar kynlíf, má hann taka þessa vernd og troða henni.
Það er á svona stundum sem rifjast upp fyrir mér þörfin fyrir kaldhæðnisverðlaun í blaðamennsku. Þegar Kvennablaðið ber enn og aftur á borð fyrir mig kvenfyrirlitningu og kvenfjandsamleg viðhorf miðaldra karla. Ég velti fyrir mér hvaða kríteríu Kvennablaðið setti sér fyrir birtingu aðsendra skrifa. Kannski var hún svona: „Hafi höfundur raðað orðum á blað þannig að þau komist nálægt því að mynda setningar skal greinin tekin til birtingar.“ Mikið væri nú gaman ef fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega myndu sleppa því að bera á borð fyrir mig svona kjaftæði.
Athugasemdir